Verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar í Eistlandi, Lettlandi og Litháen

Nordiska och baltiska flaggor
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Norræna ráðherranefndin hefur þróað víðfeðmt og náið samstarf við Eistland, Lettland og Litháen síðan snemma á tíunda áratug síðustu aldar.

Strax árið 1991 voru skrifstofur Norrænu raðherranefndarinnar opnaðar í höfuðborgum Eystrasaltslandanna þriggja, þá sem liður í framlagi Norðurlandanna til þess að liðsinna Eistlandi, Lettlandi og Litháen í sjálfstæðisbaráttu sinni. Baráttu sem lauk með því að löndin gengu í Evrópusambandið árið 2004 og breytti það um leið formi samstarfsins milli Norrænu ráðherranefndarinnar og Eistlands, Lettlands og Litháen.

Eftir liðveislu í áratug rann upp tími samstarfs á jafnréttisgrunni. Þetta hefur verið forgangsmál í samstarfi Norrænu ráðherranefndarinnar við Eistland, Lettland og Litháen síðustu árin.

Samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar við Eistland, Lettland og Litháen byggir á verklagsreglum sem norrænu samstarfsráðherrarnir samþykktu árið 2008. Í þessum verklagsreglum koma meðal annars fram megináherslur Norrænu ráðherranefndarinnar í samstarfinu og um það hvernig það geti þróast.

Norræna ráðherranefndin vill sérstaklega þróa samstarfið á eftirfarandi sviðum:

  • Menntun, rannsóknir og nýsköpun
  • Atvinnulíf, klasasamstarf og skapandi greinar
  • Umhverfis-, loftslags- og orkumál; þar með umhverfisástand Eystrasalts, stuðningur við skilvirka umhverfistækni og endurnýjanlegar orkulindir.
  • Áskoranir velferðarsamfélagsins þvert á landamæri, svo sem baráttan gegn mansali og útbreiðslu HIV/AIDS, styrking á samstarfi lögreglu og ákæruvalds, þróun í sjúkrahúsmálum ásamt lýðfræðilegum áskorunum, til dæmis í tengslum við stefnu í vinnumarkaðsmálum.
  • Samstarf milli landamærasvæða til þess að auka sameiginleg grundvallargildi svo sem lýðræði, góða stjórnsýsluhætti, jafnrétti, tjáningarfrelsi og umburðarlyndi, bæði á norræn-baltneska svæðinu og við önnur grannlönd, þar á meðal Hvíta-Rússlandi.

Frjáls félagasamtök gegna nú mikilvægu hlutverki í samstarfi Norrænu ráðherranefndarinnar við Eystrasaltsríkin og Norðvestur-Rússland. Þess vegna kynnti Norræna ráðherranefndin styrkjaáætlun sína fyrir félagasamtök á Eystrasaltssvæðinu árið 2006 en hún styður samstarf milli frjálsra félagaamtaka í norrænu ríkjunum og Eystrasaltsríkjunum, Norðvestur-Rússlandi, Kalingrad, Póllandi og Hvíta-Rússlandi.

Ábyrgðin á þessu samstarfi liggur hjá ráðherranefndinni og embættismannanefndunum ásamt Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Samstarfið fylgir verklagsreglum sem voru samþykkrar af norrænu samstarfsráðherrunum en faglegt innihald þess er skilgreint af fagráðherrunum.

Enn er verið að auka samstarfið og á það vinnuferli sér stað á sviði fagráðherranna.

Norrænu skrifstofurnar hinum þremur höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna gegna lykilhlutverki í þessu þróttmikla samstarfi. Skrifstofurnar eiga í nánu samstarfi við norrænu sendiskrifstofurnar og skipuleggja sameiginleg verkefni. Skrifstofurnar greina strauma og tækifæri fyrir norræn-baltneskt samstarf í samráði við norrænu sendiráðin. Skrifstofurnar eru opnar fyrir öllu því sem er norrænt og kynnir víðfeðmt norrænt samstarf og bera auk þess ábyrgð á ákveðinni verkefnaumsjón, til dæmis norræn-baltneskum verkefnum á sviði opinberrar stjórnsýslu og atvinnulífs.