Framhaldsskólar í Noregi

Students in highschool classroom
Photographer
Yadid Levy/norden.org
Hér finnurðu upplýsingar um hvernig sótt er um framhaldsskóla og fyrirkomulag námsins í Noregi.

Öll ungmenni sem lokið hafa grunnskóla eða sambærilegu námi eiga lögbundinn rétt til þriggja ára náms á framhaldsskólastigi í Noregi. Nám á framhaldsskólastigi er valfrjálst og er fjármagnað á fylkissveitarstjórnarstigi. Nemendur frá hinum Norðurlöndunum geta sótt um framhaldsskóla til jafns við norska nemendur. 

Hver á rétt til framhaldsskólanáms í Noregi?

Allir nemendur sem lokið hafa grunnskóla eða sambærilegu námi eiga rétt á að sækja um nám á framhaldsskólastigi. Nefnist sá réttur „ungdomsrett“ (réttur ungmenna til náms). Nemendur eiga rétt til náms á einni af þremur námsbrautum sem þeir sækja um á fyrsta ári, Vg1 og tveggja ára náms á námssviðinu (þriggja ára ef um verklegt nám er að ræða). Þú átt rétt á að breyta námsvali þínu. Þá færðu aukatíma til að geta lokið náminu. Réttur ungmenna til náms gildir út það skólaár sem hefst árið sem þú verður 24 ára. Þú getur aðeins lokið einu framhaldsskólanámi. Ef þú hefur lokið námi áttu ekki rétt til frekari framhaldsskólanáms.

Allir sem lokið hafa grunnskóla eða sambærilegu námi en hafa ekki framhaldsskólapróf eiga rétt á að framhaldsskólanámi frá og með því ári sem þeir verða 25 ára. Sá réttur nefnist „voksenrett“ (réttur fullorðinna til náms). Fylkissveitarfélög setja mismunandi reglur um umsóknir um, aðgang að og fyrirkomulag náms fullorðinna. Hafðu samband við fræðsluyfirvöld í fylkissveitarfélaginu þar sem þú sækir um nám fullorðinna.

Norrænir ríkisborgarar eiga rétt á að stunda nám á framhaldsskólastigi hvarvetna á Norðurlöndum, til dæmis í Noregi. Sá réttur kemur fram í samningnum um norrænt menntunarsamfélag á framhaldsskólastigi en hann kveður á um gagnkvæma viðurkenningu allra Norðurlandanna á framhaldsskólamenntun hvert annars. Samningurinn tryggir að norrænir ríkisborgarar geti sótt um aðgang að framhaldsskólum í öðru norrænu landi til jafns við innlenda umsækjendur.

Hvers konar framhaldsskólanám er í boði?

Þú getur valið um nám til undirbúnings fyrir háskólanám eða starfsnám. Þú velur námsleið áður en byrjar á fyrsta ári (Vg1).  Á öðru og þriðja ári (Vg2 og Vg3) velurðu námssvið á námsbrautinni.

Norskir nemendur geta sótt um nám bæði í skólum í eigu hins opinbera og frískólum (einkareknum framhaldsskólum sem eiga rétt á ríkisstyrkjum) í Noregi.

Undirbúningsnám 

Nám til undirbúnings fyrir háskólanám leggur megináherslu á fræðilega þekkingu og veitir almenn námsréttindi. Framhaldsskólapróf með almennum námsréttindum veitir þér rétt til að sækja um aðgang að æðri menntun við háskóla. Nám til undirbúnings fyrir háskólanám er þrjú ár.

 

Undirbúningsnám fyrir verknám

Starfsmenntasvið er undirbúningur fyrir starfsgrein sem veitir þér fagskírteini, sveinsbréf eða starfsréttindi. Veljir þú starfsmenntasvið geturðu einnig farið beint út á vinnumarkað að prófi loknu. Námið byggist að jafnaði á tveimur árum á skólabekk og tveggja ára starfsnámi á vinnustað. Þú getur líka bætt við þig námi til að öðlast almenn námsréttindi sem gera þér kleift að sækja um aðgang að æðra námi.

Hvernig sótt er um nám í framhaldsskóla

Almennur umsóknarfrestur er til 1. mars. Meginreglan er sú að þú þarft að vera með lögheimili í Noregi áður en umsóknarfresturinn rennur út til þess að koma til greina. Sótt er um á umsóknagáttinni Vigo. Ef þú ert ekki með norska kennitölu hefurðu samband við innritunarskrifstofuna í sama fylkissveitarfélagi og þú hyggst sækja um. 

Engar kröfur eru gerðar um norskukunnáttu þegar sótt er um nám á framhaldsskólastigi í Noregi. Nemendur sem lokið hafa sambærilegum áföngum við þá sem í boði eru í Noregi eða sem eru jafngildir eða umfangsmeiri en svipaðir áfangar í Noregi, geta sótt um að fá þá metna. Sótt er um matið hjá skólastjóra viðkomandi skóla í Noregi.

Nemendur sem lokið hafa námsári erlendis á sama stigi og Vg1 og/eða Vg2 í Noregi geta sótt um hjá fylkissveitarfélaginu um að fá námið metið sem hluta af framhaldsskólanáminu í Noregi. Þetta á við um allar námsbrautir.

Lærlingar með lærlingsstöðu annars staðar á Norðurlöndum eiga ekki trygga lærlingsstöðu í Noregi heldur þurfa þeir að sækja um til jafns við aðra umsækjendur eða finna sér lærlingsstöðu í Noregi.

Ertu norskur ríkisborgari og hyggur á framhaldsskólanám annars staðar á Norðurlöndum? 

Norskir ríkisborgarar sem vilja taka framhaldsskólanámið í heild eða að hluta til annars staðar á Norðurlöndum geta fengið námslán hjá norska lánasjóðnum (Lånekassen) ef skólinn er viðurkenndur af honum. 

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna