Framhaldsskólar á Íslandi

Framhaldsskólamenntun á Íslandi
Á Íslandi eru yfir 30 framhaldskólar víðsvegar um landið og eru þeir eru ýmist nefndir fjölbrautaskólar, framhaldsskólar, iðnskólar, menntaskólar eða verkmenntaskólar. Að jafnaði er framhaldsskólastigið ætlað nemendum á aldrinum 16-20 ára.
Skólaárið í íslenskum framhaldsskólum er níu mánuðir. Greitt er skráningargjald í framhaldsskólum, sem er mishátt eftir skólum. Nemendur greiða sjálfir fyrir skólabækur og annað námsefni.
Norðurlöndin hafa gert með sér ýmsa samninga sem tryggja norrænum ríkisborgurum aðgang að námi og viðurkenningu á háskólagráðum í öllum norrænu löndunum. Auk þess eru ýmsar menntaáætlanir starfræktar innan hins norræna samstarfs sem bjóða námsmönnum á Norðurlöndum upp á ýmis tækifæri.
Hvernig framhaldsskólanám er á Íslandi?
Í starfsmenntaskólum lýkur námi í iðngreinum yfirleitt með sveinsprófi, sem svo veitir inngöngu í iðnmeistaranám. Í flestum tilfellum er mögulegt að bæta við námseiningum og taka stúdentspróf. Margir framhaldsskólar bjóða einnig upp á styttri námsleiðir með beinni tengingu við atvinnulífið.
Með stúdentsprófi lýkur því námi á framhaldsskólastigi sem ætlað er að veita undirbúning fyrir nám á háskólastigi. Miðað er við að nemendur ljúki stúdentsprófi á þremur árum.
Mögulegt er að stunda nám til stúdentsprófs á ensku í nokkrum framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu.
Fötluðum nemendum framhaldsskóla skal samkvæmt lögum standa til boða sérfræðiaðstoð. Í mörgum framhaldsskólum eru sérdeildir, starfsbrautir og önnur námsframboð sem sérstaklega eru ætlaðar fötluðum nemendum.
Tveir lýðháskólar eru starfræktir á Íslandi, Lýðháskólinn á Flateyri og LungA skólinn á Seyðisfirði.
Hvað þarftu að vita áður en þú hefur nám í framhaldsskóla á Íslandi?
Lögð er áhersla á að nemendur sem tala annað móðurmál en íslensku eigi rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Sama gildir um nemendur sem dvalist hafa langdvölum erlendis og hafa litla kunnáttu í íslensku. Miða skal við að nemendur sem eru ekki með íslensku sem móðurmál fái tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu sem valgrein, í fjarnámi eða með öðrum hætti.
Norðurlöndin hafa gert með sér samning sem tryggir ungu fólki á Norðurlöndum aðgang að námi á framhaldsskólastigi á öllum Norðurlöndunum. Meginreglan er því sú að þeir sem hafa lokið grunnskólanámi á Norðurlöndum geta hafið menntaskólanám á Íslandi.
Námsmenn á Norðurlöndunum sem koma til Íslands á meðan á námstíma varir geta óskað eftir því að vera tímabundið sjúkratryggðir á meðan þeir dvelja á Íslandi.
Skráning í framhaldsskóla á Íslandi
Skráning í nám á framhaldsskólastigi fer fram á netinu á vef Menntamálastofnunnar. Í sumum framhaldsskólum er mögulegt að skrá sig tvisvar á ári, á vorin og síðla árs, en í öðrum aðeins á vorin.
Viltu stunda nám í framhaldsskóla á Norðurlöndunum?
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðum framhaldsskóla á Íslandi og á heimasíðu Menntamálastofnunnar.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.