Neyðarviðbúnaður, heimsfaraldurinn og unga fólkið í brennidepli á haustþingi Norðurlandaráðs

03.09.21 | Fréttir
 Young woman looking out of window
Photographer
Martin Zachrisson / Norden.org
Á mánudag og þriðjudag hefur Norðurlandaráð pólitískt hauststarf sitt með sínum árlegu septemberfundum. Dagana tvo funda forsætisnefnd, fagnefndir og flokkahópar ráðsins. Allir fundirnir verða haldnir gegnum fjarfundabúnað vegna heimsfaraldursins.

Allt Norðurlandaráð mun koma saman á sameiginlegum fundi og eiga pallborðsumræður í tengslum við septemberfundina 6. og 7. september undir yfirskriftinni „Andleg vanlíðan ungs fólks á Norðurlöndum - afleiðingar farsóttarinnar“. Á meðal þátttakenda verða Lena Hallengren, félagsmálaráðherra Svíþjóðar, ásamt Bente Stein Mathisen, formanni Norrænu velferðarnefndarinnar, og Ninu Sandberg, varaformanni nefndarinnar.

Viðburðinum verður streymt á netinu (tengill hér að neðan).

Auk þess verða hin ýmsu viðfangsefni til umfjöllunar á septemberfundunum. Forsætisnefndin mun til dæmis fjalla um ýmsar spurningar í tengslum við neyðarviðbúnað, meðal annars tillögu um norrænar neyðarbirgðageymslur, öryggi á Norðurlöndum gegn netárásum og að koma á fót samráði forsætisráðherranna og viðbúnaðarnefnd.

Bein útsending

Hér má horfa á útsendinguna frá kl. 14 að íslenskum tíma 6. september:

Nefndirnar koma saman annan fundardaginn

Norræna sjálfbærninefndin mun meðal annars ræða um Svansmerkingu á umbúðum og tillögu um norrænt loftlagsbandalag, hagvaxtarnefndin mun fjalla um málefni á borð við sjálfbærara námuvinnslu og lífeldsneyti fyrir flugför, norræna velferðarnefndin fjallar meðal annars um mótefnaframleiðslu á Norðurlöndum og lista- og menningarnefndin tekur til umfjöllunar tillögu um aukna kennslu nágrannatungumála í skólum.

Flokkahóparnir munu funda á fyrsta degi septemberfundanna og þann dag verður sameiginlegi fundurinn einnig haldinn. Annan daginn funda forsætisnefnd og nefndirnar.

Septemberfundirnir áttu upphaflega að fara fram í sænska þinghúsinu í Stokkhólmi en vegna heimsfaraldrinum fara þeir nú fram með fjarfundabúnaði annað árið í röð.