Norðurlandaráð kallar eftir auknu samstarfi um almannavarnir

25.01.22 | Fréttir
Erkki Tuomioja, Nordiska rådets president 2022.

Erkki Tuomioja, Nordiska rådets president 2022.

Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org

Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs 2022.

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs vill að ríkisstjórnir á Norðurlöndum fylgi eftir ráðleggingum hinnar svonefndu Enestam-skýrslu, sem felur í sér ýmsar tillögur um aukna norræna samvinnu um almannavarnir.

Forsætisnefndin tók Enestam-skýrsluna til umfjöllunar á fjarfundi 25. janúar. Í ákvörðun forsætisnefndarinnar kemur fram að nefndin vill að Norðurlandaráð stuðli að því að ríkisstjórnirnar fylgi eftir meginhluta ráðlegginga skýrslunnar skjótt og unnt er.

„Heimsfaraldurinn hefur sýnt okkur að það þarf að auka norrænt samstarf um viðbúnaðarmál. Ráðleggingarnar í Enestam-skýrslunni eru í samræmi við sjónarmið forsætisnefndarinnar. Nú er tækifæri til að efla samstarf um almannavarnir og því viljum við í forsætisnefndinni þrýsta á ríkisstjórnirnar að fylgja eftir ráðleggingum skýrslunnar,“ segir Erkki Tuomioja, sem er forseti Norðurlandaráðs árið 2022.

Tólf tillögur í Enestam-skýrslunni

Enestam-skýrslan inniheldur tólf ráðleggingar. Meðal annars er lagt til að norrænu samstarfsráðherrarnir beri ábyrgð á norrænu samstarfi um almannavarnir, að norræn almannavarnasveit verði stofnuð, að tilraunaverkefni verði hafið um sameiginlegt útboð á bóluefni og að möguleikinn á sameiginlegum viðbúnaðarbirgðum verði kannaður.

Forsætisnefndin er tilbúin til að fylgja eftir ellefu af tólf tillögum Enestam en vill í framhaldinu flokka þær eftir mikilvægi. Ráðleggingin um að lítill hópur landa geti fylgt tilteknum tillögum skýrslunnar eftir nýtur ekki stuðnings í forsætisnefnd þar sem þessi möguleiki er nú þegar til staðar.

Tillaga forsætisnefndar verður nú lögð fyrir Norðurlandaráð sem mun taka hana fyrir á þingfundi á þemaþinginu í mars.

Í samræmi við áætlun um samfélagsöryggi

Það er Jan-Erik Enestam, fyrrverandi ráðherra í Finnlandi, sem útbjó skýrsluna að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar. Hann kynnti ráðleggingar sínar á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 2021 og á fundi forsætisnefndar í desember.

Skýrsla Enestam er að miklu leyti í samræmi við stefnu Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi frá árinu 2019. Stefnan felur í sér ýmsar tillögur um viðbúnaðarmál og hún hefur verið grundvöllur þess þrýstings sem Norðurlandaráð hefur beitt ríkisstjórnir landanna undanfarin ár um að efla almannavarnir.

Gerð nýrrar fjárhagsáætlunar

Á fundi sínum tók forsætisnefndin fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2023 einnig til umfjöllunar. Anne Beathe Kristiansen Tvinnereim, samstarfsráðherra Noregs, formaður norrænu samstarfsráðherranna árið 2022, var gestur fundarins og ræddi meðal annars um tillögu Norðurlandaráðs um nýtt fjárhagsáætlunarferli og forgangsröðun í fjárhagsáætlun.

Gerð hinnar nýju fjárhagsáætlunar heldur áfram á fundi samstarfsráðherranna þann 8. febrúar, þar sem Erkki Tuomioja verður einnig gestur.

Þetta var fyrsti fundur forsætisnefndar árið 2022 undir formennsku Finnlands með forsetanum Tuomioja og varaforsetanum Lulu Ranne. Fimm flokkahópar Norðurlandaráð og fjórar nefndir hittust einnig á fjarfundum 24. og 25. janúar.

Næsta þing Norðurlandaráðs verður 21. til 22. mars. Þá verður haldið þemaþing sem að þessu sinni verður haldið í Malmö ef faraldurinn leyfir.

Tengiliður