Auka verður stafræna færni innflytjenda

10.12.21 | Fréttir
Digitalisering
Photographer
Maud Lervik
Norrænir innflytjenda- og vinnumálaráðherrar hittust fyrir skemmstu til þess að ræða hvað þau gætu lært hvert af öðru til þess að ná innflytjendum sem skortir stafræna færni inn á vinnumarkaðinn. Formennska Finna í Norrænu ráðherranefndinni stóð fyrir fundinum.

Norrænir innflytjenda- og vinnumálaráðherrar hittust fyrir skemmstu. Á þessum óformlega ráðherrafundi var sjónum beint að áskorunum og lausnum í tengslum við að ná innflytjendum inn á vinnumarkað sem stöðugt verður stafrænni. Ráðherrunum voru kynntar skýrslurnar The Future of Work in the Nordic Countries og Digital Transformations of Traditional Work in the Nordic Countries. Í þeim kemur fram að ófaglærðum störfum muni fækka samhliða aukinni tækni- og stafvæðingu vinnumarkaðarins á Norðurlöndum. Í því liggur vandi fyrir nokkurn hluta innflytjenda sem einmitt vantar stafræna færni. Þetta á bæði við um þau sem eru utan vinnumarkaðar og þau sem stunda störf sem munu hverfa í framtíðinni. 
 

Þessi ráðherrafundur er frábært tækifæri til þess að fá innsýn í þær lausnir sem orðið hafa til í norrænu löndunum til þess að bæta samþættinguna

Tuula Haatainen, vinnumálaráðherra Finnlands

Nauðsynlegt leggja sig fram ef Framtíðarsýn 2030 á að nást 

Norrænu forsætisráðherrarnir hafa samþykkt Framtíðarsýn okkar 2030 – Norðurlöndin eiga að vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Þrátt fyrir að Norðurlöndin séu á góðri leið eru áskoranir á sumum sviðum. Grunnskýrsla Norrænu ráðherranefndarinnar sýnir nefnilega að aðlögun borgara frá löndum utan ESB á sviði atvinnuþátttöku reynist mikil áskorun. Atvinnuþátttökubilið sýnir mun á fjölda atvinnulausra eða óvirkra á vinnumarkaði á aldrinum 25-64 ára, annars vegar meðal fólks sem er fætt utan ESB og hins vegar fólks sem fætt er innanlands. Árið 2019 var atvinnuþátttökubilið 17 prósentustig sem er sama staða og verið hefur í mörg ár. Í nýjustu mælingunni frá 2020 hefur bilið breikkað í 18,3 prósentustig, sem er mesti munur sem mælst hefur í 15 ár. Þess vegna er mikilvægt að Norðurlöndin geti sótt hugmyndir hvert til annars til þess að breyta þessari mynd.

„Með farsælli samþættingarstefnu getum við náð fullri þátttöku í umbreytingunni og náð fram tækni sem einnig eykur þjónustuna. Þessi ráðherrafundur er frábært tækifæri til þess að fá innsýn í þær lausnir sem orðið hafa til í norrænu löndunum til þess að bæta samþættinguna,“ segir gestgjafi fundarins og vinnumálaráðherra Finnlands, Tuula Haatainen.
 

Miðla hugmyndum

Það er blæbrigðamunur á þeim áskorunum sem norrænu löndin glíma við og á því hvernig löndin hvert og eitt takast á við þær. Það voru einmitt þessar mismunandi aðferðir við að takast á við áskoranirnar sem finnska formennskan vildi fá upp á borðið til þess að löndin gætu fengið hugmyndir hvert frá öðru. Á fundinum kom til dæmis fram að í kórónuveirukreppunni hefur það reynst sérstök áskorun fyrir konur að skorta þá stafrænu hæfni sem eftirspurn er eftir á vinnumarkaðinum. Ástæða þessa gæti verið að samkvæmt tölulegum upplýsingum hafa konur ekki sama aðgang að stafrænum vettvangi og tölvum og karlar. Almennt ríkti  samkomulag um að ræða áfram stafræna væðingu í menntun og færniþróun sem beinist bæði að konum og körlum í hópi innflytjenda, bæði fólks á vinnumarkaði og utan hans.      

 

Þátttakendur í ráðherrafundinum 
 

  • Tuula Haatainen, vinnumálaráðherra Finnlands
  • Anders Ygeman, samþættingar- og innflytjendamálaráðherra Svíþjóðar
  • Hadia Tajik, vinnu- og inngildingarmálaráðherra Noregs
  • Mattias Tesfaye, útlendinga- og samþættingarmálaráðherra Danmerkur
  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra Íslands
  • Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar



Gestir 
 

  • Miapetra Kumpula-Natri, Evrópuþingmaður
  • Jon Erik Dølvik, sérfræðingur á rannsóknarstofnuninni Fafo
  • Tomas Berglund, prófessor við Háskólann í Gautaborg
  • Lars Østby, fræðimaður á norsku hagstofunni