Áhersla á lýðræði á ráðstefnu þingmanna Eystrasaltsríkjanna

27.08.19 | Fréttir
Silja Dögg Gunnarsdóttir

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Photographer
Arne Fogt Bergby

Silja Dögg Gunnarsdóttir er frá Íslandi og er fulltrúi forsætisnefnd Norðurlandaráðs.

Mannréttindi og lýðræði voru í brennidepli á 28. þingmannaráðstefnu Eystrasaltsríkjanna, BSPC, sem haldin var í Ósló í ár. Norðurlandaráð tók einnig þátt og var fulltrúi þess Silja Dögg Gunnarsdóttir frá Íslandi.

Nils Muižnieks, sem var mannréttindafulltrú Evrópuráðsins á árunum 2012 til 2018, var gestafyrirlesari á ráðstefnunni. Hann benti meðal annars á ógnina sem stafar af pópúlískum stjórnmálahreyfingum og ræddi um kreppuna sem ríkir í mannréttindamálum bæði í Evrópu og innan ríkja hennar. Muižnieks nefndi meðal annars Pólland, Ungverjaland og Rússland sem dæmi um lönd þar sem þrengt er að grundvallargildum lýðræðisins.

Silja Dögg Gunnarsdóttir lagði í ræðu sinni mikla áherslu á norræn gildi og hina rótgrónu sterku lýðræðishefð sem fyrir hendi er í öllum norrænu ríkjunum fimm.

„Við trúum á tjáningarfrelsi, litla spillingu, réttlátt og áreiðanlegt réttarkerfi og jöfn tækifæri allra, óháð því hvern þú elskar eða inn í hvaða fjölskyldu þú fæddist. Þetta er grundvöllurinn undir traust hagkerfi, skilvirk samfélög og hamingjusama íbúa.“

Lagði áherslu á stefnu í alþjóðamálum

Silja Dögg nefndi einnig að Norðurlandaráð hefði alþjóðlega stefnumörkun þar sem meðal annars er tekið á nokkrum sviðum sem máli skipta og þar sem Norðurlöndin eru í forystu, til dæmis varðandi réttindi barna, kvenna, jaðarkynverundarhópa, fólk með fötlun og frumbyggja.

„Á sunnudaginn komum við okkur saman um uppkast að ályktun þar sem áhersla er lögð á þörfina á friðsömu og nánu samstarfi og nágrannasamstarf sem byggir á lýðræðislegum gildum, mannréttindum og réttarríki. Ég mæli afdráttarlaust með því að við sjáum öll til þess að þetta verði ekki bara orðin tóm,“ sagði Silja Dögg.

BSPC stendur fyrir Baltic Sea Parliamentary Conference og var stofnað 1991. Tilgangur BSPC er að styrkja pólitískt samtal og auka samstarf bæði milli þjóðþinga landanna við Eystrasalt og þinga svæðanna.

BSPC var í ár haldið 25.-27. ágúst.