Menningarmálaráðherrarnir: Hið norræna samstarf okkar er mikilvægara en nokkru sinni fyrr

05.05.21 | Fréttir
Libia Castro & Ólafur Ólafsson
Ljósmyndari
Libia Castro & Ólafur Ólafsson

„Í leit að töfrum“ í Hafnarhúsinu í Reykjavík í október 2020. Verkið er eftir listamennina Libiu Castro og ÓIaf Ólafsson og hlaut styrki frá menningar- og listaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar og Norræna menningarsjóðnum.

Áhrif heimsfaraldursins á menningarmál og fjölmiðla norrænu landanna voru ofarlega á blaði á fyrsta ráðherrafundi norrænu menningarmálaráðherranna á þessu ári, þar sem ráðherrarnir urðu ásáttir um áherslur fjárhagsáætlunarinnar fyrir næsta árið.

Undanfarið ár hefur verið afar óvenjulegt fyrir menningarstarfsemi í öllum norrænu löndunum. Á fundi sínum á þriðjudag ræddu menningarmálaráðherrarnir meðal annars tvær skýrslur um heimsfaraldurinn og menningar- og fjölmiðlageira landanna, sem vakið hafa athygli og voru kynntar á fundinum. COVID-19 hefur haft mikil áhrif og ráðist hefur verið í umfangsmiklar aðgerðir vegna faraldursins í öllum norrænu löndunum.

„Listafólk og fólk í menningargeira og fjölmiðlum hefur sýnt aðdáunarverða aðlögunarhæfni við erfið skilyrði. Skýrslurnar benda jafnframt til þess að afar mikilvægt sé að halda norrænu menningarsamstarfi gangandi – mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr,“ segir Annika Saarikko, rannsókna- og menningarmálaráðherra Finnlands og formaður í norrænu ráðherranefndinni um menningarmál 2021. 

Önnur skýrslan var unnin af Nordicom, norrænu gagnamiðstöðinni um fjölmiðlarannsóknir við Gautaborgarháskóla, en hin af Kulturanalys Norden/Telemarksforsking. Báðar voru unnar að beiðni norrænu menningarmálaráðherranna og veita nýjan þekkingargrundvöll fyrir áríðandi pólitísk málefni, bæði landsbundið og á samnorrænum vettvangi.  Til þess að mæta þeim áskorunum í menningargeira sem heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér ákváðu ráðherrarnir að veita fjármagni til framhaldsgreiningar á þeim raunbreytingum sem orðið hafa á markmiðum, styrkjaáætlunum og fjárhagsáætlanagerð norrænu landanna á sviði menningarmála.

Áframhaldandi áhersla á menningarstyrkjaáætlanir fyrir allan menningargeirann

Á fundi menningarmálaráðherranna var einnig fjallað um forgangsröðun í hinni sameiginlegu norrænu fjárhagsáætlun á menningarsviði. Þar blasir við niðurskurður í kjölfar þess að norrænu samstarfsráðherrarnir ákváðu að breyta forgangsröðun fjárveitinga vegna starfsins að framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar um að Norðurlönd verði orðin sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Hvað norrænt menningarsamstarf áhrærir þýðir þetta niðurskurð um tæp 20 prósent af heildarfjárhagsáætlun á tímabilinu 2020-2024.

„Þetta er að sjálfsögðu ekki auðvelt ferli en saman höfum við orðið ásátt um tillögu að forgangsröðun sem öll löndin geta stutt. Niðurskurður í fjárhagsáætluninni þýðir að ýmiss konar starfsemi í norrænu menningarsamstarfi mun ekki fá fjárveitingu í fjárhagsáætlun næsta árs þrátt fyrir góðan árangur,“ segir Annika Saarikko, rannsókna- og menningarmálaráðherra Finnlands, og heldur áfram:

„Þess vegna vil ég og hinir norrænu kollegar mínir leggja áherslu á að þetta snýst um nauðsynlega málamiðlun en ekki óánægju með störf þeirra aðila sem munu verða fyrir barðinu á niðurskurðinum. Því miður mun sparnaður í fjárhagsáætluninni hafa í för með sér áskoranir fyrir alla hlutaðeigandi. Við viljum verja opnu menningarstyrkjaáætlanirnar eins og hægt er fyrir miklum niðurskurði – þær eru ekki síst mikilvægar í því ástandi sem nú ríkir í menningargeiranum vegna heimsfaraldursins.“

Formleg ákvörðun um heildarfjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir 2022 verður tekin af norrænu samstarfsráðherrunum í byrjun nóvember. Einn liður þeirrar ákvörðunar varðar fyrirhugaðan niðurskurð á sviði menningarmála fyrir árið 2022.

Öflugt menningarsamstarf á að varða veginn fram til 2030

Menningarmálaráðherrarnir eru ákveðnir í að beita sér fyrir öflugu menningarsamstarfi landanna þrátt fyrir erfiða stöðu varðandi fjárhagsáætlunina. Nýlega útkomin samstarfsáætlun þeirra fyrir tímabilið 2021–2024 gefur tóninn fyrir það hvernig menningarmálin geta orðið drifkraftur sjálfbærrar þróunar á Norðurlöndum. Samráð milli einstaklinga, stofnana og fyrirtækja, auk samstarfs þvert á málaflokka, skiptir sköpum til að draga úr þeirri fjarlægð sem myndast hefur vegna COVID-19. 

„Menningin byggir mikilvægar brýr yfir landamæri norrænu landanna. Það að við sem búum vítt og breitt um Norðurlönd getum hist og kynnst hversdagslífi hvert annars gegnum kvikmyndir, tónlist og myndlist er afar mikilvægt ef við eigum að ná því markmiði að verða samþættasta svæði heims. Öflug menningarsamskipti hjálpa okkur líka á tímum sem kalla á breytingar, eins og í starfinu að grænum umskiptum eða í þeim heimsfaraldri sem nú stendur yfir,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.