Maria Gratschew verður yfirmaður skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Eistlandi

13.03.23 | Fréttir
Maria Gratschew
Photographer
norden.org
Maria Gratschew verður næsti yfirmaður skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Eistlandi og mun halda áfram vinnunni við að styrkja og þróa norrænt og eistneskt samstarf.

Maria Gratschew gegnir stöðu ráðgjafa við formennsku Póllands 2022 í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) í Vínarborg í gegnum landsdeild Svíþjóðar. Þar vinnur Gratschew m.a. með formennsku Póllands í tengslum við málefni Mið-Asíu, viðræður varðandi vettvangsaðgerðir ÖSE og ráðgjöf varðandi hernaðarstefnu ÖSE, Dimension. Þar hefur hún öðlast reynslu sem mun nýtast henni í starfinu sem fram undan er og hún hlakkar til að takast á við það:

„Eftir mörg ár í alþjóðlegu starfi fæ ég loks tækifæri til að einbeita mér að þessu svæði, sem jafnframt er heimili mitt. Ég hef aflað mér reynslu í mörgum heimshlutum og stofnunum sem ég held að muni nýtast við að byggja upp mikilvæg og langvarandi sambönd á milli Eistlands og norrænu landanna. Á persónulegum nótum hlakka ég mjög til að sjá meira af einstöku textíl- og tréhandverki Eista. Móðir mín er frá Finnlandi, faðir minn frá Danmörku og afi minn frá Karelen og því stendur þróun þessa svæðis hjarta mínu nærri,“ segir Maria Gratschew.

Norrænt og baltneskt samstarf í 30 ár

Norræna ráðherranefndin hefur átt í samstarfi við Eistland, Lettland og Litháen frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar og rekur norrænar skrifstofur í öllum þremur löndunum. Í Eistlandi er Norræna ráðherranefndin með skrifstofur í Narva og Tartu auk aðalskrifstofunnar í Tallinn. Þaðan mun Maria leiða ný og eldri verkefni sem ætlað er að stuðla að lýðræðislegu og kröftugu Eystrasaltssvæði, m.a. á sviði:

  • Menntunar, rannsókna og nýsköpunar
  • Atvinnulífs, klasasamstarfs og skapandi greina
  • Umhverfis-, loftslags- og orkumála
  • Úrlausnarefna velferðarsamfélagsins sem teygja sig yfir landamæri
  • Jafnréttismála, tjáningarfrelsis og umburðarlyndis

 

 

Eftir mörg ár í alþjóðlegu starfi fæ ég loks tækifæri til að einbeita mér að þessu svæði, sem jafnframt er heimili mitt.

Maria Gratschew

Alþjóðleg reynsla og samstarfshæfileikar

Skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Eistlandi vinnur með verkefni og áætlanir sem þróast og breytast í takt við tíðaranda á svæðinu. Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, fagnar því komu yfirmanns með styrka hönd á stýri, alþjóðlega reynslu og mikla samstarfshæfileika, og býður Mariu hjartanlega velkomna:

„Það gleður mig mjög að okkur hafi tekist að fá Mariu Gratschew til að leiða skrifstofu okkar í Eistlandi. Maria hefur fjölbreytta reynslu af alþjóðasamstarfi og þekkir vel þau vandamál sem við vinnum með í Eystrasaltsríkjunum. Ég býð Mariu hjartanlega velkomna og hlakka til að kynnast henni enn betur,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Maria er ráðin til fimm ára með möguleika á framlengingu til þriggja ára. Hún hefur störf 2. ágúst 2023 og tekur við af Christer Haglund sem lætur af störfum eftir átta ár í embætti.