YFIRLÝSING FRÁ NORRÆNU SAMSTARFSRÁÐHERRUNUM

27.06.22 | Yfirlýsing
YFIRLÝSING FRÁ NORRÆNU SAMSTARFSRÁÐHERRUNUM, 27. júní 2022

Upplýsingar

Tveggja ára heimsfaraldur sýndi hversu mikilvægt alþjóðlegt og svæðisbundið samstarf er þegar alvarleg heilbrigðisvá steðjar að. Innrás Rússlands í Úkraínu minnir okkur á að stríð í nágrenni okkar er ekki aðeins fræðilegur möguleiki. Þegar erfiðleikar af ólíku tagi koma upp sjáum við mikilvægi þess að vinna með okkar nánustu samstarfsaðilum til að bregðast við úrlausnarefnum, innan og ásamt ESB og NATO, og eins í okkar nánu norrænu fjölskyldu.

Á þessum erfiðleikatímum sannaði norrænt samstarf mikilvægi sitt og styrk. Um leið sáum við að í faraldrinum stóðu samfélög okkar frammi fyrir ýmsum nýjum úrlausnarefnum. Mörg þeirra snertu einnig norrænt samstarf, ekki síst vegna takmarkana á frjálsri för sem er einn hornsteina þessa samstarfs. Við erum á einu máli um að við verðum að draga lærdóm af þessari reynslu, jafnt góðri sem slæmri. Það á að vera einfalt að lifa, vinna og stunda nám og atvinnurekstur þvert á landamæri Norðurlanda.

Í yfirlýsingu sinni í nóvember 2021 lögðu norrænu forsætisráðherrarnir á það áherslu að styrkja þurfi samstarf okkar um viðbúnað og viðbrögð á erfiðleikatímum enn frekar. Ábyrgðin liggur hjá viðkomandi fagstjórnvöldum landanna og nú stendur yfir vinna við frekari þróun innan mismunandi sviða Norrænu ráðherranefndarinnar, ekki síst heilbrigðissviðsins, sem og á öðrum vettvangi samstarfsins, svo sem innan hins svonefnda Haga-samstarfs um almannavarnir og norræna varnarmálasamstarfsins NORDEFCO. Þegar erfiðleikar koma upp munu ábyrg yfirvöld innan hvers lands vinna náið með norrænum samstarfsaðilum sínum.

Við, samstarfsráðherrar Norðurlanda

  • höfum fengið það verkefni frá forsætisráðherrum okkar að leiða og samræma vinnuna við að uppfylla framtíðarsýnina um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims 2030. Það á einnig við á erfiðleikatímum. Því fylgjumst við náið með þeirri vinnu sem nú stendur yfir við að efla samstarfið um viðbúnað á erfiðleikatímum.
  • berum mikilvæga ábyrgð á að vekja athygli á norræna sjónarhorninu, á milli landanna og innan ríkisstjórna okkar, og gera grein fyrir áskorunum og tækifærum, ekki síst á erfiðleikatímum.
  • áttum í faraldrinum frumkvæði að nánara samráði um þau úrlausnarefni sem upp komu og höfum reynslu af því hve mikilvæg góð upplýsingamiðlun er áður en ákvarðanir eru teknar innanlands sem snerta frjálsa för yfir landamæri okkar eða hafa með öðrum hætti áhrif á hin norrænu löndin.
  • munum halda þessu samráði áfram og byggja ofan á reynsluna af faraldrinum. Þannig stuðlum við að því að þegar erfiðleikar koma upp að nýju getum við komið okkur saman um aðgerðir til að komast hjá eða takmarka sem mest neikvæð áhrif nauðsynlegra ákvarðana, sem teknar eru til að bregðast við erfiðleikunum, á frjálsa för. Í þessu sambandi höfum við sameiginlega hagsmuni og sérstaka ábyrgð gagnvart ástandinu á landamærasvæðum okkar.
  • erum því á einu máli um að formaður á hverjum tíma þegar erfiðleikar koma upp skuli, að eigin frumkvæði eða ósk annars norræns lands, sjá til þess að við eigum fund sem samstarfsráðherrar til að stuðla að skjótum og góðum samskiptum og til að tekið verði sem mest tillit til norræna sjónarhornins.
  • berum einnig sérstaka ábyrgð á málum er varða stjórnsýsluhindranir. Þess vegna höfum við veitt norræna Stjórnsýsluhindranaráðinu nýtt og aukið umboð til að koma í veg fyrir og stuðla að niðurfellingu hindrana í vegi frjálsrar farar. Við höfum átt frumkvæði að nánara samráði við ráðið, bæði við eðlilegar kringumstæður og þegar erfiðleikar koma upp.

Framtíðarsýn okkar um Norðurlönd sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims skuldbindur okkur til að tryggja að allar ákvarðanir okkar taki mið af norræna sjónarhorninu og að á erfiðleikatímum vinnum við eins náið saman og hægt er og stöndum vörð um hið nána norræna samfélag okkar. Sem samstarfsráðherrar Norðurlanda munum við axla þessa ábyrgð saman.

Contact information