Norðurlandaráð á ráðstefnu Eystrasaltsríkja: öryggismál og samstarf í austri skipta miklu máli
Megináherslan á ráðstefnunni er á að efla lönd í Samstarfsvettvangi ESB og nágrannaríkja þess í austri með hliðsjón af nýrri landfræðipólitískri stöðu í Evrópu. Eystrasaltsþingið bendir á að Eystrasaltsríkin hafi þegar gengið í gegnum margar af þeim áskorunum sem nokkur landa samstarfsvettvangsins standa nú frammi fyrir, og að mikilvægt sé að styðja við þróun og öryggi í löndunum.
Öryggismál ofarlega á baugi
Erkki Tuomioja, fyrrverandi forseti Norðurlandaráðs, segir mikilvægt að beina sjónum að öryggismálum innan samstarfsins og jafnframt gera sér grein fyrir því að öryggi felst í mörgu öðru en hergögnum.
„Norðurlandaráð leggur mikla áherslu á stuðning við Úkraínu, einnig til lengri tíma litið. Við teljum líka mikilvægt að halda ásamt Eystrasaltsþinginu áfram sambandi við lýðræðislega sinnuð stjórnarandstöðuöfl í bæði Belarús og Rússlandi.“
Tuomioja nefnir jafnframt netöryggismál sem málefni sem er ofarlega á baugi hjá Norðurlandaráði. Í formennskutíð sinni árið 2022 kölluðu Finnar eftir sameiginlegri stefnu norrænu landanna í netöryggismálum.
Eystrasaltsþingið mikilvægur samstarfsaðili Norðurlandaráðs
Að sögn Bryndísar Haraldsdóttur, formanns íslensku landsdeildarinnar í Norðurlandaráði, var innrás Rússlands í Úkraínu viðvörunarbjalla fyrir Norðurlandaráð.
„Ég vil biðjast afsökunar á því að við á Norðurlöndum höfum ekki lagt betur við hlustir þegar Eystrasaltsríkin vöruðu við þeirri ógn sem stafaði af Rússlandi undir stjórn Putins.“
Hún segir Norðurlönd nú gera sér grein fyrir mikilvægi Eystrasaltsþingsins og Eystrasaltsríkjanna fyrir Samstarfsvettvang ESB og nágrannaríkja þess í austri. Samkvæmt nýrri stefnu Norðurlandaráðs í alþjóðamálum sem samþykkt var í Reykjavík í mars á þessu ári á Norðurlandaráð að stuðla að því að lýðræði, grundvallarreglur réttarríkisins, jafnrétti og mannréttindi séu í hávegum höfð á alþjóðlegum vettvangi.
„Þau lönd sem styðja þessi gildi geta reiknað með stuðningi okkar,“ segir Bryndís Haraldsdóttir.
Að sögn hennar leggja norrænu löndin einnig mikla áherslu á stöðuna í Moldóvu. Landið hefur ítrekað mátt sæta lofthelgisbrotum og netárásum af hálfu Rússa og Bryndís fagnar því að ríkisstjórnir Norður- og Eystrasaltslandanna vilji í sameiningu stuðla að því að efla öryggi, stöðugleika og lýðræði í Moldóvu og greiða fyrir samþættingu landsins við Evrópu.
Ég vil biðjast afsökunar á því að við á Norðurlöndum höfum ekki lagt betur við hlustir þegar Eystrasaltsríkin vöruðu við þeirri ógn sem stafaði af Rússlandi undir stjórn Putins.
Eystrasaltsþingið er vettvangur milliríkjasamstarfs Eystrasaltsríkjanna Eistlands, Lettlands og Litháens. Það var stofnað árið 1991.
Samstarfsvettvangur ESB og nágrannaríkja þess í austri er vettvangur samstarfs aðildarríkja ESB og sex samstarfslanda þess í Austur-Evrópu; Armeníu, Aserbaídsjan, Belarús*, Georgíu, Moldóvu og Úkraínu. Aðalmarkmiðið með samstarfsvettvangnum er að auka stöðugleika, velmegun og viðnámsþrótt nágrannaríkja ESB.
*Frá 2020 hefur ESB átt í ópólitísku samstarfi við Belarús innan Samstarfsvettvangs ESB og nágrannaríkja þess í austri og jafnframt hefur samstarf við mikilvæga aðila innan Belarús sem ekki tengjast ríkinu verið aukið.