Fögur orð eru ekki lengur nóg

30.10.19 | Fréttir
De nordiska statsministrarna träffar ungdommsrepresentanter vid Nordiska rådets session i Stockholm 2019
Photographer
Johannes Jansson
Átta forsætisráðherrar og níu fulltrúar norrænna ungmennahreyfinga komu saman á umræðufundi um sjálfbærni í Stokkhólmi á miðvikudag. Forsætisráðherrarnir buðu til fundarins. Unga fólkið spurði margra spurninga og ráðherrarnir hlustuðu og svöruðu.

Það var enda beinlínis tilgangur fundarins að veita ungmennunum tækifæri til að koma því á framfæri sem þau telja mikilvægt og að hlusta raunverulega á þau.

Umræðufundurinn var skipulagður að frumkvæði íslensku formennskunnar í Norrænu ráðherranefndinni. Fulltrúar ungmennanna voru ánægðir með tækifærið til þess að hitta forsætisráðherrana en leggja áherslu á að fylgja verði þessum fundi eftir með fleiri fundum.

Þörf á raunhæfum úrræðum

„Það er ótrúlega mikilvægt að breytingarnar í samfélaginu eigi sér stað með miklum hraða og að stöðugt sé hlustað á fulltrúa unga fólksins,“ segir Bicca Olin sem er fulltrúi regnhlífarsamtaka ungmennasamtaka í Finnlandi, Allianssi.

„Fyrir okkur er er loftslagsváin ekki fjarlæg ógn heldur veruleiki sem við búum nú þegar við,“ segir Una Hildardóttir frá Landssambandi ungmennafélaga á Íslandi.

Simon Holmström er fulltrúi ReGeneration2030 á Álandseyjum.

„Ég varð fyrir vonbrigðum með að forsætisráðherrarnir afsökuðu sig og héldu því fram að löndin ynnu loftslagsvænt þegar við stöndum í stað á Norðurlöndumm,“ segir hann.

„Engan vantar lengur fleiri fögur orð, við þurfum raunhæfar aðgerðir,“ segir Bicca Olin.

Loftslagsváin eykur misskiptingu í samfélaginu

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands er sammála unga fólkinu og styður þá hugmynd að halda áfram viðræðum við ungmennasamtökin.

„Við verðum að vera tilbúin til að taka djarfar ákvarðanir og við verðum að taka þær í samstarfi við ungt fólk. Við þurfum að beita nýjum aðferðum, bæði fjárhagslega og félagslega.“

Forsætisráðherrarnir leggja áherslu á að samfélagsbreytingarnar verði að gerast með þátttöku allra. Breytingarnar geta ekki allar orðið jafnhratt.

„Ég hef áhyggjur af því að loftslagsváin auki misskiptingu í samfélagi okkar,“ segir Katrín Jakobsdóttir. Í framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf leggjum við ekki aðeins áherslu á græna sjálfbærni heldur einnig félagslega sjálfbærni sem er veigamikill þáttur í norræna velferðarríkinu. Enginn má verða útundan,“ segir hún.