Kórónuveiran sér Stjórnsýsluhindranaráðinu áfram fyrir aukaverkefnum 2021

03.03.21 | Fréttir
Kimmo Sasi
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Fólk sem býr á norrænum landamærasvæðum og ferðast vegna vinnu verður að fá vilyrði stjórmálafólks fyrir því að löndin muni ekki loka landamærum sínum þegar kreppur steðja að í framtíðinni. Fólk verður að geta treyst því að það geti tekið starf handan landamæranna, segir Kimmo Sasi formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins.

Kórónuveirufaraldurinn hefur valdið miklu bakslagi fyrir frjálsa för á Norðurlöndum. Þetta hefur sérstaklega komið niður á íbúum landamærasvæðanna þar sem daglegt líf breyttist í einu vetfangi þegar kórónuveirufaraldurinn skall á.

„Lokanir landamæra voru algert áfall fyrir fólk í landamærahéruðum sem áratugum saman hefur ferðast frjálst milli landanna,“ segir Kimmo Sasi, fyrrum ráðherra og þingmaður í Finnlandi og formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins árið 2021.

Sasi segir að það sé nú afar mikilvægt að fólk sem á heima á landamærasvæðunum endurheimti traust sitt til landamæralausra Norðurlanda. Þess vegna skorar hann á norrænt áhrifafólk:

„Stjórnmálafólkið verður að staðfesta að norrænu löndin muni halda betur á málum í næstu kreppu. Fólk á ekki að þurfa að vera hrætt við að taka starf í öðru norrænu landi eða flytja til annars lands og búa þá ekki í sama landi og fjölskyldan. Stjórnmálafólkið hlýtur að geta tryggt þetta. Og í þessum efnum getur Stjórnsýsluhindranaráðið beitt nokkrum þrýstingi."

Aukavinna hlaust af faraldrinum

Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á starfsemi Stjórnsýsluhindranaráðsins. Þegar takmarkanirnar voru innleiddar aðlagaði ráðið starf sitt þegar í stað að breyttum aðstæðum. Strax í mars 2020 fór ráðið með aðstoð uppýsingaþjónusta landamærasvæðanna og Info Norden (upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar) að taka saman verkefni sem sneru að vandamálum sem hlutust af takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins.

Allt frá því að faraldurinn hófst hafa raskanir verið tilkynntar til Stjórnsýsluhindranaráðsins sem síðan hefur haft samband við þær stofnanir sem hafa á valdi sínu að leysa vandann.

„Verkefni okkar er að upplýsa þá ráðherra og stjórnvöld sem ábyrgð bera um þau vandamál sem tilkynnt eru til okkar og það er verkefni stjórnvalda landanna að grípa til aðgerða til að leysa þau. Þegar vandamál hafa komið upp milli Norðurlandanna hefur oft verið farið með þau upp á æðsta stjórnsýslustig. Yfirleitt er pólitískur vilji til þess að leysa úr stjórnsýsluhindrunum. Það sýnir að samstarfið er gott og gagnlegt,“ segir Kimmo Sasi.

Fleiri vandamál leyst

Tekist hefur að leysa úr röskunum af völdum kórónuveirufaraldursins þrátt fyrir að margar séu enn óleystar. Meðal annars fannst fljótt lausn á því í hvoru landinu vinnuferðalangar á Norðurlöndum ættu að njóta almannatrygginga ef þeir vinna heima og þar með leystist einnig vandinn varðandi það hvaða atvinnuleysistryggingum vinnuferðalangur á að tilheyra þegar hann vinnur heima.

Annar brýnn vandi sem Stjórnsýsluhindranaráðið hefur unnið með og leystist nýverið er að Svíar og Finnar sem ferðast daglega til Noregs vegna vinnu geta nú snúið aftur til starfa sinna.

Frá vorinu 2020 hafa verið greindar nálægt 70 raskanir tengdar kórónuveirufaraldrinum, þar af eru 33 óleystar (staðan 3. mars 2021). Í annarri bylgju faraldursins hafa verið settar strangari ferðatakmarkanir með alvarlegum afleiðingum fyrir frjálsa för og þannig hafa komið upp nýjar raskanir.

Kimmo Sasi segir að Stórnsýsluhindranaráðið einbeiti sér áfram að áhrifum kórnónuveirufaraldursins á þessu ári.

„Við stjórnum ekki pólitískum ferlum í norrænu löndunum en við getum þrýst á ríkisstjórnirnar þannig að þær leysi vandamálin og við getum reynt að efna til umræðna milli norrænu landanna. Mér finnst það ganga býsna vel í þessu tilviki. Ég er líka ánægður með að stjórnsýsluhindranir skuli vera ofarlega á dagskrá á þingi Norðurlandaráðs á hverju hausti."

Ekki bara kórónuveira árið 2021

Auk raskana sem tengjast kórónuveirufaraldrinum mun Stjórnsýsluhindranaráðið vinna að almennum stjórnsýsluhindrunum á árinu 2021.

Á þessu ári hefur ráðið forgangsraðað 40 stjórnsýsluhindrunum og sex málaflokkum. Málaflokkarnir sem hafa verið settir í forgang eru viðurkenning á starfsréttindum, ýmsar byggingarreglugerðir, stafrænt samstarf (stafræn verkfæri þvert á Norðurlöndin), minni dreifitálmun sjónvarpsefnis, tölfræði landamærasvæða og samstarf um samgöngumál milli landanna. Ráðið samþykkti forgangsröðun sína á fyrsta fundi ársins 2. og 3. mars.

 

Stjórnsýsluhindranaráðið er pólitískt skipuð nefnd sem norræn stjórnvöld hafa falið að greiða fyrir fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda. Markmið ráðsins er að ryðja úr vegi 8-12 stjórnsýsluhindrunum á ári. Tíu fulltrúar sitja í ráðinu.