Forstjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar: Ekki má vanmeta hættuna við vinnu í gegnum netvanga

25.11.21 | Fréttir
matbud som strejakr
Ljósmyndari
Olafur Steinar Gestsson/Ritzau Scanpix
Í dag eru þeir ekki margir á Norðurlöndum sem vinna í gegnum netvanga, þ.e. taka að sér stutt verkefni á borð við að sendast á hjóli, þrífa og aka á vegum Uber. En störfum af þessu tagi fer ört fjölgandi í heiminum og setja verður reglur um þau í tæka tíð til að komast hjá því að ný „stafræn lágstétt“ verði til. Þessum varnaðarorðum beindi Guy Ryder, forstjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, til norrænu atvinnumálaráðherranna á sameiginlegum fundi þeirra á miðvikudaginn.

„Ef þessum netvöngum er gefið frelsi til að nota tilfallandi vinnuafl erum við komin aftur til 19. aldar þegar daglaunamenn hópuðust niður á höfn til að snapa sér eins dags vinnu. Ég segi ekki að það verði þannig en það skapar umræðu á borð við þá sem hér fer fram á milli norrænu ráðherranna, þ.e. hvernig við getum sett reglur um og hamið vinnu í gegnum netvanga,“ sagði Guy Ryder þegar hann hitti norrænu atvinnumálaráðherrana í Helsingfors.

Enn sem komið er fá á Norðurlöndum

Netvangafyrirtæki á borð við Uber, Hilfr og Foodora hafa verið til staðar á Norðuröndum og þrátt fyrir að vöxtur þeirra sé ör á heimsvísu eru þau enn jaðarfyrirbæri á hér. Norrænir rannsakendur á sviði vinnumála telja að aðeins á bilinu 0,3–2,5 prósent vinnufærra borgara á Norðurlöndum hafi starfað í gegnum netvanga.

 

En norrænu atvinnumálaráðherrarnir vilja bregðast tímanlega við og hluti af ráðherranefndarfundi þriðjudagsins fór í að ræða hvernig hægt sé að aðlaga vinnulöggjöfina og skilgreina starfsfólk netvanga, nokkuð sem öll norrænu löndin eru í startholunum með. 

Launafólk eða sjálfstætt starfandi

Netvangafyrirtækin sjálf vilja skilgreina fólk sem tekur að sér verkefni á þeirra vegum sem sjálfstætt starfandi. Það þýðir að það hefur ekki sömu réttindi og fastráðið launafólk hvað varðar veikindaleyfi, atvinnuleysisbætur og gott starfsumhverfi.

  Í Noregi hefur nefnd sem samanstendur af aðilum á vinnumarkaði og sérfræðingum í vinnumálum unnið tillögu að lagabreytingu sem ætlað er að auka réttindi og öryggi fólks í netvangsstörfum. 

Sönnunarbyrðin hjá netvangafyrirtækjunum

Meðal annars er lagt til að litið verði á þau sem taka að sér verkefni í gegnum netvanga sem launafólk, með öllum þeim réttindum sem fastráðningu fylgja. Ef netvangafyrirtækið telur að heldur eigi að líta á starfsfólkið sem sjálfstætt starfandi á sönnunarbyrðin að liggja hjá netvangafyrirtækinu, segir í norsku tillögunni.

Vill sjá hátt viðmið á Norðurlöndum 

„Ég veit að öll norrænu löndin vinna með svipuðum hætti að því að tryggja að fólk sem tekur að sér verkefni af þessu tagi fái sömu réttindi og fastráðið launafólk hvað varðar veikindaleyfi, atvinnuleysisbætur og gott starfsumhverfi. Þar sem netvangarnir eru alþjóðleg fyrirtæki væri það kostur ef innlend lög okkar væru eins lík og hægt er svo við getum sett hátt viðmið á Norðurlöndum varðandi réttindi netvangastarfsfólks,“ segir Hadia Tajik, ráðherra vinnu- og inngildingarmála í Noregi.

Hver á að borga fyrir öryggið?

Svipuð umræða á sér nú stað innan ESB þar sem framkvæmdastjórnin vinnur með tillögu um regluverk í kringum netvangsvinnu.

Mörg netvangafyrirtækjanna reyna að koma í veg fyrir að starfsfólkið verði skilgreint sem launafólk og þrýsta á um þriðja flokkinn, mitt á milli launafólks og sjálfstætt starfandi.

Sjá má þetta sem leið netvanganna til að komast undan kostnaði vegna atvinnuleysis- og veikindagreiðslna og ábyrgð á starfsumhverfi og öryggi starfsfólks.

Nei við „þriðja“ ráðningarforminu

Nokkrir norrænu ráðherranna tóku skýra afstöðu gegn þriðja flokknum á fundinum.

„Það er mikilvægt að tryggja að fólk sem vinnur í gegnum netvanga fái rétta stöðu miðað við raunverulegar aðstæður þegar vinnan er innt af hendi. Finnland styður ekki að til verði þriðji flokkurinn á milli launafólks og sjálfstætt starfandi,“ sagði Tuula Haatainen, atvinnumálaráðherra Finnlands.

 

Föst vinna eftirsóttari

Í faraldrinum hefur færst í vöxt að sendlar á bílum eða hjólum sendist með mat heim til fólks og fyrir ári síðan vöruðu norrænir rannsakendur á vinnumarkaði við því að ört vaxandi atvinnuleysi gæti leitt til þess að netvöngunum vaxi fiskur um hrygg.

Nú sjáum við að norrænu hagkerfin komust tiltölulega vel frá faraldrinum og þörfin á vinnuafli eykst. Fólk sem á kost á því að fá venjulega ráðningu hefur tilhneigingu til að velja ekki netvangaverkefni.

„Notið norrænu leiðina“

En Guy Ryder, forstjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, hvatti norrænu ráðherranna til að vanmeta ekki hættuna heldur bregðast við.

Ég held ekki að Norðurlöndum hafi tekist að koma böndum á þá netvanga sem þar eru til staðar. En það er mjög jákvætt að á Norðurlöndum höfum við séð viðræður og gagnkvæmt samtal við netvangafyrirtækin sem skilað hefur árangri. Í dag ræddu ráðherrarnir um lagasetningu og skilgreiningu á ráðningarformi netvangsstarfsfólks og það er mjög af hinu góða. Notið norrænu leiðina og þær sterku stofnanir sem þið hafið til að koma böndum á hið stafræna hagkerfi með sama hætti og hið hliðræna,“ sagði Guy Ryder.