Norrænt samstarf um málefni fólks með fötlun

Handicap rullestol sport
Ljósmyndari
Audi Nissen
Norrænt samstarf um málefni fólks með fötlun stuðlar að þátttöku fólks með fötlun gegnum öfluga þekkingarmiðlun og náið samstarf um stefnumótun um málefni fólks með fötlun. Meðal annars er fyrir hendi ráðgjöf og aðgerðaáætlun sem hefur þrjú áherslusvið: Mannréttindi, Sjálfbær þróun og Frjáls för.

Þátttaka fólks með fötlun er mikilvæg velferðarpólitísk áskorun á Norðurlöndum. Allir eiga rétt á að taka þátt í samfélaginu óháð starfsgetu. Norræna velferðarkerfið byggir einnig á því að sem flestir eigi þess kost að leggja af mörkum til samfélagsins. Enginn á að verða útundan. Það er grundvallarregla að fólk með fötlun á að taka þátt í stefnumótun sem varðar það sjálft. Samtal milli opinberra stofnana og annarra stofnana skiptir höfuðmáli.

Norrænt samstarf um málefni fólks með fötlun gagnast löndunum með því að bæta og styrkja það starf sem á sér stað í ríkjunum og beinist að þátttöku á öllum sviðum samfélagsins. Saman sköpum við forsendur fyrir miðlun reynslu, varðveislu þekkingar og þróun aðferða fyrir þátttöku fatlaðs fólks á nokkrum mikilvægum sviðum og í ákveðnu samhengi. Um leið dýpkar samstarfið starfið á alþjóðlegum vettvangi svo sem á vettvangi Evrópusambandsins, Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna þannig að samlegðaráhrif skapast í öðru starfi sem stuðlar að þátttöku. Fötlunarráð Norrænu ráðherranefndarinnar gegnir mikilvægu hlutverki en það er skipað fulltrúum sem valdir eru af ríkisstjórnum og samtökum fólks með fötlun frá öllu svæðinu.

Málefni fólks með fötlun eru þverfagleg og flest sviðin sýna áhuga á verkefnum sem styðja við þátttöku á þeirra sviði. Til þess að norræn stefnumótun á mismunandi sviðum gagnist einnig Norðurlandabúum með fötlun eru fyrir hendi verkefni sem hafa að markmiði að auka meðvitund um fötlunarsjónarmið á sameiginlegum sviðum Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs, svo sem á skrifstofunni, í stofnunum, verkefnum og tengslanetum. Dæmi um þetta eru verkefni á sviði stefnumótunar í menntamálum og rannsóknum, jafnréttismálum og atvinnumálum. Á sviði menningarmála skiptir máli að allar menningarstofnanir séu aðgengilegar þannig að allir geti tekið þátt í starfsemi þeirra á sömu forsendum. Til dæmis sem framleiðendur, flytjendur og gestir menningarviðburða. Samhliða þessu vinnur skrifstofa ráðherranefndarinnar markvisst að því að auka aðgengi fólks með fötlun að starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs og innan stofnananna.

Krækjur:

Framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um framtíðarsýn fyrir árið 2030

Framkvæmdaáætlunin lýsir því hvernig Norræna ráðherranefndin mun vinna að því að uppfylla markmið framtíðarsýnarinnar með röð verkefna sem tengjast þremur stefnumarkandi áherslum: Græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Tólf markmið hafa verið sett fyrir þessar stefnumarkandi áherslur. Stefnumarkandi áherslurnar og markmiðin munu vísa veginn í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar næstu fjögur árin. Framkvæmdaáætlunin er í tólf hlutum og fjallar hver þeirra um eitt markmið.