Aðgerðum í þágu stafrænnar inngildingar ýtt úr vör

30.11.21 | Fréttir
Eldre og digitalisering
Photographer
Maud Lervik / Norden.org
Á fundi sínum þann 26. nóvember gáfu ráðherrar sem fara með málefni tengd stafrænni þróun á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum út sameiginlega yfirlýsingu sem varða mun veginn fyrir aðgerðir í þágu stafrænnar inngildingar.

Eins og skýrt kemur fram í yfirlýsingunni er stafræn inngilding forsenda farsælla stafrænna umskipta og aukinnar samkeppnishæfni svæðisins.

„Ef stafvæðing er framkvæmd með árangursíkum hætti getur hún bætt inngildingu í samfélaginu. Samfélög okkar á Norðurlöndum og á Eystrasaltssvæðinu eru byggð á lýðræði, jafnrétti, mannauð og samfélagslegri ábyrgð. Við þurfum að tryggja að stafræn umskipti á svæðinu samræmist þessum gildum jafnt nú sem í framtíðinni. Þess vegna höfum við ýtt úr vör samstarfi á milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í því skyni að efla stafræna inngildingu,“ segir Sirpa Paatero ráðherra sveitarstjórna.

Fyrsta aðgerðin sem Norræna ráðherranefndin um stafræna þróun réðist í var að standa fyrir rannsókn á því hvernig eftirliti með stafrænni inngildingu er háttað. Rannsóknin verður birt í ársbyrjun 2022.

„Niðurstöður rannsóknarinnar munu gefa útgangspunkt fyrir sameiginlegar aðgerðir og til að útbúa vísa um stafræna inngildingu á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum,“ segir Paatero.

Markmiðið er að hjálpa ráðamönnum á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum að öðlast sameiginlega sýn á núverandi stöðu stafrænnar inngildingar í samfélögum okkar. Það mun styðja við mörkun skilvirkrar stefnu um að brúa hina stafrænu gjá.