Norðurlandaráð aflýsir þemaþinginu í Helsingfors

13.03.20 | Fréttir
Riksdagen
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org

Þinghúsið í Helsingfors.

Þemaþingi Norðurlandaráðs í Helsingfors hinn 30.–31. mars hefur verið aflýst. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs tók ákvörðun um þetta í ljósi nýjustu þróunar í kórónaveirumálinu.

„Ákvörðunin um að aflýsa þemaþinginu er tekin í beinu framhaldi af þeim aðgerðum sem stjórnvöld á Norðurlöndum hafa gripið til í baráttunni gegn kórónaveirunni. Norðurlandaráð fylgir sömu línu og ríkisstjórnirnar og því aflýsum við fundunum í Helsingfors,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs.

Á þemaþinginu var meðal annars fyrirhugað að fram færi umræða um hvernig Norðurlönd geta varið lýðræðið gegn villandi upplýsingum og falsfréttum.

Fundi forsætisnefndar og öðrum nefndafundum sem áttu að fara fram í tengslum við þemaþingið í Helsingfors hefur einnig verið aflýst. Þau mál sem til stóð að fjalla um kunna að verða afgreidd með fjarfundafyrirkomulagi eða öðrum hætti.

Á vettvangi Norðurlandaráðs eru fundahöld þrisvar á ári auk þessa þemaþings og haustþingsins. Þátttakendur á þinginu eru hinir 87 þingmenn ríkjanna fimm á Norðurlöndum auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Einnig tekur fjöldi embættismanna og gesta þátt í þinginu.

Til stóð að halda þemaþingið í ár í þinghúsinu í Helsingfors.

Tengiliður