Tollareglur í Svíþjóð
Mismunandi reglur gilda um hvað má hafa með sér tollfrjálst þegar ferðast eða flutt er til Svíþjóðar frá landi innan ESB eða lands sem er ekki í ESB.
Ef flutt er frá ESB-landi til Svíþjóðar þarf ekki að greiða nein gjöld. Ef flutt er frá landi utan ESB er hægt að fá undanþágu frá tollum og greiða gjald fyrir að flytja inn persónulegar eigur. Þegar flutt er frá Svíþjóðar til lands utan ESB þarf að fylla út tollskýrslu („exportdeklaration“) um flutning búslóðar frá Svíþjóð.
Tollar þegar flutt er til Svíþjóðar frá landi innan ESB
Danmörk, Finnland og Svíþjóð eru í Evrópusambandinu. Ef flutt er til Svíþjóðar frá Danmörku eða Finnlandi þarf því ekki að greiða gjöld af innflutningi búslóðar.
Ekki þarf að greiða tolla af persónulegum eigum þar sem engir tollar eru á milli aðildarríkja ESB. Ekki þarf heldur að skila tollskýrslu („importdeklaration“) um innflutning búslóðar til Svíþjóðar.
Ef þú tekur bíl eða annað ökutæki með þér þegar þú flytur til Svíþjóðar þarftu að skrá ökutækið hjá Transportstyrelsen og ef þú flytur frá Svíþjóð þarftu að afskrá það.
Tollar þegar flutt er til Svíþjóðar frá landi utan ESB
Ísland og Noregur eru ekki í Evrópusambandinu. Ef þú flytur til Svíþjóðar frá landi utan ESB getur þú engu að síður flutt með þér persónulegar eigur þínar án þess að greiða af þeim toll.
Til persónulegra eigna telst innbú, s.s. húsgögn, fatnaður, eldhúsáhöld og heimilistæki, hjól og önnur ökutæki. Gerð er krafa um að þú hafir átt og nýtt eignir þínar í a.m.k. sex mánuði áður en þú getur flutt þær með þér til Svíþjóðar án þess að greiða toll.
Álandseyjar eru utan skattasvæðis ESB og eru undanskildar skattareglum ESB. Þess vegna gilda sömu reglur þegar flutt er milli Svíþjóðar og Álandseyja og þegar flutt er milli Svíþjóðar og lands sem er utan ESB.
Ef þú flytur til Svíþjóðar frá landi utan ESB og vilt fá undanþágu frá greiðslu tolla af persónulegum eignum þínum („flyttsakstullfrihet“) eða undanþágu frá tollum og virðisaukaskatti er krafan sú að þú munir búa í Svíþjóð í að minnsta kosti eitt ár.
Mismunandi reglur gilda eftir því hvort verið er að flytja til Svíþjóðar í fyrsta sinn, flytja aftur til Svíþjóðar eða flytja vegna hjúskapar eða náms. Nánari upplýsingar um reglurnar má finna á vefsíðu tollstjóra (Tullverket).
Sænskar tollareglur gilda þegar þú verslar á netinu og í öðru löndum
Þegar vörur eru keyptar á netinu frá öðru landi fara reglur og gjöld eftir því hvaða landi er keypt frá og hvaða vara er keypt. Á vefsíðu Tullverket er að finna upplýsingar um verslun á netinu innan og utan ESB.
Einnig gilda aðrar tollareglur ef þú ert í öðru landi en Svíþjóð og kaupir vöru sem þú vilt taka með þér til Svíþjóðar. Þú gætir þurft að tilkynna vöruna til sænskra tollyfirvalda eða greiða gjald, eftir því hvaða vara er keypt og frá hvaða landi er ferðast. Tullverket kann að ganga úr skugga um að þú flytjir ekki inn ólöglegan varning.
Á vefsíðu Tullverket er að finna upplýsingar um tollareglur sem gilda um innflutning vara sem keyptar eru á netinu eða í öðrum löndum.
Sérstakar innflutningsreglur í Svíþjóð
Sérstakar reglur gilda um hvað má hafa með sér tollfrjálst þegar flutt eða ferðast er til Svíþjóðar.
Þegar komið er aftur til Svíþjóðar eftir utanlandsferð má hafa meðferðis áfengi og tóbak til einkanota án þess að greiða toll. Það hve mikið áfengi og tóbak má taka með til Svíþjóðar fer eftir því hvort landið sem ferðast er frá sé í Evrópusambandinu eða ekki.
Einnig gilda sérstakar um innflutning dýra, vopna, lyfja og matvæla til Svíþjóðar.
Upplýsingar um hvernig sótt er um leyfi til að flytja inn eigur sem falla undir sérstakar innflutningsreglur fást hjá sænskum tollyfirvöldum, Tullverket.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.