Ný staða í öryggismálum á dagskrá þegar Norðurlandaráð fundar

20.01.23 | Fréttir
Riksdagen
Photographer
Foto: Melker Dahlstrand/Sveriges riksdag.
Þarf Norðurlandaráð að breytast til að geta brugðist við nýrri stöðu í öryggismálum? Eiga Norðurlönd að hafa sameiginlega stefnu í utanríkis- og varnarmálum? Hvernig tryggjum við að til sé matur fyrir öll á krísutímum? Þetta er á meðal þess sem Norðurlandaráð mun fjalla um í Stokkhólmi í næstu viku.

Dagana 23. og 24. janúar kemur Norðurlandaráð í heild sinni, þar með allir fimm flokkahóparnir, fagnefndirnar fjórar og forsætisnefnd, saman í þinghúsinu í Stokkhólmi. Á fundum sínum munu nefndirnar fjalla um þingmannatillögur, það er að segja tillögur sem þingmenn Norðurlandaráðs hafa lagt fram um víðtækara samstarf á ýmsum sviðum.

Innrás Rússa í Úkraínu og breytt staða þar sem öll norrænu löndin verða brátt aðilar að Atlantshafsbandalaginu setur mark sitt á margar af tillögunum.

Helsingforssamingurinn kann að taka breytingum

Á fundi sínum mun forsætisnefndin ræða hvort nauðsynlegt sé að uppfæra grundvallarsáttmála Norðurlandaráðs, Helsingforssamninginn. Það yrði gert með það fyrir augum að samningurinn endurspeglaði betur núverandi stöðu í öryggismálum þar sem stríð geisar í Evrópu og Norðurlöndin öll eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Í dag er ekki minnst á utanríkis- og varnarmál í samningnum en þau málefni eru nú meðal þeirra mikilvægustu í Norðurlandaráði.

Helsingforssamningurinn var undirritaður árið 1962. Hann var síðast endurskoðaður árið 1995. Síðan þá hafa Norðurlönd gengið í gegnum miklar breytingar.

Það hvort og þá hvernig skuli uppfæra Helsingforssamninginn verður einnig til umfjöllunar á sameiginlegu málþingi Norðurlandaráðs á þriðjudaginn. Tilgangur málþingsins er að hefja umræður um mögulega endurskoðun Helsingforssamningsins.

Hvert er hlutverk norræns samstarfs?

Forsætisnefndin mun jafnframt fjalla um tillögu um að gerð verði úttekt á hlutverki Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar í tengslum við samstarf Norðurlanda um öryggis- og varnarmál og að unnin verði „Stoltenberg II“-skýrsla Í tillögunni er kallað eftir samnorrænni úttekt á núverandi stöðu öryggismála og möguleikum til nánara samstarfs um öryggismál á Norðurlöndum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra Norðurlanda á Íslandi, mun jafnframt taka þátt í fundi forsætisnefndarinnar. Ástæða þess er sú að ráðherrann og Norðurlandaráð eru nú að hefja viðræður um fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2024. Markmiðið er að samkomulag um fjárhagsáætlun liggi fyrir í júní 2023.

Samstarf tryggir matvæli á krísutímum

Norræna þekkingar- og menningarnefndin mun á fundi sínum meðal annars ræða hvernig bæta megi samstarf lýðháskóla á Norðurlöndum og fjalla um tillögu um viðurkenningu á afslætti fyrir námsfólk á ferðum alls staðar á Norðurlöndum.

Norræna sjálfbærninefndin mun meðal annars fjalla um tillögu um sameiginlegt átak um matvælaöryggi á Norðurlöndum. Samkvæmt tillögunni sýna krísur undanfarinna ára að úrbóta sé þörf þegar kemur að matvælaöryggi og sjálfsnægtarstigi. Eigi Norðurlönd að standa af sér loftslagsbreytingarnar sem fram undan eru þurfa þau að vinna betur saman.