Næsti leikur: Norrænar umræður um metoo-hreyfinguna í menningargeiranum

Menningarmálaráðherrarnir vilja breyta þeim innviðum menningargeirans sem hafa gert kynferðislegri áreitni kleift að viðgangast. Þetta kváðu þeir skýrt á um í sameiginlegri yfirlýsingu sinni síðasta vor, en þar hétu ráðherrarnir því að beita sér fyrir bættum forystuháttum og aukinni þekkingu á sviðum menningar, fjölmiðla og íþrótta.
Umræður í öllum Norðurlöndunum
Ráðherrarnir hafa átt frumkvæði að tveggja vikna langri röð pallborðsumræðna í öllum Norðurlöndunum, þar sem rithöfundurinn og blaðakonan Alexandra Pascalidou mun stjórna umræðum með þátttöku lykilaðila í hverju landi.
Helstu niðurstöður hverrar umræðulotu verða nýttar til frekari umræðna í næsta landi. Að umræðuröðinni lokinni verður hægt að draga upp heildarmynd af því hvar metoo-hreyfingin stendur í dag og hvaða aðgerða er þörf innan menningargeirans á Norðurlöndum.
„Metoo-hreyfingar á Norðurlöndum hafa átt býsna ólíkar birtingarmyndir undanfarið ár. Það verður áhugavert að rýna frekar í hvað er líkt og ólíkt með hreyfingunum í löndunum,“ segir Alexandra Pascalidou.
Metoo-hreyfingar á Norðurlöndum hafa átt sér afar ólíkar birtingarmyndir undanfarið ár. Það verður áhugavert að rýna frekar í hvað er líkt og ólíkt með hreyfingunum í löndunum
Við val á þátttakendum í pallborðsumræðurnar var áhersla lögð á persónulegar frásagnir frá liðnu ári, nýjustu rannsóknir og mögulegar breytingar til að stuðla að í vinnustaðamenningu. Meðal annars hefur þingmönnum, blaðamönnum, leikurum, fræðimönnum og rithöfundum verið boðið að taka þátt.
Mikil áhrif á pólitíska forgangsröðun
Metoo-hreyfingin hafði mikil áhrif á forgangsröðun á mörgum sviðum norrænna stjórnmála á síðasta ári. Norrænu ráðherrarnir á sviðum jafnréttis- og vinnumarkaðsmála ýttu ýmsum verkefnum tengdum hreyfingunni úr vör.
Kortlagningin „Ett år efter Me too – initiativ och åtgärder i de nordiska och baltiska länderna“ (Ári eftir Me too – verkefni og aðgerðir í norrænu löndunum og Eystrasaltsríkjunum) leiddi til dæmis í ljós að einkum hefur verið gripið til aðgerða á fjórum sviðum. Þau svið varða nýja og uppfærða löggjöf, breytingar á skipulagi verkefna, auknar kröfur til vinnuveitenda auk kortlagningar og þekkingar.
Dagskrá
Umræðuröðin hefst þann 4. febrúar í Helsinki. Næsta umræðulota fer fram á Álandseyjum, því næst liggur leiðin um hin Norðurlöndin og verður síðasta lotan á Grænlandi. Dagskráin er eftirfarandi:
- 4. febrúar: Helsinki
- 5. febrúar: Maríuhöfn
- 6. febrúar: Eskilstuna
- 7. febrúar: Ósló
- 8. febrúar: Kaupmannahöfn
- 11. febrúar: Þórshöfn
- 13. febrúar: Reykjavík
- 15. febrúar: Nuuk
Umræðurnar verða opnar almenningi en sætafjöldi er takmarkaður og því er nauðsynlegt að skrá sig. Einnig verður hægt að fylgjast með beinu streymi frá umræðunum og umfjöllun um þær á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #metookultur. Nánari upplýsingar eru á síðu hvers viðburðar.