Kominn tími fyrir norrænt þekkingarátak gegn gjám á vinnumarkaði

02.06.21 | Fréttir
man som diskar
Ljósmyndari
Isabella Lindblom / norden.org
Grænu umskiptin eru þegar farin að skapa ný störf víðsvegar á Norðurlöndum með því að fjárfest er í sparneytinni og umhverfisvænni framleiðslu. En nú verða stjórnvöld landanna og aðilar vinnumarkaðarins að vinna hratt og örugglega saman því umskipti vinnuafls eru einnig tímabær. Varúðarorð vísindafólks um skiptan norrænan vinnumarkað var á dagskrá þegar atvinnumálaráðherrar og aðilar vinnumarkaðarins hittust 2. júní.

Tuula Haatainen, atvinnumálaráðherra Finnlands, sagði á fundinum að tengja þyrfti grænu umskiptin við almenning.

„Við verðum að búa til andrúmsloft þar sem litið er á umskiptin til kolefnishlutlauss hagkerfis sem tækifæri fremur en vandamál. Það gerir okkur fært að byggja traustan grunn undir réttlát umskipti þar sem engum líður eins og viðkomandi hafi orðið útundan.“

Fjárfest í menntun

Í skýrslunni um vinnumarkað framtíðarinnar segir vísindafólkið að bæði loftslagsbreytingar og tækniþróun valdi hraðari breytingum í atvinnulífinu en skýrslan var unnin var að beiðni norrænu atvinnuráðherranna. Hæfniþróun fullorðins vinnuafls og fjárfesting í símenntun skiptir algerlega sköpum til þess að gera fólki fært að fara í gegnum umskipti og skipta um starf.

Þegar orðið erfitt að mæta þörfum

Taina Susiluoto frá Finskt Näringsliv sagði að þegar væri orðið erfiðleikum bundið að finna starfsfólk með hæfni sem ætti við hin nýju störf. 

„Það þarf nýja hæfni til að byggja upp kolefnishlutlaust samfélag. Okkur er þegar farið að vanta sérfræðinga á sviði tölvuhagfræði og netöryggis og vöxturinn eftir heimsfaraldurinn er rétt að byrja. Við verðum að endurmennta og bæta við menntun starfsfólksins til þess að mæta þörfum vinnumarkaðarins.

Byrjendastörf hverfa

Á Norðurlöndum er sú tilhneiging fyrir hendi að störfum með miklum kröfum um hæfni fjölgar og svokölluðum einföldum störfum fækkar. Þetta veldur því einnig að byrjendastörf hverfa, störf sem henta fólki sem á erfitt með að komast inn á vinnumarkaðinn. Þess vegna þarf stefnu sem vinnur gegn dýpkandi gjá, segir vísindafólkið í skýrslunni.

Skyldubundin fullorðinsfræðsla?

Magnus Gissler, framkvæmdastjóri Sambands norrænna verkalýðsfélaga, segir að nú sé rétti tíminn til stóraðgerða í menntamálum og skoða til dæmis möguleika á að taka upp skyldubundna fullorðinsfræðslu.

„Aukin misskipting og hætta á að skiptingu vinnumarkaðarins eru stóru hætturnar sem vísindafólkið bendir á. Við verðum að vinna gegn þessu. Ef við reynum að byggja upp sameiginlega stefnumótun getum við farið í gegnum þessi umskipti við félagslega sjálfbær skilyrði, segir Magnus Gissler.

Faraldurinn próf fyrir líkanið

Í miðju fjögurra ára rannsóknarverkefni um atvinnulíf framtíðarinnar kom heimsfaraldurinn eins og raundæmi um hina kunnu hæfni norræna atvinnulífslíkansins til þess að takast á við umskipti. Og í ljós kom að það virkaði. Aðilar vinnumarkaðarins unnu saman, komu sér saman um neyðarpakka sem bjargaði bæði störfum, tekjum og þjóðarframleiðslu.

Pólitískt athafnarými

„Þetta þýðir að við þurfum ekki að óttast breytingar,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra Íslands með ábyrgð á vinnumálum.

„Nú er það undir okkur stjórnmálafólkinu komið að taka markvisst á þeim áskorunum sem fylgja tækniþróun og grænum umskiptum. Við verðum að vinna gegn ójafnræði og þekkingargjám og þurfum að spyrja okkur að því hvernig við leysum þetta saman,“ segir Ásmundur Einar.