Takið þátt í að gera Norðurlönd græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær

07.04.21 | Fréttir
Demonstrasjon
Ljósmyndari
Li-An Lim / Unsplash
Norræna ráðherranefndin hyggst koma á fót norrænu samstarfsneti borgaralegra samtaka með það að markmiði að efla samstarfið þvert á Norðurlönd og þvert á hin ýmsu fagsvið. Öllum borgaralegum samtökum á sviði sjálfbærni í norrænu löndunum býðst að taka þátt.

Sem lið í nýrri framtíðarsýn norræns samstarfs fram til ársins 2030 hafa norrænu samstarfsráðherrarnir ákveðið að stofna norrænt samstarfsnet borgaralegra samtaka. Markmiðið er að samtökin geti látið raddir sínar heyrast og lagt sitt af mörkum til starfsins að Framtíðarsýn okkar 2030. Finnski samstarfsráðherrann, Thomas Blomqvist, fagnar því að borgaralegu samfélagi sé nú boðið til þátttöku í norrænu samstarfi.

„Það er afar mikilvægt að borgaralegt samfélag komi með virkum hætti að starfi Norrænu ráðherranefndarinnar varðandi Framtíðarsýn okkar 2030. Norrænt samstarf á að vera gagnsætt og eiga erindi við fulltrúa borgarasamfélagsins á öllum Norðurlöndum. Því hyggjumst við nú efla hlutverk borgarasamfélagsins í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar,“ segir Thomas Blomqvist.

Norræna ráðherranefndin lýsir nú eftir umsóknum um að öðlast aðild að hinu norræna samstarfsneti borgaralegra samtaka. Alls geta 40 fulltrúar frá öllum norrænu löndunum og sjálfstjórnarsvæðunum fengið aðild að samstarfsnetinu.

Umsóknarferlið um aðild að hinu norræna samstarfsneti borgaralegra samtaka fer fram á tímabilinu 7. apríl til 5. maí 2021. Ferlið er opið öllum borgaralegum samtökum á öllum Norðurlöndum. Þess er vænst að valferlinu verði lokið um miðjan júní. 

Norrænt samstarf á að vera gagnsætt og eiga erindi við fulltrúa borgarasamfélagsins á öllum Norðurlöndum.

Thomas Blomqvist, samstarfsráðherra Norðurlanda í Finnlandi

Hver er Framtíðarsýn okkar 2030?

Framtíðarsýn okkar 2030 er framtíðarsýn norræns samstarfs um að svæðið verði orðið það sjálfbærasta og samþættasta í heimi árið 2030. Í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar að framtíðarsýninni er gengið út frá þremur stefnumarkandi áherslum.

 • Græn Norðurlönd – Saman hyggjumst við greiða fyrir grænum umskiptum í samfélaginu og beita okkur fyrir kolefnishlutleysi og sjálfbæru hringrásar- og lífhagkerfi.
 • Samkeppnishæf Norðurlönd – Saman ætlum við að efla grænan hagvöxt á Norðurlöndum sem byggist á þekkingu, nýsköpun, hreyfanleika og stafrænni samþættingu.
 • Félagslega sjálfbær Norðurlönd – Saman ætlum við að efla samfellt svæði án aðgreiningar þar sem jafnrétti ríkir og sem byggist á sameiginlegum gildum og enn öflugri menningarsamskiptum og velferð.

Til að láta gjörðir fylgja orðum hefur Norræna ráðherranefndin samið framkvæmdaáætlun fyrir tímabilið 2021–2024. Framkvæmdaáætlunin skiptist í þrjár stefnumarkandi áherslur og 12 almenn markmið, og hún er stefnumótandi skjal í allri starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar á tímabilinu. 

Gay friendly cafe
Ljósmyndari
Benjamin Suomela/norden.org

Hvaða þýðingu hefur norrænt borgarasamfélag fyrir Framtíðarsýn okkar 2030?

Norrænt samstarfsnet borgaralegra samtaka mun samanstanda af fulltrúum landsbundinna og norrænna borgaralegra samtaka. Samstarfsnetið á að starfa á þverlægan og heildrænan hátt, en því verður einnig skipt í þrjá undirhópa sem samsvara hinum þremur stefnumarkandi áherslum. Markmiðið með samstarfsnetinu er að gera samstarfið við borgaralegt samfélag á Norðurlöndum öflugra, markvissara og samhæfðara í tengslum við framtíðarsýn okkar. Markvisst samstarf á að tryggja að starfið að framtíðarsýninni sé gagnsætt og eigi erindi auk þess að borgaraleg samtök komi að norrænu samstarfi með virkum hætti. Hlutverk samstarfsnetsins skal þróa áfram í samtali og með því að finna sameiginlegar þarfir og óskir í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina.

Þetta felst í þátttöku í hinu norræna samstarfsneti borgaralegra samtaka

Fulltrúar í norrænu samstarfsneti borgaralegra samtaka fá möguleika á að eiga í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina og aðra sem aðild eiga að samstarfsnetinu. Samstarfið getur verið við öll svið Norrænu ráðherranefndarinnar og á öllum sviðum pólitískrar ákvarðanatöku, með upplýsingamiðlun, samráði, samtali og þátttöku í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar.

Í starfinu felst meðal annars eftirfarandi:

 • Norræna ráðherranefndin býður samstarfsnetinu á einn til tvo fundi á ári til upplýsingagjafar um málefni sem eru ofarlega á baugi og varða framtíðarsýnina, og til að ræða möguleg samstarfssvið fyrir samstarfsnetið.
 • Samhæfingaraðili samstarfsnetsins á í samtali við öll fagsvið Norrænu ráðherranefndarinnar til að kortleggja möguleika á aðkomu samstarfsnetsins áður en komið er að máli við samstarfsnetið, sem ákveður sjálft hvað leggja eigi áherslu á á hverju starfsári.
 • Fulltrúar í hinu norræna samstarfsneti borgaralegra samtaka eru í stöðugum tengslum við Norrænu ráðherranefndina um það starf sem ákveðið hefur verið í byrjun hvers árs að leggja áherslu á.

Áætlað er að fulltrúi í hinu norræna samstarfsneti borgaralegra samtaka verji um 6–8 vinnustundum á mánuði í að starfa innan samstarfsnetsins. Vinnustundirnar geta orðið fleiri eða færri á mismunandi tímabilum.

City garden in Helsinki
Ljósmyndari
Benjamin Suomela / Norden.org

Svona á að sækja um aðild að samstarfsnetinu

Fulltrúar landsbundinna og norrænna borgarasamtaka geta sótt um aðild að samstarfsnetinu. Sótt er um með því að fylla út rafrænt eyðublað þar sem eftirfarandi skal koma fram:

 1. Upplýsingar um viðkomandi samtök
 2. Upplýsingar um þá manneskju sem verður fulltrúi samtakanna í samstarfsnetinu
 3. Hvers vegna sótt er um aðild að samstarfsnetinu

 

Hér má finna rafrænt umsóknareyðublað:

Umsóknarfrestur er til miðvikudagsins 5. maí 2021.

 

Í persónuverndarstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar er hægt að lesa um meðferð persónuupplýsinga og réttindi þín í tengslum við að senda inn umsókn um aðild að norrænu samstarfsneti borgaralegra samtaka.

Svona fer valið fram

Valferlinu á að vera lokið mánuði eftir að umsóknarfrestur rennur út. Alls geta 40 fulltrúar fengið aðild að samstarfsnetinu. Norræna ráðherranefndin metur umsóknir á grundvelli eftirfarandi atriða:

 • Umsækjendur þurfa að vera borgaraleg samtök í norrænu landi eða bandalag norrænna samtaka.
 • Umsækjendur þurfa með starfsemi sinni að hafa tengingu við hinar þrjár stefnumarkandi áherslur í Framtíðarsýn okkar 2030.
 • Umsækjendur þurfa að lýsa áhuga sínum og hvata til að eiga í markvissu samstarfi við Norrænu ráðherranefndina um starfið að Framtíðarsýn okkar 2030 og sem fulltrúar í norrænu samstarfsneti borgaralegra samtaka.

Í valferlinu mun Norræna ráðherranefndin setja í forgang landsbundin borgaraleg regnhlífasamtök, auk bandalaga norrænna borgarasamtaka. Einnig verður lögð áhersla á jafnt hlutfall norrænu landanna og hinna þriggja stefnumarkandi áherslna framtíðarsýnarinnar. Að auki verður stefnt að þaulhugsaðri aðkomu ólíkra hópa á grundvelli fjölbreytileikasjónarmiða, jöfnu hlutfalli kvenna og karla og breiðri aldursdreifingu.