Norðurlandaráð reiknar með þingi í október

26.06.20 | Fréttir
Harpa
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org

Þing Norðurlandaráðs fer fram í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu í Reykjavík í október.

Þýðingarmesti stjórnmálaviðburður Norðurlandaráðs ár hvert, haustþingið, mun fara fram í Reykjavík í október. Ákvörðunin kemur frá forsætisnefnd ráðsins að undangengnu löngu óvissutímabili vegna COVID-19. Fundur forsætisnefndar í dag fór rafrænt fram, líkt og allir aðrir fundir Norðurlandaráðs undanfarna þrjá mánuði.

Þingið er tvímælalaust þýðingarmesti árlegi viðburður Norðurlandaráðs. Þar koma saman þingmenn frá Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi og Íslandi, auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands, til skrafs og ráðagerða um helstu málefni og stefnumál Norðurlanda. Þá viku sem þingið fer fram, sem stundum er nefnd leiðtogafundavika, er einnig hefð fyrir fundahöldum hjá norrænu forsætisráðherrunum, utanríkisráðherrunum og öðrum ráðherrum af svæðinu.

„Í vor hafa þingmenn ráðsins fundað oftar en vanalega, en eingöngu rafrænt,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs. „Þó að tæknin hafi oftast virkað sem skyldi hefur þessi reynsla staðfest hve óumræðilega mikilvægt er að við hittumst reglulega í raunheimum, augliti til auglitis,“ segir hún. „Því gleður það okkur mjög að eins og staðan er í dag getum við haldið áfram að skipuleggja þingið í Reykjavík.“

Viðbragðsáætlun fyrir hendi ef breyta þarf áformum

COVID-19 varpar þó enn skugga sínum á áformin um þingið. Þó að skipulag fyrir þingið og afhendingu verðlauna Norðurlandaráðs fari nú í fullan gang segir forsætisnefndin að framkvæmd þess sé gjörsamlega háð því hvernig ástandið vegna COVID-19 verði á Norðurlöndum með haustinu. Allt skipulag fer fram með hliðsjón af hömlum og reglum sem gilda munu vegna COVID-19 í október.

„Við höfum möguleika á að takmarka fjölda þátttakenda á öllum viðburðum sem vanalega fara fram á þinginu, allt eftir þróun mála,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir. „Fari svo að önnur bylgja COVID-19 skelli á Norðurlöndum eða hluta svæðisins í haust er hugsanlegt að aflýsa verði öllu þinginu,“ segir hún. „Eins og er búum við okkur undir hefðbundna þingviku en tökum að sjálfsögðu enga óþarfa áhættu,“ undirstrikar forsetinn.

Vanalega sækja allt að 800 manns hina norrænu leiðtogafundaviku og forsætisnefnd Norðurlandaráðs fylgist vel með því hvaða hömlur koma til með að gilda í haust. Ríkisstjórn Íslands uppfærir hömlur sínar reglulega með hliðsjón af þróun mála. Nú er útlit fyrir að fundir og ráðstefnur megi fara fram með 500 þátttakendum í haust. Íslensk yfirvöld gera einnig kröfu um að allir sem koma til landsins fari í tveggja vikna sóttkví eða gangist að öðrum kosti undir COVID-19-próf á flugvellinum.

Á þinginu í ár ræða þingmenn Norðurlandaráðs meðal annars nýjar þingmannatillögur, funda með forsætisráðherrum landanna og öðrum helstu ráðherrum og standa fyrir þemaumræðum.

Einnig verða verðlaun Norðurlandaráðs veitt í tengslum við þingið. Þingið fer fram í samstarfi Norðurlandaráðs og Alþingis Íslendinga síðustu vikuna í október.