2040: Öll flugumferð á Norðurlöndum án jarðefnaeldsneytis

04.11.21 | Fréttir
Flystriber kondensstriber
Ljósmyndari
Scanpix.dk
Norðurlandaráð vill að Norðurlönd verði fyrsti flugmarkaður í heimi án jarðefnaeldsneytis árið 2040.

Mörg svæði innan Norðurlanda eru afar háð flugsamgöngum. Tillagan, sem var til umfjöllunar á þingi Norðurlandaráðs í dag, gengur því út á að þróa og breyta flugrekstri þannig að hann geti stuðlað að grænum umskiptum og um leið tryggt greiða för yfir landamæri Norðurlanda, sameiginlegum vinnumarkaði á svæðinu til heilla.

Ráðið telur að svo stóra breytingu þurfi að framkvæma í sameiningu. Því er það ósk Norðurlandaráðs að ríkisstjórnir norrænu landanna þrói sameiginlega áætlun um það hvernig Norðurlönd geti orðið að heimsins fyrsta flugmarkaði án jarðefnaeldsneytis árið 2040.

Ágreiningur um þaulstjórnun

Tillagan var þó ekki samþykkt án umræðu. Á meðal ágreiningsatriða var sú viðbótarkrafa að frá árinu 2025 væri krafist 5 prósenta hlutfalls lífeldsneytis í öllu flugvélaeldsneyti, bæði í innanlandsflugi og flugi milli norrænu landanna.

Maria Stockhaus í flokkahópi hægrimanna sagði:

„Þessi þaulstjórnun er óheppileg að okkar mati. Með henni hættum við á að hamla þróun í stað þess að styðja við hana.“

Aftur á móti bentu margir í salnum á að það að skapa sameiginlegan norrænan markað fyrir lífeldsneyti myndi ýta á eftir þróun og tryggja hagkvæmari framleiðslu til lengri tíma litið.

Simon Holmström í flokkahópi miðjumanna hafði þetta að segja:

„Ef markaðurinn leysir vandamálin ekki sjálfur verðum við að leggja línurnar. Krafa um 5% lífeldsneyti er ekki til svo mikils mælst.“  

Freddy André Øvstegård í flokkahópi vinstrisósíalista og grænna tók undir þetta:

„Það er snjallt að benda á sértækar lausnir til að koma hreyfingu á atvinnulífið. Ef við erum reiðubúin til að taka virka forystu getum við bæði dregið úr losun og skapað grænan hagvöxt og þróun.“

Þó lék enginn vafi á að einhugur ríkti um það að gera samnorræna áætlun um það að mæta landsbundnum, norrænum, evrópskum og alþjóðlegum loftslagsmarkmiðum með hagkvæmum hætti. Tillagan var samþykkt með fimmtíu og einu atkvæði. Níu greiddu atkvæði gegn tillögunni og tíu sátu hjá. Tillagan fer nú til meðferðar hjá Norrænu ráðherranefndinni.

Tillagan er byggð á skýrslunni Nordic Sustainable Aviation, sem norrænu ráðherrarnir á sviði loftslags- og umhverfismála pöntuðu árið 2020.

 

Vekja sjálfbærar flugsamgöngur áhuga þinn? Hlustaðu á þáttinn „The Future of Aviation“ í hlaðvarpinu Nordic Talks, þar sem Dag Falk-Petersen, framkvæmdastjóri norska fyrirtækisins Avinor, talar um framtíðina í rafknúnum flugvélum.