25% færri sjálfsvíg fyrir árið 2025 – með eða án COVID-19

15.09.20 | Fréttir
Selvmord i Norden skal mindskes
Photographer
jumpstory
Á hverjum degi taka 10 einstaklingar á Norðurlöndum eigið líf. Markmið norrænu velferðarnefndarinnar er að lækka þessa tölu með forvörnum og fræðslu. En einn óvissuþáttur er til staðar: COVID-19.


„Við berum sameiginlega ábyrgð á því að finna svör og lausnir við því hvers vegna svo margir taka eigið líf á Norðurlöndum. Við þurfum að vinna saman þvert á landamæri og fagsvið og ekki síst hlusta á þá sem eru í áhættuhópi,“ segir Bente Stein Mathisen, formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs. Fyrsta skrefið í átt að markmiðinu um 25% færri sjálfsvíg fyrir árið 2025 er að halda norrænan leiðtogafund á næsta ári með áherslu á forvarnir og öflun þekkingar og reynslu frá fagaðilum.

Markmiðið er 25% fækkun sjálfsvíga fyrir árið 2025 – með eða án COVID-19

Bente Stein Mathisen, formaður norrænu velferðarnefndarinnar

Óvissuþátturinn COVID-19

Enn er of snemmt að segja nokkuð um áhrif COVID-19 á fjölda sjálfsvíga en áhyggjur hafa vaknað um að einangrun, atvinnuleysi og óvissa geti leitt til fjölgunar þeirra. Slík fjölgun myndi ganga gegn markmiðum norrænu verðferðarnefndarinnar fyrir árið 2025. Til dæmis hefur Norræna velferðarmiðstöðin áhyggjur af stöðu fólks með fötlun.


„Fyrir utan sjálfan sjúkdóminn COVID-19, sem kórónuveiran veldur, hefur faraldurinn afleiðingar fyrir viðkvæma samfélagshópa. Við hjá Norrænu velferðarmiðstöðinni sjáum að faraldurinn hefur haft einkar mikil áhrif á fólk með fötlun. Margir hafa þurft að gera hlé á meðferð eða þjálfun og margir hafa áhyggjur af framtíðinni, sem hefur neikvæð áhrif á geðheilsuna,“ segir Eva Franzén, stjórnandi hjá Norræna velferðarmiðstöðinni.

35% aukning hafi orðið í notkun barna og unglinga á hjálparsíma Rauða krossins í Noregi samhliða útbreiðslu COVID-19

Rauði krossinn í Noregi

Börn og ungmenni hafa áhyggjur af COVID-19

Norðurlandaráð æskunnar hefur áhyggjur af slæmum afleiðingum COVID-19 fyrir ungt fólk.

„Kórónuvandinn og sú aukna einangrun sem henni fylgir getur haft í för með sér að ungt fólk í áhættuhóp veikist andlega. Líf margra ungmenna hefur umturnast og kórónuvandinn mun hafa áhrif á líf þeirra til langs tíma,“ segja Dag Henrik og Margrét Steinunn Benediktsdóttir úr Norðurlandaráði æskunnar. Áhyggjur hafa einnig vaknað innan stofnana sem vinna með ungmennum. Til dæmis hefur Rauði krossinn í Noregi gefið út að 35% aukning hafi orðið í notkun barna og unglinga á hjálparsíma Rauða krossins samhliða útbreiðslu COVID-19 á Norðurlöndum. Þessi aukning þarf ekki að tengjast sjálfsvígum með beinum hætti en kvíði og áhyggjur eru á meðal þeirra áhættuþátta sem geta leitt til sjálfsvígs. Þegar þessar áhyggjur af COVID-19 voru kynntar af formanni velferðarnefndarinnar voru skilaboðin skýr:


„Markmiðið er 25% fækkun sjálfsvíga fyrir árið 2025 – með eða án COVID-19,“ segir Bente Stein Mathisen.

Norrænu ríkin þurfa að læra hvert af öðru um hvernig má fyrirbyggja sjálfsvíg

Velferðarkerfi Norðurlanda eiga svo margt sameiginlegt að tiltölulega auðvelt er fyrir löndin að beita sömu áætlunum og aðgerðum. Þau eru einnig nægilega ólík til að finna alltaf mismunandi leiðir til að sjá og útfæra hlutina. Til dæmis mun Norska ríkisstjórnin innan tíðar kynna landsáætlun gegn sjálfsvígum. Í marga áratugi var sjálfsvígstíðni mun hærri í Finnlandi en flestum hinum Norðurlöndunum, en nú hefur tíðnin minnkað – sérstaklega hjá ungmennum. Bent hefur verið á að þetta skýrist m.a. af aukinni eftirfylgni í sálfræðiþjónustu og nýjum lyfjum. Þekking og aðgerðir af þessu tagi nýtast öllum yfirvöldum og heilbrigðisstofnunum á Norðurlöndum.