Norðurlönd munu standa saman í erfiðleikum

27.06.22 | Fréttir
Nordiska samarbetsministrarna i Halden 2022.
Photographer
Norges Utenriksdepartement
Norrænu löndin ásamt Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum munu efla samstarf sitt á erfiðleikatímum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu norrænu samstarfsráðherranna sem samþykkt var á fundi í Halden í Noregi 27-28 júní.

Í yfirlýsingunni segir meðal annars að samstarfsráðherrarnir beri mikilvæga ábyrgð á því að vekja athygli á norræna sjónarhorninu, jafnt á milli landanna sem innan ríkisstjórna sinna, og gera grein fyrir áskorunum og tækifærum, ekki síst á erfiðleikatímum.

Samkvæmt yfirlýsingunni munu samstarfsráðherrarnir hittast þegar vá steðjar að til að sjá til þess að tekið verði tillit til norræna sjónarhornsins áður en ákvarðanir verða teknar innan landanna.

Samstarfsráðherrarnir munu einnig stuðla að skjótum og góðum samskiptum og upplýsingamiðlun til þess að hægt verði að takmarka sem mest neikvæð áhrif af ákvörðunum sem teknar eru til að bregðast við erfiðleikunum.

„Mikilvægt að standa saman“

„Faraldurinn sýndi mikilvægi þess að lönd okkar standi saman á erfiðleikatímum. Norrænt samstarf virkaði vel á mörgum sviðum en faraldurinn færði okkur líka mörg ný úrlausnarefni. Nú ríður á að við drögum lærdóm af þeirri reynslu, jafnt góðri sem slæmri. Norðurlandabúar hafa sýnt það skýrt að þeir vilja sjá öflugra norrænt samstarf, meðal annars á sviði viðbúnaðar á erfiðleikatímum, og það eru skilaboð sem við tökum alvarlega,“ segir samstarfsráðherra Norðurlanda í Noregi, Anne Beathe Tvinnereim, sem er formaður norrænu samstarfsráðherranna á árinu 2022.

Kórónuveirufaraldurinn sýndi að þrátt fyrir náið samstarf sín á milli geta norrænu löndin ekki gengið að opnum samfélögum sínum og landamærum vísum.

Í öllum norrænu löndunum var gripið til víðtækra aðgerða til að vernda líf og heilsu almennings. Löndin nálguðust faraldurinn með ólíkum hætti og takmarkanir á frjálsri för á milli landanna höfðu áhrif á líf margra, einkum á landamærasvæðunum.

Í yfirlýsingunni undirstrika samstarfsráðherrarnir sérstaka ábyrgð á ástandinu á landamærasvæðum þar sem fólk lifir lífi sínu þvert á landamæri.

Í yfirlýsingunni er vísað til þess að í ljósi faraldursins vinni norrænu löndin nú að því á mismunandi sviðum að efla samstarf sitt um viðbúnað og viðbrögð á erfiðleikatímum. Innlend stjórnvöld á hverju sviði bera meginábyrgð á þessu en samstarfsráðherrarnir bera ábyrgð á því að leiða og samræma norrænt samstarf og fylgjast náið með vinnunni.

Yfirlýsing í þágu framtíðarsýnarinnar

Með yfirlýsingunni vilja ráðherrarnir stuðla að uppfyllingu markmiða hinnar norrænu framtíðarsýnar um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030. Yfirlýsingin tekur í sama streng og yfirlýsing samstarfsráðherranna í nóvember 2021 þar sem skilaboðin voru einnig að efla skyldi samstarf á sviði viðbúnaðar á erfiðleikatímum.

Samstarfsráðherrarnir munu hittast í Halden rétt við landamæri Noregs og Svíþjóðar dagana 27. og 28. júní. Ráðherrarnir funda meðal annars með Stjórnsýsluhindranaráðinu sem vinnur að frjálsri för á Norðurlöndum.

Stjórnsýsluhindranaráðið er pólitískt skipuð en óháð nefnd sem stofnuð var árið 2014 að frumkvæði norrænu forsætisráðherranna.