Áhyggjur af fjölda barna í fátækum fjölskyldum á Norðurlöndum

03.11.22 | Fréttir
Tobias Drevland Lund, Nordisk Grønt Venstre, på session 2022

Tobias Drevland Lund, Nordisk Grønt Venstre

Photographer
Magnus Fröderberg

Tobias Drevland Lund frá Norrænum vinstri grænum.

Fjöldi barna sem alast upp í fjölskyldum með lágar tekjur hefur aukist í mörgum norrænu landanna. Nú vilja kjörnir fulltrúar taka saman höndum og gera eitthvað í málunum. Norðurlandaráð hefur samþykkt að láta vinna úttekt á því hvaða áhrif heimsfaraldurinn hefur haft á börn og ungt fólk í tiltölulega fátækum fjölskyldum.

„Hvert barn sem er kalt á veturna vegna þess að foreldrarnir hafa ekki efni á að kaupa nýja úlpu er einu barni of mikið. Hið háa verðlag sem við sjáum nú í kjölfar faraldursins veldur mér miklum áhyggjum af því að þeim börnum fjölgi mjög sem tilheyra fátækum fjölskyldum á Norðurlöndum. Það er gríðarlega mikilvægt að Norðurlönd standi saman í því að draga úr fjölda þeirra barna sem alast upp við fátækt,“ segir Eva Lindh, formaður norrænu velferðarnefndarinnar.


 

Þörf á betri gögnum

Til að byrja með hefur Norðurlandaráð samþykkt að koma upp góðum grundvelli til samanburðar.

„Norrænu löndin hafa svolítið mismunandi viðmið og reynslu. Við ætlum að taka mið af reynslu hvers lands fyrir sig og ná að fækka börnum í fjölskyldum með lágar tekjur. Næsta skref gæti kannski orðið samnorræn aðgerðaáætlun,“ segir Eva Lindh.

 

Þetta eru börnin okkar og unga fólkið sem nýtur ekki sömu tækifæra og önnur börn og ungt fólk. Við höfum tækifæri til að snúa þessari þróun við og við verðum að gera það núna

Tobias Drevland Lund frá Norrænum vinstri grænum

Þarf að snúa þróuninni við

Upphaflega var það tillaga Norrænna vinstri grænna að Norðurlönd ynnu saman að því að draga úr fjölda fátækra barna.

„Þetta eru börnin okkar og unga fólkið sem nýtur ekki sömu tækifæra og önnur börn og ungt fólk. Við höfum tækifæri til að snúa þessari þróun við og við verðum að gera það núna. Bæði vegna þess að það er hið rétta og að það borgar sig til lengri tíma litið. Ég er mjög ánægður með að við höfum fengið Norðurlandaráð í heild sinni með okkur í lið í þessu,“ segir Tobias Drevland Lund frá Norrænum vinstri grænum.

Lykiltölur

Fjöldi barna sem alast upp við viðvarandi lágar tekjur hefur aukist í mörgum norrænu landanna. Samkvæmt norsku hagstofunni bjuggu meira en 115 þúsund börn við viðvarandi lágtekjur í Noregi árið 2020. Miðað við tölur Redd barna (Barnaheill) frá árinu 2019 var hlutfall fátækra fjölskyldna í Danmörku 13,2 prósent, í Finnlandi 14,3 prósent og í Svíþjóð 23,1 prósent.