Ný könnun sýnir hvernig Norðurlandabúar upplifa mismunandi takmarkanir landanna vegna covid

01.06.21 | Fréttir
Covid daily life

Covid daily life

Ljósmyndari
Ricky John Molloy/Norden.org
Mismunandi takamarkanir landanna í baráttunni við covid-19 hafa enn mikil áhrif á fólk og fyrirtæki sem starfa á landamærasvæðum eða ferðast milli landanna. Stjórnsýsluhindranaráðið efnir nú til þriðju könnunarinnar þar sem skoðað er hvernig fólkið sem þessar takamarkanir bitna hvað helst á upplifir stöðuna.

Stjónsýsluhindranaráðið sem vinnur að frjálsri för og hreyfanleika á Norðurlöndum hyggst með könnuninni fá upplýsingar frá fólki sem býr, starfar, stundar nám eða rekur fyrirtæki í landamærahéraði og frá þeim sem ferðast milli tveggja norrænna landa vegna starfs, náms, fyrirtækjareksturs eða af öðrum ástæðum.

Könnuninni er aðallega beint til fólks sem ferðast á landamærasvæðum þar sem mest er um að fólk fari daglega milli landa. Þó getur fólk sem svarar könnuninni einnig tilgreint aðrar landasamsetningar, svo sem til dæmis ferðir milli Danmerkur og Noregs eða Álandseyja og Svíþjóðar.

Þetta er þriðja könnunin sem Stjórnsýsluhindranaráðið leggur fyrir síðan heimsfaraldurinn hófst. Sú fyrsta var gerð í júní 2020 og önnur könnunin fór fram í desember sama ár. Hugsunin var sú að fá sambærilegar upplýsingar um afleiðingar takmarkananna gegnum allan faraldurinn.

Markmiðið er traustara samstarf

Könnunin fer fram með sama hætti og hinar fyrri tvær, gegnum spurningalista á netinu. Stjórnsýsluhindranaráðið vinnur einnig að þessu sinni með upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar, Info Norden, Øresunddirekt, Landamæraþjónustu Noregs-Svíþjóðar og Landamæraþjónustu Norðurkollu.

Upplýsingaþjónusturnar hafa frá því í mars 2020 greint Stjórnsýsluhindranaráðinu reglulega frá röskunum af völdum kórónuveirufaraldursins og hefur ráðið miðlað upplýsingunum áfram, meðal annars til norrænu samstarfsráðherranna. Niðurstöður þriðju könnunarinnar verða einnig sendar samstarfsráðherrunum.

Markmið könnunarinnar er að beina sjónum að þeim vandamálum sem hljótast af mismunandi takmörkunum landanna þannig að niðurstöðurnar geti verið framlag til yfirstandandi umræðna um hvernig styrkja megi norrænt samstarf á krepputímum, meðal annars með tilliti til frjálsrar farar milli landanna.

Spurningalistinn verður opinn allan júnímánuð.

Stjórnsýsluhindranaráðið heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og vinnur að því að greiða götu frjálsrar farar á Norðurlöndum.