Menningarmálaráðherrarnir: Menning er burðarstoð sjálfbærrar þróunar

09.11.21 | Fréttir
arknat arkitekter
Photographer
arknat.com

Mynd frá arkitektúrhátíðinni Arknat, þar sem námsmenn frá öllum Norðurlöndum taka þátt.

Listir og menning búa yfir ómissandi innra gildi og geta stuðlað að því með margvíslegum hætti að framtíðarsýninni um Norðurlönd sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030 verði náð. Þetta segja norrænu menningarmálaráðherrarnir í sameiginlegri yfirlýsingu sem kynnt var á þriðjudag.

Um leið og COP26, leiðtogafundur um loftslagsmál, fer fram í Glasgow beina norrænu menningarmálaráðherrarnir sjónum að hlutverki lista og menningar fyrir sjálfbæra þróun með sameiginlegri yfirlýsingu.

„Við leggjum áherslu á mikilvægi vistvæns lista- og menningarlífs, bæði nú og til framtíðar. Borgaraleg samfélög í norrænu löndunum, og einkum börn og ungmenni, eiga virkan þátt í frumkvöðla- og framkvæmdastarfi innan norræna menningargeirans í hinum grænu umskiptum,“ segja menningarmálaráðherrarnir.
 

Menning og tungumál

Samstarfið á sviði menningarmála – sem lá einnig til grundvallar þegar Norræna ráðherranefndin var sett á fót fyrir 50 árum síðan – er miðlægt í norrænu samstarfi. 

„Listir og menning búi yfir ómissandi innra gildi og því á að efla forsendur fyrir lista- og menningarstarfi og hafa það aðgengilegt öllum í samfélögum okkar. Jafnframt sjáum við að í menningarsamstarfinu búa miklir möguleikar til að styðja við sjálfbæra samfélagsþróun,“ segja menningarmálaráðherrarnir í yfirlýsingunni og halda áfram:
 

„Listir og menning hjálpa okkur að takast á við ýmiss konar hnattrænar áskoranir, svo sem loftslagsvandann og heimsfaraldur COVID-19.“

Tjáningarfrelsi, stafvæðing og norrænar menningarstofnanir

Inngildandi lista- og menningarlíf, stafvæðing og menntun, mikilvæg þekking frumbyggja og tjáningarfrelsið eru allt þýðingarmiklir þættir sem ráðherrarnir benda á að séu nauðsynlegir fyrir sjálfbæra þróun á Norðurlöndum.  Ráðherrarnir vekja einnig athygli á mikilvægi norrænu menningarstofnananna fimm, en þær eru: Norræna húsið í Reykjavík, Norðurlandahúsið í Færeyjum, Norræna stofnunin á Grænlandi, Norræna stofnunin á Álandseyjum og Norræna menningargáttin í Helsinki.


„Við leggjum áherslu á að allar norrænu menningarstofnanirnar fimm hafa mikilvægt stefnumótandi umboð í menningarmálum. Á meðal verkefna þeirra er að auka þekkingu og skilning á því að listir og menning eru mikilvægar forsendur sjálfbærrar þróunar. Í starfinu felst meðal annars að sýna gott fordæmi, miðla góðum dæmum og hvetja til grænnar menningarframleiðslu, -miðlunar og -neyslu.“
 

Alþjóðasamstarf

Þau viðfangsefni sem hvað helst eru rædd á leiðtogafundinum um loftslagsmál eru hnattræns eðlis, og ofarlega á forgangslista menningarmálaráðherranna eru alþjóðlegt samstarf og miðlun reynslu. Með því að vekja athygli á sjálfbærum norrænum lausnum og stuðla að virku samtali vilja ráðherrarnir beita sér fyrir því að efla jákvæða þróun í alþjóðlegu samstarfi á sviði umhverfis- og loftslagsmála, meðal annars með norræna menningarverkefninu Nordic Bridges í Kanada 2022.

Vegurinn fram til 2030

Undir lok yfirlýsingarinnar lýsa menningarmálaráðherrarnir yfir stuðningi við framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030 og tilgreina hvernig þeir hyggist halda starfinu áfram.

„Við hyggjumst hrinda í framkvæmd samstarfsáætluninni um menningarmál sem við samþykktum fyrir tímabilið 2021–2024. Í áætluninni er megináhersla lögð á menningu sem gegnumgangandi og frjálsa burðarstoð sjálfbærrar þróunar í samfélögum okkar, einkum hvað varðar viðleitni til að gera Norðurlönd græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær. Við teljum mikilvægt að í Framtíðarsýninni 2030 felist góðir möguleikar fyrir þverfaglegt samstarf milli fagsviða í lista-og menningargeiranum.“
 


Hin sameiginlega yfirlýsing var samþykkt af norrænu menningarmálaráðherrunum á fundi þeirra í Kaupmannahöfn þann 3. nóvember.