Alþjóðleg netvangsfyrirtæki herða takið á norrænum fjölmiðlamarkaði

13.10.22 | Fréttir
Digitala nyhetsmedier
Photographer
Michael Bager/Jysk Fynske Medier/Ritzau Scanpix
Alþjóðleg netvangsfyrirtæki á borð við Google og Facebook hafa styrkt efnahagslega og tæknilega stöðu sína á norrænum fjölmiðlamarkaði á undanförnum fimm árum. Samkvæmt nýrri skýrslu frá Norrænu ráðherranefndinni og Nordicom við Gautaborgarháskóla rennur nú meirihlutinn af fjárfestingum í stafrænum auglýsingum á Norðurlöndum til alþjóðlegra fyrirtækja en ekki fjölmiðlafyrirtækja í löndunum sjálfum.

Skýrslan, sem ber titilinn „Nordiska nyhetsmedier i global konkurrens: Nyhetsjournalistikens villkor i den digitala plattformsekonomin“ (Norrænir fréttamiðlar í alþjóðlegri samkeppni: Skilyrði fyrir fréttamennsku í stafrænu netvangshagkerfi), sýnir að miklar breytingar hafa átt sér stað á norrænum fjölmiðlamörkuðum frá árinu 2016.


„Staða alþjóðlegu netvangsfyrirtækjanna á fjölmiðlamörkuðum á Norðurlöndum er nú með þeim hætti að þau geta haft áhrif á samkeppnisskilyrði á mikilvægum sviðum á stafrænum fjölmiðlamarkaði,“ segir Tobias Lindberg, fræðimaður hjá Nordicom sem er miðstöð norrænnar fjölmiðlafræði við Gautaborgarháskóla.

Google, Apple og Facebook leiðandi

Netvangsfyrirtæki á borð við Alphabet (Google), Apple og Meta (Facebook) hafa leikið stórt hlutverk í þróun fjölmiðlamarkaðanna á Norðurlöndum. Stefna þeirra og aðgerðir hafa meðal annars haft áhrif á það hvernig inniviðir auglýsingamarkaðanna hafa breyst, hvar auglýsendur hafa valið að leggja fé í markaðssetningu og hvernig almenningur nálgast fréttir. Á þessum tíma hafa netvangsfyrirtækin hert tök sín á stafrænum innviðum auglýsinga- og almenningsmarkaðar um leið og þau hafa aukið til muna hlut sinn í auglýsingafjárfestingum.

Á síðasta ári er áætlað að 72 prósent þess sem fjárfest var í stafrænum auglýsingum hafi runnið til netvangsfyrirtækja utan Norðurðlanda. Í Danmörku og Finnlandi er áætlað að hlutfallið hafi verið 64 prósent en í Noregi um það bil 59 prósent. Á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum er gert ráð fyrir að hlutur netvanganna hafi verið minni.

Aukin arðsemi

Frá árinu 2016 hefur fjárhagsstaða margra norrænna fjölmiðlafyrirtækja jafnframt batnað mikið. Ein ástæða aukinnar arðsemi er að fréttamiðlarnir hafa þróað með sér nýja tekjuleið með því að fá í auknum mæli greitt fyrir fréttir sínar á netinu.

Skýrslan sýnir jafnframt að það eru stóru fjölmiðlasamsteypurnar í hinum stærri norrænu löndum sem náð hafa mestum árangri í að fá notendur til að greiða fyrir stafrænt fréttaefni. Önnur ástæða aukinnar arðsemi er sú að fjölmiðlafyrirtækin hafa skorið niður kostnað.

 

Fjallað er um rannsóknina í heild í skýrslunni „Nordiska nyhetsmedier i global konkurrens“ (Norrænir fréttamiðlar í alþjóðlegri samkeppni)

Skýrslan kynnt á norrænni fjölmiðlaráðstefnu 18. október

Tobias Lindberg, fræðimaður hjá Nordicom, mun kynna skýrsluna í beinni útsendingu á ráðstefnunni „En styrket demokratisk samtale – Tek-gigantenes innflytelse og nordiske løsninger“ (Öflugra lýðræðislegt samtal – áhrif tæknirisanna og norrænar lausnir) sem haldin verður í Ósló þann 18. október. Það er norska ríkisstjórnin sem stendur fyrir ráðstefnunni í krafti formennsku sinnar í Norrænu ráðherranefndinni 2022 og Anette Trettebergstuen, menningar- og jafnréttisráðherra, mun taka þátt. Hægt verður að taka þátt á staðnum í Ósló (skráningar krafist) eða fylgjast með útsendingu á netinu.

Norræn þekking og sjónarhorn

Skýrslan er ein margra samnorrænna aðgerða sem norrænu menningarmálaráðherrarnir hafa ýtt úr vör til að afla nýrrar þekkingar og sjónarhorns á það hvaða áhrif tæknirisarnir og netvangar hafa á skilyrði fyrir lýðræðislegt samtal á Norðurlöndum og á fréttamiðla. Þetta er forgangsmál í samstarfsáætlun ráðherranna um menningarmál á tímabilinu 2021–2024, „Listir og menning – drifkraftur sjálfbærrar þróunar á Norðurlöndum“.