Krafa frá ungu fólki á COP27: Jarðefnaeldsneytislaust ESB árið 2030

17.11.22 | Fréttir
alt=""
Ljósmyndari
Andreas Omvik/norden.org
Versti óttinn rættist ekki en mikilvægustu niðurstöðurnar náðust ekki. Margt ungt fólk gat látið rödd sína heyrast en þegar heim er komið þurfa þau aukin völd til að þrýsta á ríkisstjórnir sínar til að loftslagssamningar verði að veruleika. Þetta er það sem nokkrir fulltrúar ungs fólks taka með sér af loftslagsfundinum COP27.

Mörgum þeirra norrænu og erlendu fulltrúa ungs fólks sem fylgst hafa með samningaviðræðunum í návígi er létt yfir því að áhersla hefur verið lögð á hið umdeilda málefni „tap og tjón“ (loss and damage) á loftslagsfundinum í Egyptalandi.

Það snýst um að skapa kerfi sem tekst á við loftslagsskaða sem ekki er hægt að koma í veg fyrir með loftslagsaðlögun. Mörg fátæk lönd telja að ríkari þjóðir séu skaðabótaskyldar. Ólíklegt er að niðurstaða náist í málinu en það hefur fengið mikla athygli á fundinum.

Orkukreppan hefði getað verið tækifæri

„Loksins var„loss and damage“ ofarlega á dagskránni. Fundurinn hefur jafnframt viðurkennt það bil sem er á milli þróunar í losun og þess sem þarf til að uppfylla Parísarsamkomulagið, og það er gott. En það er ekki ljóst hvernig á að brúa þetta bil,“ segir Finnur Ricart, sendifulltrúi ungs fólks frá Íslandi.

 

Matilde Angeltveit, sendifulltrúa ungs fólks frá Noregi, er líka létt yfir því að innrásin í Úkraínu og orkukreppan í kjölfar hennar hafi þrátt fyrir allt ekki orðið til þess að lama samningaviðræðurnar.

En hún varð fundinum heldur ekki tækifæri til að komast lengra með útleiðingu jarðefnaeldsneytis.

Sameiginleg krafa evrópskra ungmennasamtaka

Matilde Angeltveit var vonsvikinn yfir því að sennilega yrði ekki talað um jarðefnaeldsneyti í lokaskjali fundarins í ár.

Á loftslagsfundinum í Glasgow í fyrra var talað um kol en ekki annað jarðefnaeldsneyti í lokasamkomulagi fundarins.

Á síðustu dögum fundarins sameinuðust ungmennasamtök frá Norðurlöndum og Evrópu um að beina kröfum til ESB um algjöra og hraða útleiðingu jarðefnaeldsneytis í öllum aðildarlöndum ESB í því skyni að ná 1,5 gráðu markmiði Parísarsamkomulagsins.

Þau krefjast þess að öll evrópsk lönd skuldbindi sig til að hætta alfarið notkun jarðefnaeldsneytis fyrir árið 2030.

Ungt fólk hefur gist á gólfinu

Ungmennahreyfingar um allan heim hafa í mörg ár þrýst á stjórnmálamenn að taka loftslagsvandann alvarlega.

Serena Bashal frá UK Youth Climate Coalition segir loftslagsfundinn mun móttækilegri fyrir kröfum ungs fólks í dag en fyrir nokkrum árum.

Á hinn bóginn er það enn erfitt fyrir ungt fólk að taka þátt í loftslagsviðræðunum.

„Það er ótrúlega dýrt að taka þátt í loftslagsfundum. Margt ungt fólk hefur komið hingað en gist á gólfinu og ekki haft efni á að kaupa sér mat,“ segir Serena Bashal.

Stofnum loftslagsráð ungs fólks

Matilde Angeltveit og Finnur Ricart telja sig njóta forréttinda sem sendifulltrúar ungs fólks og segjast hafa upplifað að þau hafi haft tækifæri til að hafa áhrif.

„En það er mjög misjafnt á milli landa. Það er líka mikilvægt að ungt fólk fái að taka þátt sem áheyrnarfulltrúar með möguleika á að þrýsta á viðræðurnar með meiri aktívisma,“ segir Matilde Angeltveit.

Að mati Finns er nú tími kominn til að ungt fólk fái völd á jöfnum forsendum í loftslagsstefnu landanna.

„Lækkum kosningaldur í 16 ár og stofnum loftslagsráð ungs fólks sem ríkisstjórnirnar þurfa að ráðfæra sig við varðanda loftslagsmál,“ segir Finnur.