Er samstarf um málefni flóttafólks mögulegt á Norðurlöndum?

27.10.15 | Fréttir
Sändning från sessionarrangemanget om flyktingkrisen
Photographer
Norden.org
Áður en þing Norðurlandaráðs í Reykjavík var sett formlega komu þingmennirnir saman vegna sérstaks þingviðburðar um flóttamannavandann. Þar kom greinilega fram að norrænu löndin og mismunandi stjórnmálaflokkar innan hvers lands hafa afar ólíka sýn á það hvernig skuli leysa vandann.

Jean-Christophe Dumont hjá alþjóða innflytjendadeild Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og Roderick Parkes, sérfræðingur í greiningu á fólksflutningum og innri málefnum hjá Stofnun Evópusambandsins í öryggisfræðum, voru frummælendur í umræðunum.

Báðir lögðu þeir áherslu á að engar einfaldar skyndilausnir væri að finna á flóttamannavandanum, og einnig þá staðreynd að nú væri að upphefjast langvarandi tímabil fólksflutninga til Evrópu. Þeir hvöttu stjórnmálamennina til að hugsa heildrænt og eiga samstarf þvert á landamæri, þar eð ekkert land gæti tekist á við vandann eitt síns liðs.

Mikil óeining um málefni flóttafólks

Sérfræðingarnir komu þannig með skýrar ráðleggingar um hvernig nýta megi norrænt samstarf sem vettvang til að finna sameiginlegar lausnir, en umræðurnar í salnum bentu þó ekki til þess að samhugur ríkti um stefnu Norðurlandanna í þessum málum.

Nokkrir stjórnmálamenn töluðu fyrir því að taka ætti jafnvel pappíralausa innflytjendur inn í samfélagið, en aðrir töldu mikilvægt að herða innflytjendalöggjöfina. Sumir vildu opna landamærin en aðrir vildu auka eftirlit á landamærum. Sumir vildu aðstoða flóttafólk við að komast til Norðurlanda, en aðrir töldu að frekar ætti að senda hjálp á átakasvæði.

Svíþjóð er það land á Norðurlöndum sem tekur við flestum flóttamönnum. Sumir töldu Svíþjóð vera fordæmi fyrir hin löndin í þessum málum, en aðrir töldu hins vegar að sænska leiðin væri ógn við norræna velferðarríkið. Sumir sjá aðeins kostnað í flóttafólki, en aðrir leggja áherslu á að þetta sé fólk sem hafi ýmislegt fram að færa og sem samfélög okkar geti notið góðs af.

HORFIÐ Á STJÓRNMÁLAFÓLK NORÐURLANDARÁÐS RÆÐA ÁSTANDIÐ Í MÁLEFNUM FLÓTTAMANNA

Er yfirhöfuð hægt að hugsa sér sameiginlega norræna stefnumótun á þessu sviði, þegar skoðanir innan mismunandi stjórnmálaflokka og landa eru eins ólíkar og raun ber vitni?

Sjáið alla umræðuna hér: Þingviðburður um flóttamannavandann