Norrænt samstarf tekur þátt í stjórnmálahátíðum í átta löndum í sumar

14.06.22 | Fréttir
alt=""
Photographer
norden.org
Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð taka þátt í stjórnmálahátíðum og bjóða Norðurlandabúum og íbúum Eystrasaltsríkjanna til umræðna um varnarmál, orkumál, aðlögunarmál flóttamanna, byggingariðnað, stafvæðingu, matvæli og margt fleira. Áherslan verður alltaf á það hvernig við getum gert samfélög okkar enn grænni og sjálfbærari. Við hefjum leik fimmtudaginn 16. júní.

Fyrsta lýðræðishátíðin verður Folkemøde á Borgundarhólmi í Danmörku fimmtudaginn 16. júní og Fundur fólksins á Íslandi rekur svo lestina í september. Þá mun norrænt samstarf hafa tekið þátt í hátíðum í átta löndum.

„Lýðræðishátíðirnar gefa okkur stjórnmálamönnum tækifæri til að eiga samtal við borgarasamfélagið, samstarfsaðila og almenning um áskoranir og úrlausnarefni. Með því að taka þátt fæ ég góðan innblástur fyrir viðræður mínar við hina norrænu samstarfráðherrana svo við náum því markmiði að skapa sjálfbærasta og samþættasta svæði heims á Norðurlöndum,“ segir Flemming Møller Mortensen, ráðherra þróunarsamstarfs og samstarfsráðherra Norðurlanda í Danmörku.

Hann og 130 aðrir norrænir álitsgjafar munu beina kastljósinu að norrænum virðisauka og lausnum sem eiga að gera okkur kleift að ná markmiði okkar um að verða sjálfbærasta svæði heims árið 2030.

Baltneskar og norrænar lýðræðishátíðir

Eftir tveggja ára hlé vegna heimsfaraldurs kórónuveiru taka stjórnmálahátíðirnar á móti okkur í sumar með umræðum um mikilvæg mál sem snerta okkur öll.

Í ár mun norræni kyndillinn í fyrsta sinn ganga á milli lýðræðishátíða í átta löndum. Auk lýðræðishátíðanna í norrænu löndunum verður norrænu samstarfi einnig gert hátt undir höfði á lýðræðishátíðum Eystrasaltsríkjanna, Eistlands, Lettlands og Litháens.

70 ára afmæli Norðurlandaráðs

70 ára afmæli Norðurlandaráðs verður rauður þráður í fimm umræðum ráðsins á norrænu hátíðunum þar sem við ræðum þau málefni sem Norðurlandabúar telja mikilvægust samkvæmt rannsókn frá árinu 2021: Almannavarnir og viðbúnaður, umhverfismál og sjálfbærni, varnarmál, landamærasamstarf og barátta gegn glæpum þvert á landamæri.

Hér er hægt að lesa nánar um einstakar hátíðir og sjá hvaða umræðuefni verða tekin fyrir og hvenær. Við hlökkum til að hitta þig.