Nýi framkvæmdastjórinn: Samstarfið á að gagnast öllum

18.03.19 | Fréttir
Paula Lehtomäki
Photographer
Kristian Septimius Krogh
Í dag, mánudaginn 18. mars, tekur Paula Lehtomäki við sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Það var nánast engin stund milli stríða hjá Lehtomäki, því síðasti vinnudagurinn í starfi hennar sem ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti Finnlands var í síðustu viku. En Paula Lehtomäki er bæti spennt og uppfull af orku.

 

- Þetta er sannarlega einstakt tækifæri, segir Lehtomäki. Traust á norrænu samstarfi hefur aukist á síðustu árum, bæði á Norðurlöndum og alþjóðlega. Nú sem aldrei fyrr höfum við möguleika á því að styrkja stöðu samstarfsins á Norðurlöndum.

Í skoðunarkönnun sem gerð var árið 2017 sögðust 90% aðspurðra Norðurlandabúa vera ánægðir með norrænt samstarf og 70% sögðust vilja enn nánara samstarf. Lehtomäki hefur fylgst náið með þessari þróun.

-Nú þegar umheimurinn virðist óútreiknanlegur og óstöðugur, er norræna fjölskyldan traustur og áreiðanlegur samstarfsaðili, segir hún.

Samstarfið verður að skipta máli fyrir Norðurlandabúa

Framkvæmdastjórinn segir að samstarfið eigi að einblína á málefni sem varða Norðurlandabúa, bæði til skamms og langs tíma. En á sama tíma er mikilvægt að norræn gildi og reynsla séu sýnileg á alþjóðlegum vettvangi.

-Í fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2019 er lögð áhersla á stafræna þróun, hreyfanleika og kynningu á Norðurlöndum á alþjóðavettvangi. Ég tel þessi málefni vera í takt við það sem Norðurlandabúar vilja. Við eigum að fylgjast með líðandi atburðum og nýta ný tækifæri sem geta stuðlað að frjálsri för. Okkur ber einnig skylda til að deila þekkingu okkar og reynslu með öðrum heimshlutum.

Paula Lehtomäki er fyrsta konan sem gegnir þessari stöðu og hún er einnig yngsti framkvæmdastjórinn í sögu Norrænu ráðherranefndarinnar. Hún telur að tilnefningin gefi mikilvæg skilaboð.

- Það er engin tilviljun að Norræna ráðherranefndin valdi yngri konu sem þar fyrir utan er stödd á miðjum starfsferli sínum, segir hún brosandi.