Norðurlönd og Eystrasaltsríkin í fararbroddi á sviði stafrænnar þróunar

08.12.17 | Fréttir
Stafræn Norðurlönd og Eystrasaltsríki án landamæra eru á dagskrá ráðherra landanna þegar ný ráðherranefnd um stafræna væðingu fundar í Ósló.

„Við hyggjumst fylgja eftir þeim metnaðarfullu markmiðum sem við settum okkur á ráðherraráðstefnunni „Digital North“ í apríl s.l. Við viljum auðvelda íbúum Norðurlanda að nýta sér stafræna þjónustu yfir landamæri, meðal annars gera þeim kleift að nota kennitölu sína og rafræn skilríki við innskráningu á netinu hvar sem þeir eru staddir,“ segir Jan Tore Sanner, sveitarstjórnar- og nútímavæðingarráðherra Noregs.

Ráðherrann fundar þann 8. desember s.l. með norrænum og baltneskum (frá Eistlandi, Lettlandi og Litáen) kollegum sem fara með málefni stafrænnar væðingar. Ráðherranefndarfundurinn er skammstafaður MR-Digital. Samstarfið á að stuðla að stafrænni væðingu opinberrar þjónustu yfir landamæri, stafrænni væðingu í atvinnulífinu og eflingu innri markaðar á svæðinu.Umrædd markmið og aðgerðir munu efla stafræna væðingu á svæðinu almennt og styðja við starf ESB á þessu sviði. „Það felur í sér ákveðna viðurkenningu á markvissu og metnaðarfullu starfi Norðmanna að stafrænni væðingu að okkur hafi tekist á formennskuárinu að ná samkomulagi um sameiginlega yfirlýsingu landanna um að auðvelda íbúum á svæðinu að taka þátt í stafrænu samfélagi óháð búsetu,“ segir Jan Tore Sanner. Allt frá því að yfirlýsingin var samþykkt í Ósló í apríl s.l. hafa löndin undir forystu Noregs og í samráði við Norrænu ráðherranefndina unnið að undirbúningi framhaldsins. Tvö meginviðfangsefni eru í brennidepli en þau eru samræmd notkun rafrænna auðkenna á Norðurlöndum (eID) og áætlun um dreifingu fimmtu kynslóðar farsímatækni (5G) á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum.Á ráðherrafundinum í Ósló taka Svíar að sér að leiða frekari þróun 5G farsímanetsins en Norðmenn munu leiða samræmingu rafrænna auðkenna.  „Við stefnum að samræmdu rafrænu auðkennakerfi fyrir alla Norðurlandabúa. Rafræn auðkenni geta orðið stærsti áfanginn á eftir norræna vegabréfafrelsinu sem gerir Norðurlandabúum auðveldara fyrir þegar þeir flytja milli landa. Sú staðreynd að Eystrasaltslöndin eru með í för er styrkur fyrir Norðurlöndin,“ segir Dagfinn Høybråten framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Styður dagskrá Evrópulanda

Norðurlönd og Eystrasaltsríkin hafa vakið alþjóðlega athygli á árinu 2017 og hafa alþjóðafyrirtæki á við Google og Amazon hrósað yfirlýsingu ráðherranna. Er það til vitnis um metnað landanna og leiðandi stöðu þeirra á sviði stafrænnar væðingar. Þá hafa Þjóðverjar og Írar fjallað um stafræna væðingu norrænu og baltnesku landanna. Eistland er mikilvægur samstarfsaðili og hefur Noregi verið boðið formlega að taka þátt í ráðstefnu í Brussel sem Eistar halda 14. desember í lok formennsku þeirra í ESB. „Við eigum að sjá sameiginlega til þess að stafræn væðing skapi virðisauka fyrir alla Evrópu, innri markaðinn og alþjóðlegt samstarf almennt. Því skiptir máli að Eistland styður samstarf norrænu og baltnesku landanna að stafrænni væðingu,“ segir Jon Tore Sanner.Svíar taka við formennskukeflinu af Norðmönnum um áramótin. Svíar hafa sett sér metnaðarfull áform um hvert þeir vilja leiða samstarfið um stafræna væðingu.