Norðurlöndin fá stýrihóp um samhæfingu norrænnar byggingarstarfsemi

02.06.20 | Fréttir
Byggarbetsplats
Photographer
Johannes Jansson
Norrænu löndin komu nýlega á fót stýrihópi sem ætlað er að vinna að samhæfingu á sviði byggingarmála á Norðurlöndum. Markmiðið er að auka samþættingu norræna byggingamarkaðarins til gagns fyrir bæði neytendur og fyrirtæki, og einnig á þetta að draga úr losun koltvísýrings.

Stýrihópurinn, sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina, er skipaður fulltrúum allra norrænu landanna. Verkefni hópsins er að efla og samræma starf til lengri tíma að því að koma á fót sameiginlegum norrænum byggingamarkaði, til dæmis með samhæfingu byggingareglugerða norrænu ríkjanna.

Stýrihópnum er einnig ætlað að hafa frumkvæði að og efla aðgerðir sem styrkja forsendur fyrir samþættum og sjálfbærum vexti á sviði byggingarmála.

Mikil áhersla verður lögð á sjálfbærni og hringrásarhagkerfi. Meira en þriðjungur af losun norrænu landanna á koltvísýringi kemur frá húsnæði og byggingarstarfsemi. Norrænir ráðherrar húsnæðis- og byggingarmála vilja bæta úr þessu, meðal annars með því að auka samstarf milli landanna.

Styður við framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf

Á fundi sínum 10. október 2019 samþykktu ráðherrarnir yfirlýsingu þar sem þeir skuldbinda sig til að leitast við að vera í fararbroddi á heimsvísu svo Norðurlönd geti orðið það svæði sem mest sækir fram í því að þróa lausnir sem draga úr losun í byggingarstarfsemi. Tilgangurinn er einnig að auka samkeppni til þess að íbúðarhúsnæði verði ódýrara.

Bæði yfirlýsingin og nýi stýrihópurinn eru í anda framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims 2030.

Stýrihópurinn mun hittast að minnsta kosti einu sinni á ári og á að gefa skýrslu um vinnu sína bæði til norrænu atvinnumálaráðherranna og ráðherra húsnæðis- og byggingarmála.