Erna Solberg og Mette-Marit krónprinsessa Noregs afhenda verðlaun Norðurlandaráðs

04.10.18 | Fréttir
Erna Solberg og Mette Marit

Erna Solberg og Mette Marit

Photographer
Vidar Ruud, Scanpix
Verðlaun Norðurlandaráðs verða afhent 30. október í Óperuhúsinu í Ósló. Verðlaunahafarnir munu taka við verðlaununum úr hendi Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, Mette-Marit krónprinsessu, Gunillu Bergström rithöfundar, Jakobs Oftebro leikara og Sofiu Jernberg tónskálds. Norska ríkissjónvarpið, NRK, sjónvarpar verðlaunahátíðinni.

Einstök framlög til menningar og umhverfis

Norðurlandaráð veitir ár hvert fimm verðlaun til þess að vekja athygli á bókmenntum, tungumáli, tónlist og kvikmyndum Norðurlandanna ásamt nýskapandi aðgerðum á sviði umhverfismála. Michael Tetzschner, forseti Norðurlandaráðs, er hrifinn af þeim sem eru tilnefndir til verðlaunanna í ár:

„Framlög hinna tilnefndu eru ólík - þau felast í orðum, myndum, tónum og framlagi til umhverfisins - þetta eru framlög til sameiginlegrar norrænnar frásagnar okkar. Vegna einstakra framlaga ykkar nær þessi frásögn nú til fólks á Norðurlöndum og um allan heim. Við hlökkum til þess að heiðra ykkur.“

Verðlaunahafarnir fimm sem kynntir verða um kvöldið taka við verðlaunastyttunni Norðurljósum og 350.000 dönskum krónum.

  • Gunilla Bergström, rithöfundur og teiknari, afhendir verðlaunin
  • Hennar konunglega hátign Mette-Marit, krónprinsessa Noregs, afhendir verðlaunin
  • Jakob Oftebro, leikari, afhendir verðlaunin. 
  • Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, afhendir verðlaunin
  • Sofia Jernberg, söngkona og tónskáld, afhendir verðlaunin

Stjörnum prýdd hátíð í beinni

Hinir vinsælu þáttastjórnendur Linda Eide og Hans Olav Brenner munu stýra verðlaunahátíðinni sem verður stjörnum prýdd en þar munu meðal annars koma fram Susanne Sundfør, Dagny Norvoll Sandvik, Jan-Erik Gustafsson, norski óperúkórinn og hljómsveit norska ríksútvarpsins, NRK, svo nokkrir listamannanna séu nefndir. Thor Gjermund Eriksen, menningarritstjóri NRK, hlakkar til þess að Noregur verði gestgjafi þessa viðburðar.

„NRK vill skapa opinn vettvang, nýjan skilning og upplifanir sem tekið er eftir. Þann 30. október munum við halda upp á athyglisverða norræna listamenn og sameiginlegan norrænan arf okkar. Við munum líka halda upp á þá nýsköpun sem á sér stað í umhverfismálum á Norðurlöndum.“

Útsending NRK frá Óperu- og balletthúsinu í Ósló hefst kl. 19.45 og verður á NRK1 og www.nrk.no.

Um verðlaun Norðurlandaráðs

Litið er á verðlaun Norðurlandaráðs sem virtustu verðlaun á Norðurlöndum og þau frá mikla alþjóðlega athygli. Verðlaunin eru fimm talsins og eru bókmenntaverðlaunin þeirra elst. Þau voru veitt í fyrsta sinn árið 1962. Þá komu tónlistarverðlaunin (1965), umhverfisverðlaunin (1995), kvikmyndaverðlaunin (2002) og barna- og unglingabókmenntaverðlaunin (2013). Fimm dómnefndir sjá um að tilnefna verk og útnefna verðlaunahafana.

Verðlaun Norðurlandaráðs verða afhent á 70. þingi Norðurlandaráðs í Ósló þar sem þingmenn, forsætisráðherrar og allmargir aðrir ráðherrar og leiðtogar stjórnarandstöðu frá öllum Norðurlöndum koma saman til þess að eiga pólitískt samtal.