Um starf Norrænu ráðherranefndarinnar að lausn stjórnsýsluhindrana

Afnám stjórnsýsluhindrana er mikilvægt samstarfssvið Norðurlandanna og er þáttur í að framfylgja framtíðarsýn forsætisráðherranna um að Norðurlönd verði samþættasta svæði í heimi. Vinnunni er stýrt af Stjórnsýsluhindranaráðinu, sem hóf starfsemi sína í janúar árið 2014. Með nýju umboði Stjórnsýsluhindranaráðsins frá 2022 er markmiðið að leysa úr 5-8 stjórnsýsluhindrunum á ári, m.a. á vettvangi vinnumarkaðsmála, félagsmála, menntamála og atvinnulífs.

Í Stjórnsýsluhindranaráðinu sitja 10 fulltrúar. Öll löndin, ásamt Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi, geta tilnefnt fulltrúa frá sínu landi. Auk fulltrúa landanna á framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar sæti í ráðinu og verður fulltrúa Norðurlandaráðs einnig boðið að taka þátt í starfi þess. Stjórnsýsluhindranaráðinu er ætlað að starfa með þeim aðilum í löndunum sem geta átt þátt í því að leysa stjórnsýsluhindranir fyrir einstaklinga og fyrirtæki á Norðurlöndum. Þetta samstarf nær til upplýsingastarfsemi, ráðherra, stjórnsýslu og stjórnvalda landanna, þingmanna og fleiri.

Tengja á aðgerðirnar nánar framkvæmdavaldi í löndunum, svo ráðuneyti, stjórnvöld og stjórnsýsla geti í raun rutt úr vegi stjórnsýsluhindrunum með þátttöku og með því að taka ábyrgð á starfinu. Þess vegna á að draga þessa aðila snemma inn í vinnu starfshópa einstakra landa sem vinna að afnámi stjórnsýsluhindrana í löndunum. Starfið verður tengt nánar pólitískri forystu Norrænu ráðherranefndarinnar, en starf stjórnsýsluhindranaráðsins mun fylgja formennsku í ráðherranefndinni og forgangsröðun hennar hverju sinni.

Framkvæmdastjórinn ber ábyrgð á því að stjórnsýsluhindranir sem Stjórnsýsluhindranaráð leggur áherslu á verði vísað áfram til ráðherranefnda og embættismannanefnda sem heyra undir Norrænu ráðherranefndina og á því að gera grein fyrir samstarfi á sviði stjórnsýsluhindrana á þingi Norðurlandaráðs seog er það liður í árlegri skýrslu samstarfsráðherranna um vinnuna við upprætingu stjórnsýsluhindrana. Framkvæmdastjórinn sér einnig fulltúum í Stjórnsýsluhindranaráðinu fyrir skrifstofuþjónustu.

Fylgja á árangri starfsins eftir jafnóðum og meta hann. Markmið starfsins á að vera að leiða í ljós þörf á breytingum sem rutt geta úr vegi fleiri stjórnsýsluhindrunum fyrir íbúa og fyrirtæki á Norðurlöndum. Áherslusvið stjórnsýsluhindranaráðsins eru þrjú; að afnema stjórnsýsluhindranir sem eru til staðar, að koma í veg fyrir að nýjar stjórnsýsluhindranir verði til og að veita upplýsingar um gildandi lög reglur.

Framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um framtíðarsýn fyrir árið 2030

Framkvæmdaáætlunin lýsir því hvernig Norræna ráðherranefndin mun vinna að því að uppfylla markmið framtíðarsýnarinnar með röð verkefna sem tengjast þremur stefnumarkandi áherslum: Græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Tólf markmið hafa verið sett fyrir þessar stefnumarkandi áherslur. Stefnumarkandi áherslurnar og markmiðin munu vísa veginn í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar næstu fjögur árin. Framkvæmdaáætlunin er í tólf hlutum og fjallar hver þeirra um eitt markmið.