Norðurlönd og Eystrasaltsríkin í samstarf á sviði rafrænnar þróunar

25.04.17 | Fréttir
Nordiske og baltiske ministre
Ljósmyndari
Simen Strand Jørgensen
„Við höfum valið Straumhvörf á Norðurlöndum og Norðurlönd í Evrópu sem tvær af meginlínum formennsku Noregs í Norrænu ráðherranefndinni. Þéttara svæðisbundið samstarf um rafræna þróun, bæði í opinbera geiranum og einkageira, mun stuðla að aukinni samkeppnishæfni og styðja við evrópskt samstarf á sviðinu,“ segir ráðherra norræns samstarfs í Noregi, Frank Bakke-Jensen.

Í dag komu ráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna á sviði rafrænnar þróunar saman í fyrsta sinn. Þeir samþykktu yfirlýsingu sem leggur grunn að samstarfi milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Samstarfið á að efla rafræna þróun í opinberri þjónustu þvert á landamæri, rafræna þróun í atvinnulífinu og þróun rafræns innri markaðar á svæðinu. 

„Þetta er brautryðjendastarf til gagns fyrir íbúa og fyrirtæki á Norðurlöndum, sem styður einnig við markmið ESB um rafræna samþættingu í Evrópu,“ sagði norski samstarfsráðherrann, Frank Bakke-Jensen.  

„Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin eru í fararbroddi í Evrópu á sviði rafrænnar þróunar. Nánara samstarf landanna getur stuðlað að bættri þjónustu við íbúana þvert á landamæri og fjölgað störfum. Markmiðið er að Norðurlönd og Eystrasaltsríkin verði öflugt rafrænt svæði,“ segir Jan Tore Sanner, ráðherra málefna sveitarfélaga og nútímavæðingar í Noregi, sem var fulltrúi norsku formennskunnar á fundinum ásamt Frank Bakke-Jensen, ráðherra norræns samstarfs.

Fyrsti fundur ráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna sem fara með málefni rafrænnar þróunar

Norðmenn gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2017. Þetta er í fyrsta sinn sem ráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna sem fara með málefni rafrænnar þróunar koma saman á ráðherrafundi. Til að unnt verði að fylgja yfirlýsingunni eftir biðja ráðherrarnir Norrænu ráðherranefndina að leggja sitt af mörkum til starfsins og þróa áætlun um tilhögun skipulags þess, meðal annars á grundvelli samstarfssviða sem fyrir eru.

Meðal annars vilja löndin:

  • Greiða fyrir notkun kennitala og rafrænna skilríkja svo auðveldara verði að nýta þjónustu þvert á landamæri Norðurlanda.  
  • Greiða fyrir hreyfanleika og þekkingarmiðlun á sviði upplýsingatækni.
  • Stuðla að aukinni útbreiðslu 5G-farsímanets, bæði í borgum og dreifbýli, til að greiða fyrir nýrri og nýskapandi þjónustu.
  • Markaðssetja svæðið sem nýskapandi og hentugt til prófana á nýjum rafrænum lausnum.
  • Greiða fyrir verkefnum sem geta stuðlað að því að svæðið nái alþjóðlegri forystu, bæði hvað snertir að þróa og taka upp nýja tækni.
  • Efla rödd svæðisins á vettvangi ESB- og EES-samstarfsins.

Yfirlýsingin var samþykkt á ráðherraráðstefnunni Digital North í Ósló.