Um norrænt samstarf á sviði dómsmála
Það er sameiginleg áskorun norrænu landanna að berjast gegn og koma í veg fyrir þá alvarlegu glæpastarfsemi sem fer fram þvert á landamæri og notfærir sér hina miklu samþættingu og gegnsæi sem ríkir á Norðurlöndum. Þetta á við um mansal, eiturlyfjasölu og ofbeldi sem veldur miklum skaða í samfélaginu Þetta á líka við um netglæpi, svo sem kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum. Aukið samstarf lögreglu norrænu landanna er ein af mörgum sameiginlegum aðgerðum sem ætlað er að koma í veg fyrir þessa þróun. Það er einnig sameiginleg áskorun nokkurra Norðurlandanna að taka á glæpum sem spretta út frá öfgahyggju og ofbeldisfullu ofstæki.
Á sviði dómsmála er einnig fylgst með þvi hvernig stafræn þróun hefur áhrif á opinbera geirann og réttarkerfið, bæði frá sjónarhóli stjórnsýslunnar og þegar litið er til réttaröryggis borgara og fyrirtækja.
Fjölskyldutengsl eiga engin landamæri á Norðurlöndum þar sem einstaklingar geta valið hvar þeir vilja eiga heima og starfa. Á sviði dómsmála er stöðugt samstarf á sviði fjölskylduréttar þar sem löndin miðla reynslu og ræða vandamál sem meðal annars tengjast fjölskyldum sem flytja milli norrænu landanna.
Norræna ráðherranefndin um dómsmál (MR-JUST)
Norrænu dómsmálaráðherrarnir, Norræna ráðherranefndin um dómsmál (MR-JUST), kemur saman einu sinni á ári. Fundur dómsmálaráðherranna er undirbúinn af embættismannanefnd sem skipuð er æðstu embættismönnum norrænu dómsmálaráðuneytanna. Embættismannanefndin (EK-JUST) ber ábyrgð á undirbúningi fundanna og framkvæmd og eftirfylgni með þeim ákvörðunum sem ráðherrarnir taka. Embættismannanefndin kemur yfirleitt saman þrisvar á ári.
Norrænt-baltneskt samstarf
Svið dómsmála tekur einnig þátt í norrænu-baltnesku samstarfi. Annað hvert ár er haldinn norrænn-baltneskur fundur dómsmálaráðherra þar sem ráðherrarnir ræða málefni á sviði dómsmála sem eru brýn á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Norrænn-baltneskur vinnuhópur embættismanna frá norrænu ríkjunum og Eystrasaltsríkjunum undirbýr þessa fundi og kemur saman tvisvar á ári.
Verkefnastyrkir
Svið dómsmála ræður yfir fjármagni og getur ákveðið að styðja verkefni sem stuðla að norrænu samstarfi innan ramma þeirra sviða sem svið dómamála ber ábyrgð á og fela í sér norrænan virðisauka. Hluti þessa fjármagns getur einnig runnið til norræns-baltnesks samstarfs.
Framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um framtíðarsýn fyrir árið 2030
Framkvæmdaáætlunin lýsir því hvernig Norræna ráðherranefndin mun vinna að því að uppfylla markmið framtíðarsýnarinnar með röð verkefna sem tengjast þremur stefnumarkandi áherslum: Græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Tólf markmið hafa verið sett fyrir þessar stefnumarkandi áherslur. Stefnumarkandi áherslurnar og markmiðin munu vísa veginn í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar næstu fjögur árin. Framkvæmdaáætlunin er í tólf hlutum og fjallar hver þeirra um eitt markmið.