Mikil áhrif og vel heppnaðir stuðningspakkar fyrir menningargeirann á Norðurlöndum í heimsfaraldri

28.04.21 | Fréttir
P8 Jazz Alive i DR Koncerthuset
Ljósmyndari
Torben Christensen/Ritzau Scanpix

Tómur tónleikasalur vegna kórónuveirufaraldursins á P8 Jazz Alive í tónleikahúsi DR, danska ríkisútvarpsins.

Á öllum Norðurlöndunum er menningargeirinn meðal þeirra geira sem yfirstandandi heimsfaraldur hefur bitnað hvað harðast á. Stuðningsaðgerðir vegna kreppunnar hafa verið áþekkar í öllum löndunum og úrræðin þykja hafa virkað best á sviði tónlistar- og sviðslista. Um leið og tekjur hafa minnkað um helming hjá stórum hópum innan menningargeirans hafa sumir hópar innan geirans fundið fyrir efnahagslegum uppgangi. Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar skýrslu frá Kulturanalys Norden sem unnin var samkvæmt beiðni frá Norrænu ráðherranefndinni.

Fyrir rúmu ári varð menningarlífið á Norðurlöndum fyrir stóráfalli vegna Covid-19. Hátíðum var aflýst, söfnum lokað og leiksýningum var streymt til áhorfenda heima í stofu. Í nýju skýrslunni „Covid-19-pandemiens effekter på kultursektorn i de nordiska landene“ voru afleiðingar heimsfaraldursins greindar og hvernig til tókst með þau úrræði sem norrænu ríkisstjórnirnar efndu til.

„Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á menningargeirann á Norðurlöndum. Greiningin dregur bæði upp mynd af núverandi stöðu og bendir á stefnumótun í menningarmálum sem skiptir máli fyrir það að menningarsamskipti landanna gegni áfram lykilhlutverki í norrænu samstarfi,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.  

Stuðningspakkar nokkuð vel heppnaðir

Í skýrslunni kemur fram að engar skýrar vísbendingar eru um kerfislægan mun á því hver áhrif heimsfaraldursins hafi verið á menningargeira landanna þrátt fyrir að takmarkanir hafi verið mismunandi milli landa. Áhrif heimsfaraldursins á menningarstarfsemi eru þó veruleg bæði til skemmri og lengri tíma. 

„Úrræði og stuðningspakkar vegna faraldursins hafa þótt heppnast nokkuð vel á Norðurlöndum. Hins vegar veldur vanda í flestum löndunum að smærri aðilum, aðallega þeim sem eru sjálfstætt starfandi, nýtist ekki stuðningurinn eins og æskilegt væri,“ segir Joakim Boström Elias, yfirmaður Kulturanalys Norden.

Mesti stuðningurinn við menningarstefnu í Noregi og Danmörku

Úrræði og stuðningspakkar til handa þeim sem hlut eiga að máli hafa verið með nokkuð svipuðu sniði á öllum Norðurlöndunum. Heimsfaraldurinn kemur sérstaklega hart niður á þeim hluta menningarstarfsemi sem byggir á áhorfendum, svo sem tónleikum, sviðslistum og listsýningum. Best þykir hafa tekist til með úrræði og stuðningspakka fyrir tónlistar- og sviðslistastarfsemi á Norðurlöndum. Mesti stuðningurinn við menningarstefnu hefur verið í Noregi og Danmörku.

Vandi sem einnig hefur verið greindur í öðrum alþjóðlegum skýrslum er að aðgerðirnar hafa ekki verið nægilega vel aðlagaðar aðstæðum í menningargeiranum og er þá átt við vinnuaðstæður og fjármögnun og tekjur.

Aukið óöryggi fólks sem starfar í menningargeiranum

Í skýrslunni kemur fram að heimsfaraldurinn hefur valdið lakari tekjum og auknu óöryggi um starfs- og tekjumöguleika til framtíðar fyrir verulegan hluta þess fólks sem starfar í menningargeiranum á Norðurlöndum. Undantekning frá þessu eru þau sem starfa í stafræna geiranum en þar hefur fremur orðið uppsveifla. Þetta á við netvanga þar sem bíómyndum, sjónvarpi og tónlist er streymt en einnig stafræna bóksölu.

Kannanir í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi sýna að talsverður hluti þess fólks sem starfar í menningargeiranum hefur hugleitt að skipta um starfsvettvang.

Hætt við að menningarframleiðsla verði þjóðbundnari

Heimsfaraldurinn getur haft slæm áhrif á norrænt samstarf um menningarstefnu vegna þess að samskipti milli landanna minnka.

„Trúlega mun líða nokkur tími þangað til að menningarframleiðsla sem byggir á ferðalögum og alþjóðlegu samstarfi kemst í samt lag og það getur leitt til þess að menningarframleiðsla verði þjóðbundnari og hugsanlega að það dragi úr miðlun menningarstefnu á Norðurlöndum,“ segir Joakim Boström Elias, yfirmaður Kulturanalys Norden.

Boð: Nánari upplýsingar á vefþingi 28. apríl

Boðið er til þátttöku í kynningu á helstu niðurstöðum nýju skýrslunnar á vefþingi sem haldið verður í beinu streymi. Þar kemur saman vísindafólk, listafólk og fólk sem starfar á sviði menningarmála á Norðurlöndum. Áheyrendur geta lagt fram spurningar á spjallrás fundarins. Töluð verða skandinavísk tungumál á þessum viðburði.

 

Þátttakendur:

  • Trine Søndergaard, ljósmyndari og sjónlistamaður
  • Joachim Thibblin, leikhússtjóri Svenska Teatern i Helsingfors
  • Joppe Pihlgren, yfirmaður Svensk Live
  • Liselott Forsman, framkvæmdastjóri Nordisk Film & TV Fond
  • Sabina Westerholm, forstjóri Norræna hússins í Reykjavík
  • Joakim Boström Elias, yfirmaður Kulturanalys Norden
  • Dr. Ola Berge, sérfræðingur og höfundur skýrslunnar, Telemarksforsking
  • Camara Lundestad Joof, handritshöfundur og aðili að Norsk kulturråd (fundarstjóri)

 

28. apríl, kl. 13-14.30 (CEST)

Um skýrsluna

Skýrslan „Covid-19-pandemiens effekter på kultursektorn i de nordiska landene“ sem Kulturanalys Norden vann er önnur tveggja greininga sem norrænu menningarmálaráðherrarnir hafa staðið að með það að markmiði að skilja betur og taka á áskorunum menningargeirans í heimsfaraldrinum frá norrænu sjónarhorni. Tungumál skýrslunnar eru þau skandinavísku en í henni er útdráttur á ensku.

Kulturanalys Norden er norrænt þekkingarsetur um menningarstefnu sem komið var á fót að frumkvæði Norrænu ráðherranefndarinnar.