Ný markmið í norrænu samstarfi

24.06.20 | Fréttir
De nordiska samarbetsministrarna sammanträdde per videolänk
Ljósmyndari
Morten Skovgaard Hansen
Hvaða málaflokka ætti að leggja áherslu á og hvernig getur Norræna ráðherranefndin uppfyllt þau metnaðarfullu markmið sem sett eru fram í framtíðarsýn fyrir árið 2030, sem forsætisráðherrarnir samþykktu fyrir samstarfið á síðasta ári? Hvaða áhrif hefur COVID19 haft á markmið samstarfsins? Þessar spurningar eru meðal þess sem norrænu samstarfsráðherrarnir ræddu á fjarfundi sínum þann 23. júní.

Á undanförnum mánuðum hefur skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar safnað saman hugmyndum og tillögum að verkefnum og áætlunum sem nú hafa verið dregnar saman í tillögu að aðgerðaáætlun fyrir norrænt samstarf á komandi árum. Aðgerðaáætlunin var einnig til umræðu á fundinum. Drög að fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2021, sem einnig var fjallað um á fundinum, endurspegla að fullu áhersluatriði framtíðarsýnarinnar og tillögu að aðgerðaáætlun.

-Við fögnum því að tekist hafi að vinna þessa áætlun þrátt fyrir þá gríðarlega krefjandi tíma sem COVID19 hefur haft í för með sér, segir Mogens Jensen, samstarfsráðherra Danmerkur sem einnig stýrði fundinum. Heimsfaraldurinn hefur haft áhrif á allt samfélagið en ráðherrarnir voru sammála um að markmið framtíðarsýnarinnar - að Norðurlönd eigi að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi - stæði þrátt fyrir kreppuna. 

Við verðum áfram í samtali við Norðurlandaráð um hvernig framtíðarsýninni er framfylgt, segir hann.

Samstarfið verður enn sterkara eftir heimsfaraldurinn

Samstarfsráðherrarnir fengu líka skýrslu um þau vandamál sem Norðurlandbúar, sérstaklega á landamærasvæðum, hafa glímt við á meðan heimsfaraldurinn hefur staðið yfir. Ýmsar nýjar hindranir fyrir frjálsa för hafa orðið til. 

-Frá því að heimsfaraldur skall á hafa ýmsir tjáð sig um norrænt samstarf á neikvæðan hátt en raunin er sú að við höfum við haldið fjölda funda og okkur hefur tekist að leysa úr mörgum þeim nýju stjórnsýsluhindrunum sem hafa komið upp.

Sú reynsla sem við sönkum að okkur núna mun styrkja samstarfið til lengri tíma litið. Næst þegar við lendum í kreppu verðum við betur undir það búin en við vorum nú, segir Mogens Jensen.

Ráðherrarnir einsettu sér að koma saman á ráðstefnu fyrir árslok til að skiptast á upplýsingum og reynslu er varðar norrænt samstarf á krepputímum.

Mogens Jensen talað einnig um hindranir fyrir frjálsa för:

-Allir ráðherrarnir eru einhuga um það sameiginlega markmið að koma eins fljótt og unnt er aftur á frjálsri för á Norðurlöndum. Í augnablikinu verðum við þó að sætta okkur við þá staðreynd að smithættan, sem enn er til staðar, hefur áhrif á hreyfanleika okkar.

Norrænu samstarfsráðherrarnir hittast aftur í byrjun september og þá er búist við að aðgerðaáætlunin, sem rædd var á þessum fundi, verði staðfest.