Ný skýrsla: Miklar afleiðingar heimsfaraldurs á fjölmiðlageirann á Norðurlöndum

15.04.21 | Fréttir
Redaktion Nyhetsmedier
Ljósmyndari
Flemming Krogh//Ritzau Scanpix
Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur haft mikil áhrif á norræna fréttamiðla. Samfara stórskertum auglýsingatekjum hefur áhugi almennings á faglegum fréttaflutningi aukist. Margir fjölmiðlar hafa greint frá mikilli aukningu í sölu rafrænna áskrifta eftir að faraldurinn tók að breiðast út. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Nordicom sem unnin var að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar.

COVID-19 skall á Norðurlöndum og heimsbyggðinni allri af fullum krafti vorið 2020 og gætti áhrifa faraldursins ekki síst í menningar- og fjölmiðlageiranum á Norðurlöndum. Einu ári síðar er skýrslan „Covid-19 och de nordiska nyhetsmedierna“ („COVID-19 og norrænir fréttamiðlar“) kynnt – sú fyrri af tveimur greiningum sem norrænu menningarmálaráðherrarnir settu af stað til að auðveldara yrði að skilja og takast á við þær áskoranir sem geirinn stendur nú frammi fyrir út frá norrænu sjónarhorni.

„Fjölmiðlageirinn á Norðurlöndum hefur átt stormasamt ár með miklum breytingum. Þó að við séum enn í miðjum heimsfaraldri inniheldur skýrslan dýrmæta greiningu á ástandinu þessa stundina og í henni er vakin athygli á mikilvægum málefnum er varða fjölmiðlastefnu frá norrænu sjónarmiði,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Munur á milli landanna

Áhrif heimsfaraldursins á fjölmiðlageirann á Norðurlöndum eru mismikil eftir löndum. Nordicom, norræna gagnamiðstöðin um fjölmiðlarannsóknir við Gautaborgarháskóla, hefur verið í fararbroddi í því verkefni að kortleggja þróunina hjá einkareknum fréttamiðlum á heimsfaraldursárinu 2020. Rannsóknin var unnin í samstarfi fjölmiðlafræðinga frá öllum norrænu löndunum.

„Markaðir norrænu landanna fyrir faglega fréttamiðla eru mismunandi að byggingu og afar ólíkir hvað varðar stærð, framboð, fjármögnunarlíkön og fjárhagslegt bolmagn. Viðhorf gagnvart ríkisstyrkjum til einkarekinna fjölmiðla eru líka afar ólík í norrænu löndunum. Allsherjarkreppa sem bitnar á efnahagnum og samfélaginu – líkt og kórónufaraldurinn – dregur þennan greinarmun að ýmsu leyti skýrt fram,“ segir Ida Willig, prófessor við Hróarskelduháskóla og einn af ritstjórum skýrslunnar.

Skertar auglýsingatekjur en auknar tekjur frá almenningi

Hagkerfi norrænu landanna drógu snögglega saman seglin á vordögum 2020 og strax í kjölfarið dró töluvert úr vilja til fjárfestinga á norrænum auglýsingamörkuðum. Einkum fækkaði auglýsingum mjög í prentuðum dagblöðum en í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð nam skerðingin allt að 25 prósentum árið 2020. Það samsvarar tekjutapi upp á 290 milljónir evra. Um leið færðist í aukana að fjárfest væri í auglýsingum á netinu í þremur af fjórum löndum.

„Takmarkanir vegna heimsfaraldursins hafa breytt hegðun á auglýsingamarkaði með býsna áþreifanlegum hætti. Um leið og margar hefðbundnar verslanir eiga erfitt uppdráttar hefur netverslun blómstrað. Þetta hefur aukið áhuga á því að auglýsa á netinu. Þessi þróun kemur sér vel fyrir hnattrænar auglýsingaveitur á borð við Google og Facebook en kemur illa niður á lands- og svæðisbundnum auglýsingamiðlum,“ segir Jonas Ohlsson, framkvæmdastjóri Nordicom.

Um leið og einkareknum fréttamiðlum veitist sífellt erfiðara að halda í auglýsendur sína er þróunin gagnvart almenningi með gagnstæðu móti. Öll norrænu löndin greindu frá því á árinu 2020 að fréttamiðlar af ýmsu tagi næðu nú til breiðari hóps neytenda en fyrr – ekki síst á netinu.

Fjölmiðlun hefur styrkt stöðu sína

Auknum áhuga almennings á fréttum hefur fylgt aukinn vilji til að greiða fyrir efni fréttamiðla á netinu. Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar er greinilegt að fleiri heimili á Norðurlöndum velja að greiða fyrir fréttamiðla á netinu en áður.

„Fréttamiðlarnir hafa leikið mikilvægt hlutverk á tímum heimsfaraldursins. Bæði við að miðla upplýsingum og rýna í pólitískar ákvarðanir. Þá sýna ýmsar rannsóknir að traust í garð norrænna fréttamiðla jókst á árinu 2020. Það að fleiri Norðurlandabúar velji nú að greiða fyrir fréttir bendir til þess að fagleg fjölmiðlun hafi styrkt stöðu sína í augum almennings á tímum heimsfaraldursins,“ segir Ida Willig.

Áhugi almennings á bæði ríkis- og einkareknum fréttamiðlum á tímum heimsfaraldursins hefur sýnt fram á gildi norræna líkansins. 

Jonas Ohlsson, framkvæmdastjóri Nordicom

Metupphæðir í styrki

Í kjölfar hins skarpa hruns á auglýsingamarkaði vorið 2020 upphófst fjörleg umræða víða um Norðurlönd um sértækar stuðningsaðgerðir fyrir fjölmiðlageirann. Úr varð að á árinu 2020 voru ríkisstyrkir greiddir til einkarekinna fréttamiðla í öllum norrænu löndunum. Styrkféð nam alls 275 milljónum evra, sem er metupphæð í þessu samhengi. Um þriðjungur styrkjanna samanstóð af sérstökum heimsfaraldursstyrkjum.

Þó var töluverður munur á milli norrænu landanna. Reiknað út frá höfðatölu var beinn stuðningur við einkarekna fréttamiðla um tíu sinnum meiri í Svíþjóð og Danmörku en í Finnlandi á árinu 2020.

„Sögulega séð hafa fjölmiðlar á Norðurlöndum einkennst af virkri fjölmiðlastefnu sem rúmar bæði stórar ríkisstöðvar, fjármagnaðar af hinu opinbera, og sértækar stuðningsaðgerðir fyrir einkarekna fréttamiðla. Undanfarinn áratug hefur þetta líkan orðið æ pólitískara og norrænu löndin hafa í auknum mæli valið mismunandi útfærsluleiðir fyrir fjölmiðlastefnu sína. Áhugi almennings á bæði ríkis- og einkareknum fréttamiðlum á tímum heimsfaraldursins hefur sýnt fram á gildi norræna líkansins. Það stuðlar að því að auka vægi fjölmiðlastefnu í umræðunni, einnig eftir að faraldrinum lýkur,“ segir Jonas Ohlsson.  

Nánari upplýsingar á vefmálþingi 22. apríl

Langar þig að vita meira? Viltu spyrja skýrsluhöfunda að einhverju? Þann 22. apríl býðst þér að kynna þér helstu niðurstöður nýrrar skýrslu, „Covid-19 och de nordiska nyhetsmedierna“, á vefmálþingi í beinu streymi með kynningu og umræðum. Áhorfendur munu geta borið upp spurningar. Kynningin fer fram á skandinavísku.

Þátttakendur:

  • Mark Blach-Ørsten, prófessor við Hróarskelduháskóla
  • Jonas Ohlsson, forstöðumaður Nordicom við Gautaborgarháskóla
  • Heini í Skorini, aðjúnkt við Færeyjaháskóla
  • Randi S. Øgrey, framkvæmdastjóri hjá landssambandi fjölmiðlafyrirtækja í Noregi
  • Heidi Avellan, stjórnmálaritstjóri hjá Sydsvenskan (umræðustjóri)

Dagskrá:

  • Gestir boðnir velkomnir
  • Kynning á niðurstöðum skýrslunnar
  • Spurningum áhorfenda svarað (gegnum spjallglugga)
  • Pallborðsumræður
  • Samantekt