Netógnir og faraldurinn í brennidepli á þemaþingi Norðurlandaráðs

31.05.21 | Fréttir
Stortinget
Ljósmyndari
Magnus Froderberg/norden.org

Stórþingið í Noregi er ein margra stofnana sem orðið hafa fyrir netárásum, síðast í mars 2021.

Netöryggi, fjölþættar ógnir og viðbrögð norrænu landanna við faraldrinum verða á dagskrá hins árlega þemaþings Norðurlandaráðs dagana 28.–30. júní. Í umræðum um netöryggi og kórónuveiruna taka einnig viðkomandi norrænir ráðherrar þátt. Umræðurnar verða sendar út beint á netinu.

Yfirleitt fer þemaþingið fram á vorin en í ár var því seinkað þar til í lok júní þar sem talið var mögulegt að þingmennirnir 87 gætu hist í eigin persónu. Faraldurinn hefur þó ekki látið undan síga og því fer þingið fram með rafrænum hætti.

Meðal þeirra sem funda er forsætisnefnd Norðurlandaráðs, allar nefndirnar fjórar og flokkahóparnir fimm. Að auki heldur Norðurlandaráð þingfundi bæði 29. og 30. júní þar sem til stendur að ræða bæði netöryggi og heimsfaraldurinn ásamt því að afgreiða þingmannatillögur.

Ógn við lýðræðið

„Netárásir eru alvarleg ógn. Ekki aðeins við norrænu löndin heldur einnig á heimsvísu og þær koma niður á einu af því aldýrmætasta sem við eigum, þ.e. lýðræði og opnu samfélagi. Því er afar mikilvægt að taka málið upp í Norðurlandaráði og velta fyrir okkur hvað við getum gert í sameiningu til að mæta þessum ógnum. Bæði netógnir og faraldurinn eru dæmi um áskoranir sem krefjast norræns og alþjóðlegs samstarfs til að leysa,“ segir Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs árið 2021.

Haarder bendir á að Danmörk leggi áherslu á fjölþættar ógnir og netógnir í formennskuáætlun sinni. Að auki kemur stefna Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi frá árinu 2019 inn á netöryggismál.

Ráðherrar taka þátt í umræðunum

Umræður um netöryggi fara fram þann 30. júní kl. 10.30–12.30 að íslenskum tíma. Norrænir ráðherrar sem fara með málefni viðbúnaðar og leyniþjónustu taka einnig þátt. Sama dag klukkan 12.40–13.25 að íslenskum tíma verður fyrirspurnatími með norrænu samstarfsráðherrunum um viðbrögð við kórónufaraldrinum.

Sjónum verður einnig beint að faraldrinum fyrr um daginn á sameiginlegum fundi þar sem þingmenn Norðurlandaráðs koma saman undir yfirskriftinni Atvinnulíf framtíðar – í fótspor faraldursins.

Allar þingumræður, ásamt sameiginlega fundinum, verða sendar út beint og túlkaðar á skandinavísku, finnsku og íslensku. Umræður um netmál og fyrirspurnatíminn verður einnig túlkaður á ensku. Sjá hlekk á útsendingarnar hér að neðan.

Fjölmiðlar sem vilja fylgjast með þemaþinginu eða hafa spurningar um það geta haft samband við Matts Lindqvist í netfangið matlin@norden.org eða í síma +45 29 69 29 05.

 

Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlanda. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.