António Guterres: Farsóttin kann að auka á loftslagsvandann

27.10.20 | Fréttir
Antonio Guterres og de nordisk statsministre
Ljósmyndari
André Jamholt
Farsóttin sem geisar getur haft áhrif á loftslagsvandann og sjálfbæra þróun, sagði António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, þegar hann átti fund með norrænum forsætisráðherrum og þingmönnum í þingviku Norðurlandaráðs.

„Heimsbyggðin stendur andspænis farsótt sem hefur afhjúpað margháttaða bresti í samfélögum okkar. Jafnframt því vex loftslagsvandinn æ hraðar. Bæði þessi vandamál sýna þörfina á nýju og skilvirkara fjölþjóða samstarfi. Við þörfnumst forystu á alþjóðavísu í málum sem snerta okkur öll,“ sagði António Guterres.

Hann benti á að farsóttin ylli ekki einungis heilbrigðiskreppu. Hún hefði einnig áhrif á öðrum sviðum. Öndvert við þá mynd sem fjölmiðlar hafa brugðið upp um að COVID-19 sé gott fyrir loftslagið sagði António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, að vegna farsóttarinnar hafi orðið að skjóta á frest margvíslegum mikilvægum ráðstöfunum í þágu betra loftslags. Hann minnti á að alþjóðasamfélagið væri farið illa út af sporinu hvað varðar markmiðið að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráður fyrir árið 2050.

„Farsóttin hefur ekki auðveldað þetta en miklu getur ráðið hvernig við stöndum að enduruppbyggingu efnahagslífsins,“ sagði António Guterres.

„Við reiðum okkur á Norðurlönd. Þið hafið um langa hríð verið öflugir talsmenn metnaðarfullra aðgerða í loftslagsmálum. Heimurinn þarf meira á forystu ykkar að halda nú en nokkru sinni fyrr.“

António Guteress, aðalritari Sameinuðu þjóðanna

Ný tækifæri í skugga kreppu

Á hinn bóginn má þakka það farsóttinni að António Guterres gat tekið þátt í þingviku Norðurlandaráðs því að hún fer fram með fjarfundabúnaði. Ef hann hefði orðið að fljúga alla leið til Íslands, þar sem til stóð að halda þingið, er ekki eins líklegt að hann hefði getað gefið sér tíma. Auðveldara er að koma klukkustundar Zoom-fundi fyrir í dagskránni. António Guterres notaði líka tímann vel. Orð hans urðu ekki misskilin.

„Það er lykilatriði að við byggjum upp efnahagslífið að lokinni farsótt með árangursríkum aðgerðum í loftslagsmálum sem skapa mörgum milljónum manna eftirsótt störf, greiðir fyrir hreinni og skilvirkri tækni og leiðir til betra heilsufars um allan heim,“ sagði Guterres.

Sameinuðu þjóðirnar vekja athygli á ýmsum aðgerðum á sviði loftslagsmála sem ríki og aðrir haghafar geta tekið upp á arma sína til að stuðla að sjálfbærri efnahagslegri endurreisn eftir COVID-19.

  • Fjárfestingar í sjálfbærri atvinnu og fyrirtækjum.
  • Engir efnahagspakkar til styrktar mengandi iðnaði eða niðurgreiðslur á orkugjöfum úr jarðefnaeldsneyti.
  • Meta loftslagsáhættu við allar efnahagslegar og pólitískar ákvarðanir.
  • Vinna saman að sameiginlegum málum.

António Guterres lagði áherslu á að lönd skuldbyndu sig til að leggja meira af mörkum, hvert og eitt, til að ná markmiðum Parísarsamningsins. Samkvæmt aðalritara Sameinuðu þjóðanna gegna Norðurlönd mikilvægu hlutverki.

„Við reiðum okkur á Norðurlönd. Þið hafið um langa hríð verið öflugir talsmenn metnaðarfullra aðgerða í loftslagsmálum. Heimurinn þarf meira á forystu ykkar að halda nú en nokkru sinni fyrr,“ sagði Guterres.

Norðurlönd verða ávallt Sameinuðu þjóðunum traustur stuðningur og vinur, bæði að því er varðar pólitíska og efnahagslega þætti. Við erum reiðubúin að tryggja okkur betri framtíð.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur

Norðurlönd eru besti vinur Sameinuðu þjóðanna

António Guterres fékk þau svör hjá norrænu forsætisráðherrunum sem hann hafði vonast til. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði í erindi sínu að Norðurlönd myndu telja farsóttina áminningu um að byggja betri, grænni og réttlátari heim.

„Norðurlönd verða ávallt Sameinuðu þjóðunum traustur stuðningur og vinur, bæði að því er varðar pólitíska og efnahagslega þætti. Við erum reiðubúin að tryggja okkur betri framtíð.“

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, sagði að Finnar væru nú þegar farnir að huga að tímanum eftir að farsóttinni linnir. 

„Finnland leggur áherslu á að enduruppbygging efnahagslífsins og samfélagsins verði græn og sjálfbær og öllum til góðs. Ef til vill kemur í ljós að græn enduruppbygging veiti okkur einstakt tækifæri til að takast á við grundvallarorsakir faraldursins og að það hraði um leið þróuninni í átt til kolefnishlutleysis,“ sagði Sanna Marin.

Þingmennirnir fylktu sér sömuleiðis á bak við António Guterres og spurðu hvernig Norðurlönd gætu beitt sér frekar að þessu leyti á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Danski þingmaðurinn Annette Lind úr flokkahópi jafnaðarmanna benti á að Danmörk hefði þegar tryggt öllum íbúum sínum COVID-19-bóluefni þegar það verður tilbúið.

„Hvað getum við gert til að stuðla að því að bóluefni verði aðgengilegt fyrir þá sem búa í efnaminni löndum heims?“ spurði Annette Lind.

António Guterres hugsaði sig ekki tvisvar um og nefndi samstarfsvettvang ýmissa aðila, þar á meðal níu framleiðenda bóluefnis. Helsti vandinn væri fjármögnunin. Upphafsfjárveitingin hefði numið fjórum milljörðum Bandaríkjadala. Talið væri að samstarfið þarfnaðist 14 milljarða dala í viðbótarframlög.

„Við þurfum að leita þessara styrkja hjá aðildarríkjum okkar og alþjóðlegum fjármálastofnunum. Alþjóðabankinn hefur veitt 12 milljarða dala lán til að þróunarlönd geti keypt bóluefni en þetta er þó aðeins lán. Framlag ykkar gæti verið að tryggja fjármögnun verkefnisins svo að þróunarlönd geti fengið bóluefnið,“ sagði Guterres. 

António Guterres sagði að lokum að Norðurlönd væru fyrirmynd annarra landa hvað varðar fjölþjóða samstarf, vinnu í þágu loftslagsins og síðast en ekki síst mótvægisaðgerðir gegn COVID-19.