Framhaldsskólar í Danmörku

Ungdomsuddannelser i Danmark
Hér geturðu lesið um algengasta framhaldsskólanám fyrir ungmenni í Danmörku að loknum grunnskóla.

Að loknum grunnskóla velja flestir að hefja nám í annað hvort bóklegan framhaldsskóla eða starfsmenntaskóla.

Bóklegir framhaldsskólar

Fjórar tegundir bóklegrar framhaldsskólamenntunar eru í boði í Danmörku. Þær eiga það sameiginlegt að veita réttindi til að sækja um nám á háskólastigi.Nánari upplýsingar má nálgast á vefnum á Uddannelsesguiden - leiðarvísi um menntakerfið.

Stúdentspróf (stx)

Stx er almenn menntun þar sem í boði eru námsgreinar á sviðum hugvísinda, náttúrufræði og félagsvísinda. Aðgangskrafan er grunnskólapróf. Námið tekur þrjú ár, hálfs árs kjarni og tvö og hálft ár samkvæmt námsbraut.

Æðra verslunarpróf (hhx)

Í verslunarprófinu er áhersla lögð á markaðs- og viðskipamiðað nám út frá alþjóðlegu sjónarhorni. Aðgangskrafan er grunnskólapróf. Námið tekur þrjú ár, hálfs árs kjarni og tvö og hálft ár samkvæmt námsbraut.

Æðra tæknipróf (htx)

Í tækniprófinu er áhersla lögð á tækni og raunvísindi. Aðgangskrafan er grunnskólapróf. Námið tekur þrjú ár, hálfs árs kjarni og tvö og hálft ár samkvæmt námsbraut.

Tveggja ára nám til hf-prófs (hf)

Hf er almennt hagnýtt og starfsmiðað framhaldsskólanám. Námið miðar að starfsnámsbrautum á háskólastigi. Hf-próf með viðbótarfögum veitir einnig aðgang að grunnnámi á háskólastigi. Aðgangskrafan er grunnskólapróf. Námið er til tveggja ára og samanstendur bæði af skyldufögum og valfögum innan ákveðinna sviða á borð við heilsu, umhverfismál, kennslufræði eða fjármál.

Alþjóðlegir menntaskólar

Í Danmörku eru ýmsir alþjóðlegir menntaskólar. Í alþjóðlegum menntaskólum reknum af einkaaðilum miðast kennslan við að nemendur geti tekið alþjóðlegt próf. Alþjóðleg próf, til dæmis International Baccalaureate (IB), eiga að veita aðgang að háskólanámi í Danmörku. IB er einnig í boði í ýmsum opinberum bóklegum framhaldsskólum.

Ef þú ert frá öðru norrænu landi og vilt fara í danskan bóklegan framhaldsskóla

Norðurlöndin hafa gert með sér samning sem tryggir ungu fólki á Norðurlöndum aðgang að námi á framhaldsskólastigi í öllum löndunum. Meginreglan er sú að ef þú hefur lokið grunnskólanámi í norrænu landi getirðu farið í bóklegan framhaldsskóla í Danmörku.

Starfsmenntun (EUD og EUX)

Starfsnám er hagnýtt nám þar sem meiri hluti kennslunnar fer fram á starfsstað, svo sem iðnaðarfyrirtæki, verkstæði, eldhúsi eða verslun.

Námið fer ýmist fram í skólanum eða á vinnustað og er yfirleitt byggt upp sem kjarni og fagleg námsbraut. Þú getur valið um 105 ólíkar námsbrautir með rúmlega 300 þrepum eða sérsviðum. Þú getur hafið nám strax að loknum grunnskóla eða síðar. Byrjun starfsnáms veltur á aldri þínum og bakgrunni. Þegar starfsnáminu er lokið öðlast maður réttindi til að fá stöðu sem faglærður.

Hægt er að taka EUX samhliða starfsnámi. Það veitir þér sama rétt á háskólanámi og þeim sem eru með bóklegt framhaldsskólapróf.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna