Náið samstarf gefur Norðurlöndunum grænni húsnæðis- og byggingariðnað

14.09.20 | Fréttir
Kaare Dybvad och Paula Lehtomäki på bo- och byggministermöte 2020.

Kaare Dybvad och Paula Lehtomäki

Photographer
Matts Lindqvist

Kaare Dybvad Bek, húsnæðismálaráðherra Danmerkur, og Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, á rafrænum fundi húsnæðis- og byggingarmálaráðherranna þann 14. september.

Húsnæðis- og byggingariðnaðurinn á Norðurlöndum verður sjálfbærari og samkeppnishæfari í framtíðinni. Það mun meðal annars gerast með auknu norrænu samstarfi um hringrás í byggingariðnaði, samræmingu byggingarreglna og auknu samstarfi á vettvangi Evrópusambandsins.

Ráðherrar húsnæðis- og byggingarmála Norðurlanda voru sammála um þetta á rafrænum fundi þann 14. september. Á fundinum samþykktu ráðherrarnir meðal annars framkvæmdaáætlun sem segir fyrir um mikilvægustu aðgerðir landanna í húsnæðis- og byggingarmálum á tímabilinu 2021–2024. Alls verður 62 milljónum danskra króna varið í að skapa umhverfisvænni byggingariðnað.

Ráðherrarnir ræddu einnig endurreisn efnahagsins eftir COVID-19-faraldurinn, en í því samhengi gegnir byggingariðnaðurinn mikilvægu hlutverki. Þeir sammæltust um að framkvæmdaáætlunin væri góður grundvöllur fyrir þá vinnu sem miðar að því að gefa húsnæðis- og byggingariðnaðinum innspýtingu eftir heimsfaraldurinn.

Fjárfestingar í grænum og hugvitsamlegum lausnum

Framkvæmdaáætlunin felur í sér fjárfestingar í grænum og hugvitsamlegum lausnum með það að markmiði að húsnæðis- og byggingariðnaður Norðurlanda verði í fremstu röð hvað varðar sjálfbærni og samkeppnishæfni og hafi minni áhrif á umhverfi og loftslag.

„Markmiðið er háleitt en Norðurlönd hafa nú þegar stigið stór skref í þessa átt. Fyrirtækin okkar standa framarlega í grænum umskiptum og eru mjög meðvituð um að þau verði að fjárfesta í sjálfbærum lausnum til að verða einnig samkeppnisfær í framtíðinni. Þær aðgerðir sem við höfum nú komist að samkomulagi um fyrir Norðurlönd munu styðja fyrirtækin í vinnu þeirra í átt að sjálfbærni,“ segir húsnæðisráðherra Danmörku, Kaare Dybvad Bek, formaður norrænu húsnæðis- og byggingarmálaráðherranna árið 2020.

Framkvæmdaáætluninni er ætlað að stuðla að því að Norðurlöndin uppfylli framtíðarsýn sína um að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030.

Aukin samvinna innan Evrópusambandsins

    Á fundinum voru ráðherrarnir einnig samhuga um að styrkja samvinnu á evrópskum vettvangi. Innan Evrópusambandsins er nú unnið að gerð áætlana um sjálfbæra byggð og þar fara einnig fram umræður um nýja reglugerð um byggingarvörur. Þessi vinna hefur einnig mikla þýðingu fyrir Norðurlönd.

    Norðurlönd hafa mikla hagsmuni af því að nýjar reglur Evrópusambandsins samræmist eins mikið og unnt er þeirri vinnu sem norræn fyrirtæki vinna nú þegar á sviði loftlagsmála. Möguleikarnir á að hafa áhrif á þetta starf innan Evrópusambandsins eru meiri ef Norðurlönd geta sett fram sameiginlega sýn í viðræðunum.

    Þrjú svið sett í forgang

    Ráðherrarnir vilja sérstaklega auka samstarf á þremur sviðum á vettvangi Evrópusambandsins. Í fyrsta lagi snýst það um endurskoðun reglugerðar varðandi byggingarvörur (Construction Products Regulation, CPR), í öðru lagi regluverk ESB um frjálst val byggingarfyrirtækja um aðgerðir sem minnka kolefnislosun þeirra og í þriðja lagi ákvæði um hvernig koldíoxíðlosun er mæld fyrir heildarvistferil bygginga.

    „Það er ánægjulegt að sjá þann mikla vilja sem ráðherrar okkar hafa til að koma á nánara samstarfi um húsnæðis- og byggingarmál. Meira en þriðjungur af losun Norðurlanda á koldíoxíði tilheyrir þessum geira og því eru allar aðgerðir sem stuðla að sjálfbærni meira en velkomnar. Langtímamarkmiðið að efla hinn norræna byggingarmarkað, sem ætti að endingu að leiða til sjálfbærara og ódýrara húsnæðis,“ segir framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Paula Lehtomäki.