Norræn umræða um fæðingarorlof á þingi SÞ

07.03.19 | Fréttir
dad on parental leave

Share the care!

Ljósmyndari
Maj Kelk
Share the Care! Aðeins þegar konur og karlar bera jafna ábyrgð á fjölskyldulífi getum við náð fram efnahagslegu jafnrétti kynjanna. Þetta verða skilaboð jafnréttismálaráðherra Norðurlanda á þingi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna, CSW63, sem hefst í þessari viku. Á fundinum mun Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, kynna samnorrænar aðgerðir til að uppfylla jafnréttismarkmið sem sett er fram í áætlun SÞ um sjálfbæra þróun til ársins 2030.

Á CSW63 í ár verður rætt um hvernig lönd geta innleitt kynjajafnrétti í félagsleg kerfi sín, en slík kerfi eru forsenda þess að tryggja megi jafnan rétt kvenna og karla.

Snjöll fjárfesting

Norðurlönd eru sönnun á því hverju áratugalöng fjárfesting í umönnunarúrræðum fyrir börn og aldraða, sem og fæðingarorlofi, getur skilað. Meðal þess sem slík fjárfesting skilar er aukin atvinnuþátttaka kvenna, tíðari fæðingarorlofstaka meðal karla en nokkurs annars staðar í heiminum og töluverð aukning í vergri landsframleiðslu.

- Fjárfesting í góðu fæðingarorlofi sem skiptist milli foreldra og barnaumönnunarúrræðum fyrir alla getur tryggt betri framtíð fyrir okkur öll, segir Katrín Jakobsdóttir en Ísland hefur síðastliðin 10 ár í röð trónað í efsta sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins um stöðu kynjajafnréttis í heiminum.

Barnaumönnunarúrræði draga úr launamuni kynjanna

Þó að Norðurlönd hafi með mótun innviða sinna náð miklum árangri í jafnréttismálum, hefur móðurhlutverkið enn þá neikvæðar efnahagslegar afleiðingar fyrir mæður á Norðurlöndum. 
Nýlegar rannsóknir sýna að öflugt umönnunarkerfi fyrir börn frá unga aldri er áhrifarík leið til að draga úr tekjuójöfnuði milli kvenna og karla. Réttur til launaðs fæðingarorlofs er einnig mikilvægur þáttur, sérstaklega ef fæðingarorlof skiptist jafnt milli foreldranna.

Kynjajafnrétti hefst heima fyrir

Rannsóknir sýna að til þess að hægt sé að útrýma launamuni milli foreldra, þarf ábyrgð á umönnun barna, ólaunuðum heimilisstörfum og fjölskyldulífi að skiptast jafnt milli foreldranna.

Þetta verður á dagskrá í umræðum jafnréttismálaráðherra Norðurlanda á þingi SÞ þann 12. mars. Umræðunum verður varpað í beinni útsendingu í vefsjónvarpi SÞ. 

Ráðherrarnir munu ræða hvaða pólitísku aðgerðir þarf svo að ná megi fullu jafnrétti kynjanna, með sérstaka áherslu á þátt karla og feðra.

Þann 13. mars munu sérfræðingar af Norðurlöndum ræða saman í pallborði um lausnir við ójöfnum eftirlaunagreiðslum til karla og kvenna.

Ríkisstjórnir Norðurlanda undirbúa einnig sameiginlega yfirlýsingu á CSW í ár sem mun lýsa yfir stuðningi og virkri þátttöku þeirra í að uppfylla jafnréttismarkmið sem sett er fram í áætlun SÞ um sjálfbæra þróun til ársins 2030. 

  • Þú getur fylgst með umræðunum í vefsjónvarpi SÞ, þrIðjudaginn 12. mars frá 15.00 til 16.15 EST, eða 20.00 til 21.15 CET: http://webtv.un.org/watch/ecosoc-en/5701464102001
     
  • Taktu þátt í umræðunni með því að nota myllumerkin #NordicSolutions og #ShareTheCare
     
  • Viltu taka viðtal við einhvern af norrænu ráðherrunum? Fyrirspurnir skulu berast til Önnu Rosenberg: annros@norden.org