Lyf og niðurgreiðsla lyfjakostnaðar í Finnlandi

Lyf og niðurgreiðsla lyfjakostnaðar
Einstaklingar sem heyra undir finnska almannatryggingakerfið fá lyf niðurgreidd við kaup í apótekinu.
Einnig geta tilteknir hópar sem ekki heyra undir finnska almannatryggingakerfið fengið slíka niðurgreiðslu við kaup á lyfjum. Þar er annars vegar átt við fólk sem þiggur lífeyrisgreiðslur frá Finnlandi og hefur fasta búsetu í öðru Evrópusambandslandi og hins vegar fólk sem hefur fasta búsetu í Finnlandi en starfar í öðru Evrópusambandslandi.
Niðurgreiðsla lyfjakostnaðar í Finnlandi
Finnska almannatryggingastofnunin (Kela) niðurgreiðir aðeins kostnað vegna lyfja sem hafa verið samþykkt til niðurgreiðslu. Þau lyf sem hafa verið samþykkt til niðurgreiðslu greiða sjúklingar sjálfir fullu verði allt að 50 evrum á dagatalsári, en þegar þeirri upphæð hefur verið náð er kostnaður lyfseðilsskyldra lyfja niðurgreiddur sem nemur 40, 65 eða 100 prósentum. Hlutfall niðurgreiðslu fer eftir því hvaða lyf og sjúkdóm er um að ræða. Nánari upplýsingar á vefsvæði almannatryggingastofnunar.
Grunnniðurgreiðsla nemur 40% af kostnaði. Sérstök niðurgreiðsla upp á 65 eða 100 prósent kostnaðar fæst aðeins með samþykki almannatryggingastofnunar. Þótt lyf sé niðurgreitt að fullu (100%) þarf sjúklingurinn ávallt sjálfur að standa undir hlutfalli greiðsluþátttöku fyrir hvert og eitt lyf. Ennfremur er grunnhlutfall niðurgreiðslu (40%) aðeins veitt með takmörkunum hvað tiltekin lyf varðar. Í slíkum tilvikum er hægt að sækja um niðurgreiðslu frá almannatryggingastofnun.
Við lyfjakaup gildir tiltekið greiðsluhámark fyrir hvert ár: þegar greiðsluþátttaka þín í kostnaði niðurgreiddra lyfja á dagatalsárinu fer yfir hámark alls ársins veltur greiðsluþátttaka eftir það á því hvaða lyf á í hlut hverju sinni.
Lyfjakaup með erlendum lyfseðli í Finnlandi
Samkvæmt reglum Evrópusambandsins gilda allir lyfseðlar sem gefnir eru út á Norðurlöndum, í Evrópusambands- og EES-löndum og í Sviss almennt í Finnlandi. Þó er ekki alltaf unnt að afgreiða lyf gegn erlendum lyfseðli, til dæmis ef lyfið eða sambærilegt lyf er ekki fáanlegt í Finnlandi. Titekin sterk lyf eru alls ekki afgreidd út á erlenda lyfseðla.
Sé þér kunnugt um það þegar þú færð erlendan lyfseðil að þú munir leysa hann út í Finnlandi þarftu að biðja lækninn um að rita á lyfseðilinn öll virk efni í lyfinu, svo og styrk þeirra, svo að starfsfólk apóteksins í Finnlandi eigi auðveldara með að finna samsvarandi lyf.
Innflutningur lyfja til Finnlands
Leyfilegt er að flytja inn lyfseðilsskyld lyf og snyrtivörur frá löndum ESB og EES til persónulegra nota. Magnið má nema birgðum til eins árs að hámarki. Nánari upplýsingar eru á upplýsingasíðum um finnskar tollreglur og heimasíðu öryggis- og þróunarmiðstöðvar lyfjamála í Finnlandi (Fimea).
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.