Norræn ungmenni fylgjast með loftslagsviðræðum SÞ

26.11.19 | Fréttir
Klima og unge
Photographer
Melany Rochester / Unsplash
Fimm ungmenni, sem öll hafa komið að loftslagsmálum, munu gegna sérstöku hlutverki á meðan loftslagsviðræðum Sameinuðu þjóðanna (COP25) stendur. Þau munu, ásamt ráðherrum loftslagsmála, beina kastljósinu að þeim vonum og væntingum sem bundnar eru við COP25 og fylgjast náið með þátttöku og framlagi Norðurlanda í Madríd og á norrænum loftslagsaðgerðavikum í Stokkhólmi – Nordic Climate Action Weeks.

- Við ætlum að vinna með ungu fólki að því að finna lausnir við loftslagsvandanum. Þau eru með fullt af hugmyndum og við ætlum að hlusta og fá þau til að taka þátt, segir Mary Gestrin, yfirmaður samskiptasviðs Norrænu ráðherranefndarinnar / Norðurlandaráðs. Því lýkur norrænt samstarf upp dyrunum fyrir ungu fólki að loftslagsviðræðum SÞ og norrænum loftslagsaðgerðavikum í Stokkhólmi. Loftslagsaðgerðavikurnar í Stokkhólmi verða nokkurs konar sýndarbakdyr að COP25 – þar verða fulltrúar ungmenna, ráðherrar og helstu samningamenn Norðurlanda með daglegar kynningar og úttektir. Þar verða einnig viðburðir og vinnustofur um allt frá loftslagsvænum mat til fjármögnunar á loftslagsaðgerðum.

 

Kröfur og væntingar til ráðherranna

Þann 2. desember munu þau Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, Isabella Lövin, ráðherra umhverfis- og loftslagsmála í Svíþjóð og Krista Mikkonen, ráðherra umhverfis- og loftslagsmála í Finnlandi, hitta fyrir í Svíþjóð fimm ungmenni sem öll hafa komið að loftslagsmálum á einhvern hátt; Amanda Borneke frá Svíþjóð, Karolina Lång frá Finnlandi, Jóna Þórey Pétursdóttir frá Íslandi, Jonas Færgeman frá Danmörku og Alex Sigal frá Noregi. Þau munu ræða mögulegar útkomur úr loftslagsviðræðum ársins. Einnig taka þátt í umræðunum ungmenni stödd í Madríd, sem verða viðstödd í gegnum tæknibúnað. Útgangspunktur umræðnanna verða þær kröfur og væntingar sem ungt fólk hefur til stjórnmálafólks og til COP25.

 

Við ætlum að vinna með ungu fólki að því að finna lausnir á loftslagsvandanum. Þau eru með fullt af hugmyndum og við ætlum að hlusta og fá þau til að taka þátt. 

 

Mary Gestrin, yfirmaður samskiptasviðs Norrænu ráðherranefndarinnar / Norðurlandaráðs.

Ólíkar persónur með sameiginlegt markmið

Ungmennin eru frá fimm norrænum ríkjum og hvert og eitt hefur ólíka nálgun á loftslagsumræðuna. Í hópnum er ungur stjórnmálamaður, aðgerðarsinni, kona úr viðskiptalífinu og námsmaður. Það sem þau eiga sameiginlegt er að hafa samþykkt að taka þátt í umræðum við ráðherrana og að gefa skýrslu frá COP25 sem svokallaðir „Key Listeners“.


- Hvert og eitt þeirra fær sólarhringsvakt þar sem þau fylgjast með bæði COP25 í Madríd og norrænu dagskránni í Stokkhólmi. Því næst útbúa þau skýrslu á myndbandsformi. Myndböndunum verður dreift til ungmenna um öll Norðurlönd og á COP25, útskýrir Mikael Carboni Kelk, aðalráðgjafi. Þegar fyrstu COP25-vikunni er lokið koma ungmennin aftur saman og gera úttekt á stöðunni. Úttektinni þeirra verður dreift og er ætlað að skapa umræður og áhuga annars ungs fólks, á Norðurlöndum og annars staðar í heiminum, á loftslagsmálum.

„Key Listeners“ frá Norðurlöndum eru

  • Amanda Borneke, gæða- og umhverfisstjóri hjá CS Riv & Håltagning AB, Svíþjóð
  • Jonas Færgeman, ReGeneration 2030, Danmörku
  • Jóna Þórey Pétursdóttir, Stúdentaráði Háskóla Íslands
  • Alex Sigal, Norðurlandaráði æskunnar, Noregi
  • Karolina Lång, Norðurlandaráði æskunnar, ráðgjafanefnd um samning SÞ um líffræðilegan fjölbreytileika / ritstjóranefnd
Contact information